Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 21:51:02 (2606)

     Jón Helgason (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. forsrh. staðfesti það að hann hefði ekki minnst á 4 milljarða framlagið sem er aðalráðstöfunarfé nýja sjóðsins og ég ræddi um. Hins vegar kom loksins fram skýrt svar frá honum um það að þessi sjóður ætti að standa undir öllum skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs, atriði sem formaður LÍÚ sagðist ekki trúa að Sjálfstfl. dytti í hug að ætla sjávarútveginum að gera. Ég gat ekki áttað mig á því hversu harkaleg viðbrögð hans yrðu á móti slíku. Hann mundi a.m.k. aldrei sætta sig við slíkt.
    Hvað varðar ferðaþjónustuna er allt annað hljóð í þeim sem þar eru um þá útkomu að það verði slétt uppgjör vegna þessara ráðstafna. Væntanlega mun það skýrast betur en framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins hafði allt annað um það mál að segja á nefndarfundi.