Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 14:52:21 (2870)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. formaður menntmn. sem hér talaði vék að því að varðandi þetta mál yrði viðhaft eða stæði til að viðhafa samstarf við aðila vinnumarkaðarins þegar lagt væri mat á hæfnipróf og réttindi aðila með tilliti til vinnumarkaðarins. Ég vil inna hv. þm. nánar eftir því hvaða svigrúm hún telji að þessir aðilar hafi til þess að hafa þarna áhrif og í hvaða átt þau muni beinast og hvaða réttarstöðu hagsmunaaðilar hér, aðilar vinnumarkaðarins sem hún tiltók, hafi í þessu sambandi. Það væri fróðlegt að fá það dálítið nánar skýrt.
    Í öðru lagi sagði hv. þm. að unnt væri að krefjast viðbótarprófa í sambandi við þessi störf ef réttindi eru talin ófullnægjandi. Það efast ég ekki um að sé hægt enda liggur það utan við þann ramma sem hér er verið að lögfesta. En á hitt vil ég benda að það er ekki víst að betri staða Íslendinga að þessu leyti verði varin til lengri tíma og að okkur verði stætt á því að gera meiri kröfur til aðila sem koma af hinu Evrópska efnahagssvæði utan Íslands, meiri kröfur vegna þess að við höfum hugsanlega haldið uppi betri menntun og hærri kröfum að því er varðar réttindi. Ég vísa í þessu sambandi við annars frv. sem varðar aðallega starfsréttindi heilbrigðisstétta þar sem einmitt kom fram í umræðu að líkur væru á því að kröfur yrðu lækkaðar og minnsti samnefnarinn mundi gilda.