Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 14:10:00 (2862)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það frv. sem hér er komið úr nefnd er eitt af mörgum sem er flutt vegna ráðgerðs samnings um Evrópskt efnahagssvæði. Fyrir okkur liggur álit meiri hluta og minni hluta hv. menntmn. um þetta mál þar sem meiri hlutinn leggur til að málið verði samþykkt en minni hlutinn mun ekki taka afstöðu til málsins eða mun sitja hjá við afgreiðslu þess.
    Mér sýnist nú þegar þetta mál liggur hér fyrir að þá blasi við að það sé eitt og annað sem ekki er fullljóst eftir málsmeðferð í nefndinni varðandi afleiðingar þessa frv. Það má þó vera að nefndarmenn hafi upplýsingar að færa um það, formaður nefndarinnar eða aðrir nefndarmenn sem hér eru viðstaddir og þar á meðal þau atriði sem hæstv. ráðherra ekki gat svarað hér áðan, aðspurður varðandi áhrif þessa máls á íslenska löggjöf að því er varðar verndun starfsheita sem lögboðin er í ýmsum greinum. Mér sýnist að það sé ekki rétt í rauninni að þetta mál komi hér til afgreiðslu eftir 2. umr. án þess að atriði sem þetta, sem hv. þm. Finnur Ingólfsson vakti athygli á rétt áðan, sem og önnur álitaefni sem kunna að tengjast þessu frv. og nefnd hafa verið, m.a. af hv. 2. þm. Vestf., og við þyrftum að átta okkur á því hvort ekki sé rétt að nefndin fjalli þá frekar um málið til þess að skoða slík vafaatriði betur áður en málið kemur hér til efnislegrar afgreiðslu frá þinginu við lok þessarar umræðu.
    Hér er um að ræða mál sem efnislega séð fljótt á litið getur virkað jákvætt eins og fram kemur hjá minni hluta nefndarinnar sem af ýmsum ástæðum vill ekki bera ábyrgð á þessu máli, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og Svavar Gestsson sem standa að minnihlutaáliti. Undir það sem þar er sagt vil ég taka vegna þess að þessi málabúnaður sem er bundinn við Evrópskt efnahagssvæði er tekinn út frá mjög þröngu sjónarhorni varðandi alþjóðasamstarf af okkar hálfu og á það reyndar við um fjölmargt annað sem tengist þessum samningi.
    Það kom fram hjá einum af fulltrúum meiri hlutans í nefndinni, hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, að hún undirritar nál. með fyrirvara og ef ég hef skilið hana rétt þá er það vegna 7. gr. samningsins um að lögin öðlist gildi um leið og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði öðlast gildi að því er Ísland varðar. Ég sé ekki að það hafi verið gerð nein brtt. við þessa 7. gr. eins og þó hefur verið gert varðandi ýmis mál sem menn vilja standa að vegna efnisinnihalds þó að þau séu fram komin hér af tilefninu samningur um Evrópskt efnahagssvæði, þ.e. að stjórnvöld hafi tekið þau upp vegna þrýstings sem tengist ráðgerðri aðild að þessum samningi. Ég sé hins vegar ekki að þessi fyrirvari hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur leysi hana frá þeim vanda hvernig hún ætlar að taka á því máli þegar frv. kemur til afgreiðslu eins og það er í stakk búið --- ég vænti að hv. þm. heyri til mín --- af hálfu nefndarinnar og væri út af fyrir sig fróðlegt að átta sig á því þó að það sé kannski ekki neitt meginmál í þessu samhengi.
    Mér hefur nú ekki unnist tími til þess að kynna mér annað þskj. sem tengist almennt samningi um Evrópskt efnahagssvæði sem er nál. frá 1. minni hluta utanrmn. um frv. til laga um Evrópskt efnahagssvæði sem var dreift hér í þingdeildinni á þessum fundi að ég held og rúmar heilar tvær blaðsíður en ég hef ekki haft ráðrúm til þess að skoða það og hvort það auðveldar þingmönnum Framsfl. sem þarna eiga í hlut að taka á þessum málum hér í þinginu, þ.e. frumvörpum sem tengjast þessu efnu. En það kann að vera. Ég hef ekki lesið þetta nál. frá hv. þm. Steingrími Hermannssyni og Páli Péturssyni um þennan stærsta samning sem borið hefur að Íslendingum eftir að lýðveldið var stofnað og er upp á heilar tvær blaðsíður í þingskjalabroti.
    Ég vil taka undir málflutning hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar að því er varðar 4. gr. og það sem snýr að setningu reglugerðar á grundvelli hennar. Þar er komið að máli sem tengist þessum samningi og bindingu lagaákvæða við þennan samning um Evrópskt efnahagssvæði og allan þann aragrúa tilskipana sem þar liggur fyrir og spurningarinnar um það hvað á að opna mikið fyrir reglugerðarheimildir í sambandi við þennan samning. Mér sýnist að hér sé eitt dæmi þótt ekki sé það kannski stórt og við eigum eftir að sjá það mun viðameira á mörgum sviðum að því er varðar þennan samning ef af honum verður og Ísland gerist þar aðili sem við skulum nú vona að ekki verði niðurstaðan.
    Sú breyting sem lögð er til á 4. gr. að breyta fleirtölunni á ,,tilskipunum`` yfir í ,,tilskipun þeirri`` kann að vera til einhverrar þrengingar í þessu efni en breytir þó ekki því að hér er gert ráð fyrir víðtækum heimildum til setningar á reglugerðum að því er tengist ákveðnum þætti þessa máls.
    Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir því að menntmrn. tilnefni sérstakan umsjónarmann sem fer með þau málefni sem undir lög þessi falla í umboði ráðuneytisins. Ég vek athygli á þessu. Ég hugsa að þetta sé í fyrsta sinn --- eða ég man ekki eftir að hafa séð svona tillögu að lagatexta --- að það þurfi að lögbjóða málsmeðferð innan eins ráðuneytis hérlendis, að það þurfi að setja það í lög og að viðkomandi starfsmaður annist þau málefni sem undir lögin falli í umboði ráðuneytisins. Og það væri fróðlegt að vita hvort við ættum von á því að fá slíkar tillögur í ríkum mæli að við þurfum að fara að kveða á um það vegna tilskipana Evrópubandalagsins hvernig menn haga störfum innan íslensku ráðuneytanna, íslenska Stjórnarráðsins. En það er alveg augljóst að þetta er það sem þarf að gera og þetta er svo rækilega njörvað við Evrópubandalagið og regluverk þess eins og sjá má af 5. gr. því að þar er vikið að því í 2. efnislið að þau stjórnvöld sem tiltekin lögvernduð störf heyra undir skuli tilnefna fulltrúa sem fer með viðkomandi mál sbr. 9. gr. 1. tölul. tilskipunar 89/48/EBE. Og nánari ákvæði um þessara aðila skulu sett í reglugerð. Þarna kemur enn reglugerðarheimild og reglugerðarákvæði um þetta.
    Það er kannski ekki tilefni til að fara að ræða stöðu okkar hér á Alþingi og íslenska stjórnkerfisins með tilliti til Evrópubandalagsins vegna þessa frv. afmarkað. En þau eiga eftir að verða ansi mörg málin sem koma til okkar sem virka mjög sérkennilega á okkar stöðu varðandi málsmeðferð hér á Alþingi. Við erum rétt farin að fá forsmekkinn að þessu því fyrir utan það sem liggur fyrir í pappírum og búið er að fara yfir nú þegar og tengt var samningnum eins og hann var þegar afstaða var tekin til hans efnislega á miðju ári 1991, þá hafa bæst við hundruð tilskipana sem utanrrn. hefur gert þinginu lauslega grein fyrir nú þegar í hverju felist og sem óhjákvæmilegt verður fyrir Íslendinga og Alþingi að innbyrða ef þessi samningur verður lögfestur á sama hátt og gildir um það færiband reglugerða sem Evrópubandalagið eitt verður ákvarðandi um. Þau EFTA-ríki sem eftir verða, en margt bendir til að þeim eigi eftir að fækka, þau eigi eftir að týna tölunni á næstu árum ef mál ganga fram eins og ríkisstjórnir í ýmsum EFTA-ríkjum vilja, en þá eigum við eftir að sjá hér færiband sem flytur okkur lög sem ákvörðuð eru á samningssviðinu, einhliða ákvörðuð af framkvæmdastjórninni þó svo um þau verði fjallað ráðgefandi og leitað samráðs innan sameiginlegrar nefndar og í ráðherraráði. Þau verða nú mörg erfiðari málin sem eiga eftir að koma upp þar heldur en það frv. sem við ræðum hér og það gætu orðið þyngri skref fyrir t.d. hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að skrifa upp á þau efni með fyrirvara þegar kemur að afgreiðslu þeirra mála hér á Alþingi en ég er að vona að sá fyrirvari sem hefur verið settur eigi eftir að styrkjast þannig að hún verði ekki ein af þeim sem verða til að greiða götu þessa samnings hér á Alþingi Íslendinga þegar frv. um staðfestingu hans kemur til afgreiðslu.
    Ég vek líka athygli á því, virðulegur forseti, að það eru þættir sem tengjast þessu máli sem varða vinnumarkaðinn á Íslandi. Það hefur reyndar þegar verið vakin athygli á því að því er varðar lögverndun starfsheita, en síðan eru það hin almennu ákvæði til rýmkunar fyrir alla þegna, alla ríkisborgara innan hins Evrópska efnahagssvæðis til þess að fá hér atvinnu og njóta þar jafnræðis við íslenska þegna.
    Það kann að vera að menn þurfi ekki að hafa jafnmiklar áhyggjur af því að því er varðar fólk með sérþekkingu eins og einstaklinga sem sækja um atvinnu eða eru starfandi á hinum svokallaða almenna vinnumarkaði, þ.e. þar sem ekki er krafist langskólanáms eða viðurkenndra sérréttinda, en þó er ég smeykur um það að á þetta geti reynt, enda liggur það fyrir að því er varðar fjölmörg störf sem snúa að þessu frv. sem hér er verið að flytja og mæla með samþykkt á.
    Það er athyglisvert, virðulegi forseti, og tengist þessum þætti málsins að þing Alþýðusambands Íslands, sem nýlega var haldið norður á Akureyri og fjallaði m.a. um Evrópskt efnahagssvæði, lýsti ekki yfir stuðningi sínum við það mál eins og mál voru lögð fyrir það þing af nefndum á vegum miðstjórnar Alþýðusambandsins. Þvert á móti er að finna í ályktunum þings Alþýðusambandsins að því er þetta varðar mjög ákveðna varnagla, viðvaranir að því er snertir þetta mál og að því er það tengist íslenskum vinnumarkaði fyrir utan svo hina ákveðnu gagnrýni sem þar er borin fram vegna þess að meiri hluti hér á Alþingi skellti skollaeyrum við hinni víðtæku kröfu almannasamtaka í landinu og tugþúsunda einstaklinga, skriflegri kröfu tugþúsunda einstaklinga um að bera mál þetta undir þjóðina í almennri atkvæðagreiðslu.
    Það er mjög eðlilegt, ekki síst nú þegar þrengir að á íslenskum vinnumarkaði, að menn horfi á þau ákvæði sem verið er að innleiða í sambandi við stöðu hinnar stóru heildar, 380 millj. manna heildar til að hafa jafnstöðu að því er varðar möguleika til starfa hér á Íslandi sem annars staðar. Ég hef ekki á móti því og bið að mál mitt sé ekki skilið þannig að ég telji að það eigi ekki að leita gagnkvæmra leiða til þess að viðurkenna gildi prófa og menntunar sem fólk hefur aflað sér. Það er allt annað mál að menn viðurkenni það heldur en að vísa frá eða fella niður þau ákvæði sem snúa að forgangi Íslendinga til starfa í landinu. Ég tel að það sé það sem við þurfum að gæta að miklu ríkar heldur en spurningunni um það hvert menn geti leitað erlendis til þess að fá viðfangsefni. Þar hefur hvert land haft sína löggjöf og sín ákvæði. Þar hefur Evrópubandalagið sett samræmdar reglur. Þar hefur tekist að gera tvíhliða samninga um ýmis efni sem er jákvætt mál, ekki síst á sviði menntamála og varðandi rannsóknir, vísindi og umhverfismál þar sem við höfum náð tvíhliða samningum við Evrópubandalagið á grundvelli vinnu sem hefur farið fram óháð spurningunni um þetta Evrópska efnahagssvæði. Og það er með þeim hætti sem ég hefði viljað að einnig væri tekið á þessu máli sem hér er lagt fyrir þingið í staðinn fyrir að njörva það við þennan samning og setja þingið strax í þann vanda að tengja gildistökuákvæði þessa frv. við spurninguna um samþykkt frv. um staðfestingu á aðild að Evrópsku efnahagssvæði. Það er mjög ófarsælleg og óvænleg leið. Sem betur fer hafa sumar þingnefndir tekið öðruvísi á málum en hér er gert og aftengt þetta ákvæði ef svo má segja, þ.e. að taka burtu tenginguna við samninginn og gera gildistökuákvæðið almennt þegar um er að ræða mál sem eru jákvæð í eðli sínu og hægt er að skapa samstöðu um.