Vaxtalög

65. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 16:58:26 (2764)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði við 1. umr. um málið. Ég er og hef verið því fylgjandi að þetta mál fái hraða afgreiðslu. Það var að vísu með því skilyrði að við fengjum fyrir 2. umr. skýlausa yfirlýsingu frá Seðlabankanum að hann hygðist beita þessu ákvæði, þessari lagabreytingu, nú þegar við ákvörðun dráttarvaxta fyrir desember.
    Það liggur nú fyrir og jafnframt leggur nefndin á það áherslu í sínu nál. að í kjölfar þessa verði unnið að því hörðum höndum í ríkisstjórn og sjóðakerfinu að lækka vexti og skapa hér aðstæður og skilning fyrir nauðsyn þess að lækka vexti. Ég tel reyndar að samþykkt frv. og sú hraða meðferð sem málið hefur fengið sé miklu frekar árétting Alþingis á því að Alþingi telji að nú verði að vinna hörðum höndum að því að lækka vexti.