Mótmæli gegn plútonflutningum

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:11:12 (2695)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :     Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr hvort ríkisstjórnin hafi komið á framfæri mótmælum á alþjóðavettvangi vegna flutninga á hágeislavirku plútoni frá Frakklandi til Japans sem nú standa yfir. Málið á sér langan aðdraganda, allt frá árinu 1988 eins og fram kom í inngangsorðum hv. fyrirspyrjanda. Á sínum tíma var um það fjallað af utanrmn. og ályktað gegn þessu og þeim mótmælaorðsendingum komið á framfæri.
    Ríkisstjórnin hefur, eins og staða þessa máls er nú, komið á framfæri orðsendingu við ríkisstjórn Japans og fól sendiherra Íslands í Noregi að koma því á framfæri við sendiherra Japans gagnvart Íslandi sem hefur aðsetur í Ósló og var það gert 23. nóv. sl. Fréttatilkynning um það hefur þegar verið birt. Tekið var fram í minnisblaðinu að varúðarreglan í umhverfismálum ætti við um flutninga á geislavirku efni. Með varúðarreglunni er átt við að ef vafi ríkir um öryggi ákveðinna aðgerða skuli hann túlkaður umhverfinu í hag. Lögð var áhersla á að samfélag þjóðanna yrði að taka ákvörðun um nauðsyn flutninga með geislavirk efni og jafnframt öll öryggisatriði sem snúa að þeim. Á meðan ekki hafa verið samdar alþjóðlegar reglur á þessu sviði séu íslensk stjórnvöld algerlega mótfallin þessum flutningum. Umhvrn. hefur haft samráð um þetta mál við utanrrn. og hefur það verið rætt á fundi umhverfisráðuneyta Norðurlandanna eins og hæstv. umhvrh. og samstarfsráðherra Norðurlanda mun gera nánari grein fyrir.