Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 21:42:58 (2805)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Reykv. hefur hafnað því að gefa þjóðinni tækifæri til að segja álit sitt á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ræðumaður hafnar því að samningurinn brjóti í bága við stjórnarskrána og að þjóðin fái þannig að segja sitt álit. Ræðumaður hefur haldið þeim rökum fram að umboð til að ljúka málinu hafi verið fengið í kosningum í ljósi yfirlýsinga flokksins.
    Ég hef rakið hér að yfirlýsingar Sjálfstfl. í síðustu alþingiskosningum voru allt aðrar og sterkari en samningurinn kveður á um. Ég er hér með tilvitnanir í fimm þingmenn Sjálfstfl. sem lýsa yfir ýmsum skoðunum sem ganga gegn EES-samningnum. T.d. hv. þm. Tómas Ingi Olrich sem segist aldrei muni styðja að á Alþingi verði samþykkt lög sem veiti útlendingum sama rétt til að kaupa land og Íslendingum. (Gripið fram í.) Hann heitir Tómas Ingi Olrich. Hv. þm. Árni Ragnar hafnar EES-samningnum og telur að við eigum að taka upp tvíhliða viðræður við EB. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hafnar EES-samningnum og telur að við eigum að taka upp tvíhliða viðræður við EB og segir reyndar að EES-svæðið feli í sér samning um valdaafsal þjóðríkja. Um valdaafsal þjóðríkja. Hv. þm. Björn Bjarnason segir í blaðagrein 16. apríl, fjórum dögum fyrir kosningar, með leyfi forseta: ,,Þeir sem hafa kynnt sér umræðurnar um EES og þær vonir sem bundnar eru við samningaviðræður EFTA og EB af ríkisstjórnum EFTA-landanna vita að þar líta menn á EES sem fyrsta og annað skrefið inn í Evrópubandalagið.`` Og hæstv. sjútvrh. segir í blaðagrein í janúar 1991: ,,Þeir sem gerst þekkja vita að það er stigsmunur en ekki eðlismunur á aðild að Evrópska efnahagssvæðinu.``
    Það er ljóst að Sjálfstfl. hefur ekki fengið það umboð sem hann þykist hafa til þess að ljúka málinu. Ég spyr því hv. 6. þm. Reykv. hvernig hún getur hafnað því að þjóðin fái að segja sitt álit á þessu máli.