Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 17:53:33 (2590)


     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. forsrh. sagði setningu áðan sem skýrir ágætlega hvers vegna ríkisstjórnin kaus að fara þessa leið. Hann fór að rifja það upp að hann hefði talið að aðilar vinnumarkaðarins hefðu tekið völdin af síðustu ríkisstjórn og hann vildi ekki lenda í því fari sjálfur. Það er greinilega það sem hann óttaðist. Þess vegna var þessi leið valin að ljúka málum með þeim allsherjarhrossakaupum sem hafa verið að gerjast í ríkisstjórnarflokkunum undanfarna daga. Inn í þau hrossakaup hafa verið tekin hin ólíklegustu mál, m.a. hefur samninganefnd ríkisins nú leyfi til þess að fara út með fullt umboð til að ljúka við að gera þann samning um aðgang erlendra aðila að Íslandsmiðum sem hefur vofað yfir okkur. Það er m.a. innifalið í þessum allsherjarhrossakaupum. Fyrir utan það að nú hefur tekist í ríkisstjórninni að ljúka málinu um kvótakerfið með þeim hætti að það er framlengt óbreytt og Alþfl. þurfti að greiða það gjald til þess að komast í gegnum þennan kaupskap allan saman.
    Ég tel þetta hið herfilegasta mál að öllu leyti og finnst að hæstv. forsrh. hafi einmitt lýst því nákvæmlega fyrir okkur hvað hann óttaðist. Það var að lenda í sama farinu og hann taldi að fyrri ríkisstjórn hefði lent í. En það hefði verið reisn yfir þessari ríkisstjórn ef hún hefði treyst sér til þess að fara í gegnum samninga við aðila vinnumarkaðarins, taka kjarasamningamálin með í dæmið því að það þurfti og taka umræðu um þjóðarsátt til lengri tíma, a.m.k. tveggja ára. Þannig hefði þurft að standa að þessum málum.