Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 18:44:07 (2596)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Án þess að það væri kannað sérstaklega geri ég ráð fyrir að öllum þingmönnum hér í þessum sal þyki vænt um börn og enginn sé fremri öðrum í þeim efnum. En varðandi gengið vil ég ekki vera að gera því skóna að norska krónan falli, það er ekki viðeigandi. Ég hef eingöngu sagt að eftir að gengi íslensku krónunnar hefur almennt verið leiðrétt gagnvart fjölmörgum gjaldmiðlum, auðvitað gagnvart pundi sem hafði áður fallið, gagnvart jeni, dollara, marki, peseta o.s.frv., þá hefur breyting á norsku krónunni ekki eins mikil áhrif og áður hefði verið. Ef breyting hefði orðið á norsku krónunni að gengisbreytingum ekki gerðum á Íslandi þá hefði það getað haft úrslitaáhrif, ekki vegna þess að viðskiptin séu svo mikil hér við norska krónu, heldur vegna samkeppnisstöðunnar gagnvart Noregi. En ég geri því ekki skóna að norska krónan falli. Það er ekki viðeigandi af minni hálfu. Þó að það mundi gerast þá tel ég óþarfa að ætla að það hefði nokkra breytingu fyrir okkur úr því sem nú er komið.