Mannréttindi í Eystrasaltsríkjunum

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:00:03 (2690)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Þau mál sem hér eru rædd voru til umræðu í efnahagsnefnd Norðurlandaráðs sem hélt fund í Riga í Lettlandi í lok septembermánaðar. Þar áttum við fund með sendiherrum Norðurlanda í Riga og fulltrúum þeirra og þar kom fram að þeir fylgdust náið með þessum málum og hefðu af þeim verulegar áhyggjur hvernig staðan væri og þannig hefur þetta verið til umræðu á vettvangi Norðurlandaráðs, þingmannahluta þess.
    Hér er, eins og fram hefur komið, um afar viðkvæmt mál að ræða sem eðlilegt er og eflaust vandmeðfarið. Við hljótum að hafa fullan skilning á sjónarmiðum Eystrasaltsríkjanna sem búa við þau ókjör að þangað hafi verið flutt hundruð þúsunda fólks frá Sovétríkjunum, Rússlandi sérstaklega, á þeim tíma sem þessi lönd voru hernumin. Það er yfirgnæfandi meiri hluti Rússar á sumum svæðum, t.d. í Eistlandi, og skapar þetta auðvitað mikla ólgu og mikil vandamál. Þetta vandamál er ekki síður spurning um það hvernig Eystrasaltsríkjunum tekst að tryggja sig og sjálfstæði sitt í sessi í reynd með því að vinna sig út úr þessu og Íslendingar eiga auðvitað að leggjast á sveif með að þetta fái sem farsælasta lausn.