Kjaradeila sjúkraliða

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 15:40:55 (2883)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé óhætt að segja að heilbrigðisstéttir á Íslandi hafi verið seinþreyttar til vandræða. Alla vega þær stéttir sem eru dæmigerðar kvennastéttir. Það sést á laununum. En nú er mælirinn fullur. Ástæðan fyrir því að upp úr sýður er sú að samningar eru ekki í gildi og hafa ekki verið í gildi síðan í febrúar 1991. Þá runnu þeir út. Það er langur tími og það sem verra er að hafa ekki verið fundir með þessum aðilum síðan í júní fyrr en núna síðustu daga.
    Bak við lögverndað starfsheiti sjúkraliða liggur þriggja ára sérnám. Eins og kom fram hér áðan eru byrjunarlaun 52 þús. kr. á mánuði og hæstu laun geta orðið 64 þús. kr. Stéttin hefur um 1.500 starfandi félaga innan sinna vébanda. Sjúkraliðar á landsbyggðinni hafa haft heldur betri samninga en á Stór-Reykjavíkursvæðinu, m.a. vegna þess að það hefur verið erfitt að manna stöður sjúkraliða með þeim kjörum sem hafa verið í boði. Þegar verkaskipting ríkis og sveitarfélaga tók gildi árið 1990 var því lofað að kjör yrðu ekki rýrð hjá starfsfólki. Fólk trúði því að við það yrði staðið. En það á greinilega ekki að standa við það. Nú skeður það að sjúkraliðar sem ráða sig út á land fá allt að því 25% lægri laun en þeir sjúkraliðar sem eru þar starfandi. 25% lægri laun. Hvernig haldið þið að það sé að starfa við hliðina á starfsmanni sem er með 25% lægri laun í sama starfi? Það er ekki hægt. Enda hefur það komið fyrir að sjúkraliðar hafa ráðið sig sem ófaglært starfsfólk á sjúkrahúsum og haft þó heldur skárri kjör. (Forseti hringir.) Virðulegur forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Það sýnir að menntun er einskis metin í þessu sambandi. Það er mjög slæmt. Það er algert skilyrði að staðið sé við þau loforð sem voru gefin varðandi verkaskiptinguna árið 1990.