Mannréttindi í Eystrasaltsríkjunum

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 10:57:20 (2688)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Þessi fsp. snertir málefni sem er til meðferðar á þingi Evrópuráðsins þar sem ýmsir þingmenn sitja af hálfu Alþingis og fjalla um þessi mál, mannréttindamál í Eystrasaltsríkjunum og m.a. þessa spurningu um borgararéttindi. Ég get ekki tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda að það sé um óbilgjarna meðferð á þeim málum að ræða í þessum ríkjum, Eistlandi og Lettlandi. Þvert á móti finnst mér að þar sé verið að leita leiða með skynsamlegum hætti til þess að leysa mjög viðkvæmt og vandmeðfarið mál með því að þessi nýfrjálsu ríki þurfa að veita hundruð þúsunda manna borgaraleg réttindi, manna sem komu inn í löndin án þess að það væri með eðlilegum hætti. Mér finnst að þarna sé ekki um neina óbilgirni að ræða, þvert á móti tilraunir til þess að leysa með viðunandi hætti þetta mikla vandamál. Það er alveg ljóst að á vettvangi Evrópuráðsins getur Ísland látið þetta mál til sín taka.