Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 13:53:12 (2645)


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það má vel vera að ég hafi ekki talað svo skýrt að það skildist sem ég lét frá mér fara. Mér er ljóst að í þessu frv. er ekki verið að fjalla um forréttindi sendiráða. Hér er, ef ég skil þetta rétt, aðeins verið að fjalla um það að veita mjög mörgum aðilum hliðstæð forréttindi og sendiráðin hafa. Það er því verið að færa út þau réttindi að þurfa ekki að lúta lögum í viðkomandi landi. Sem sagt að sleppa við dóma og geta í nafni friðhelginnar fengið að komast úr landi þó menn hafi brotið af sér. Ég segi það fyrir mig að mér finnst of langt gengið að starfsmenn alþjóðastofnana skuli njóta jafnmikillar friðhelgi og hér er verið að tala um. Menn verða að reyna í framtíðinni, að mínu viti, að greina á milli þess hvort um er að ræða ríki sem er viðurkennt sem réttarríki, þ.e. að almenn mannréttindi séu þar virt, og þeirra ríkja þar sem engin mannréttindi eru virt og setja sér einhverjar leikreglur þar á milli. En að setja upp vaxandi forréttindi og friðhelgi handa

starfsmönnum alþjóðastofnunana finnst mér ekki vera rökrétt. Mér finnst það einfaldlega ekki vera rökrétt. Mér þykir alveg nóg um friðhelgi þeirra manna sem eru starfsmenn sendiráða þó ekki sé verið að færa þetta út.