Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 00:26:37 (2635)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er þingmanninum sammála um að það er afskaplega mikilvægt að það sé trú á aðgerðum af þessu tagi. Þar sem ég og þingmaðurinn erum sammála um þetta, þá hefðu auðvitað allir þingmenn átt að forðast það að reyna að gera aðgerðir af þessu tagi tortryggilegar, reyna að skapa vantrú. En því miður hafa sumir þingmenn í þessum sal lagst í það að reyna að skapa vantrú, reyna að veikja tiltrú á þessum aðgerðum, reyna þar með að draga úr trú fólksins á aðgerðirnar og þar með draga úr möguleikum þess að þær gangi upp. Miðað við það sem þingmaðurinn sagði hafa slíkir þingmenn ekki verið að vinna góðverk gagnvart fólkinu.