Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 17:41:32 (2579)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Menn fara stundum eilítið frjálslega með tölur og það gerði hæstv. forsrh. áðan þegar hann nefndi hvernig skattbreytingarnar kæmu niður á almenningi. Hann kaus að nefna eingöngu þá sem eru undir skattleysismörkum og þá sem voru yfir 200 eða 400 þús. kr. markinu og gat á þann hátt komið með tölurnar 3% og 6%. Nú veit ég ekki hvaðan hæstv. ráðherra hefur þessar upplýsingar þar sem embættismenn fjmrn. og Þjóðhagsstofnunar sögðu okkur í gærkvöldi og í hádeginu að þessar upplýsingar lægju ekki fyrir. Ráðuneytisstjóri forsrn. sagði líka að það hefði ekki unnist tími til að reikna þær út enn þá. Það sem er alvarlegast í þessu er að allar þær tölur sem við höfum fengið og allar þær upplýsingar sem við höfum fengið benda til að þessar álögur komi harðast niður, ekki í prósentum talið heldur sem hlutfall af afkomu og því sem menn þurfa að verja til brýnustu lífsnauðsynja, á þeim sem eru rétt yfir skattleysismörkum, á tekjuhópa sem liggja þar yfir.
    Eins og ég sagði í ræðu minni fyrr í dag mistókst ríkisstjórninni algerlega, eða kannski mistókst henni ekki, kannski var það vegna þess að þeir hópar sem hún tók tillit til á síðustu stundu voru hátekjuhóparnir og það voru fjármagnstekjueigendur. Á þessum hópum tók ríkisstjórnin ekki og því lítur dæmið út eins og það gerir núna.
    Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað ræða lokaorð hæstv. forsrh. um ábyrgðarleysi stjórnarandstöðu en ég kýs frekar að gera það með því að biðja um orðið aftur og taka til máls öðru sinni í þessari umræðu og ræða við forsrh. á þeim vettvangi um það.