Mannréttindi í Eystrasaltsríkjunum

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:06:19 (2693)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt hjá þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í þessari stuttu umræðu að hér er um viðkvæmt og vandmeðfarið mál að ræða, en ég vil aðeins ítreka að með margvíslegum hætti og óbeinum hætti hefur Norðurlandaráð gert ráðstafanir og gerir ráðstafanir til þess að efla, styðja og styrkja lýðræðisþróunina í þessum löndum án þess að ráðherranefndin eða Norðurlandaráð hafi með formlegum eða beinum hætti gert þar athugasemdir við enda held ég að það skipti ekki höfuðmáli, heldur sé miklu mikilvægari sá óbeini og mikli stuðningur sem veittur er.