Kjaradeila sjúkraliða

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 15:43:40 (2884)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hreyfa þessu máli en lýsi jafnframt vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra. Mér finnst hæstv. ráðherra berja höfðinu við steininn. Það er einfaldlega þannig að menn leysa ekki deildur með þeim hætti. Ég held að hæstv. fjmrh. eigi að beita sér fyrir því og hafa um það sem fæst orð hvernig hann fer að því að koma viðræðum af stað. Aðferðirnar eru ekki þær sem hann viðhafði hér áðan með yfirlýsingum um lögmæti aðgerða eða annað því um líkt.
    Í öðru lagi þýðir ekkert annað fyrir hæstv. fjmrh. en taka tillit til og viðurkenna tilvist þessa nýja stéttarfélags með 2.000 félagsmenn. Það er vonlaust mál fyrir ríkið að ætla að ganga þannig fram eins og það viti ekki af því að hér er orðið til stéttarfélag með samningsumboð og félagatal upp á 2.000 manns. Það er einfaldlega þannig að sjúkraliðar hafa fullan lagalegan rétt til þess að taka sín samningamál í sínar hendur. Ég held að talsmenn ríkisvaldsins verði að gæta sín gagnvart framgöngu sinni í þessari deilu að það verði ekki beinlínis af þeirra hálfu flokkað sem tilraun til íhlutunar sem varði við 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur.
    Það er enn fremur engin tilviljun að launakjör sjúkraliða sums staðar úti á landsbyggðinni voru betri en á höfuðborgarsvæðinu. Allir landsmenn nema núv. hæstv. ríkisstjórn þekkja ástæðuna fyrir því. Það var til að manna stöður þar sem erfitt var að fá fólk til starfa. Sú aðstaða hefur ekkert breyst. Ástæðurnar bak við þetta launakerfi eru því enn fyrir hendi og hafa ekki gufað upp.
    Ég skora á hæstv. fjmrh. að hlutast til um að samninganefnd ríkisins og sjúkraliðar setjist að samningaborðinu á nýjan leik. Það er auðvitað fyrsta skrefið til að leysa þessar deilur. Í öðru lagi er ekki hægt annað en harma það að hæstv. ríkisstjórn skuli endalaust vera í styrjöld í heilbrigðismálum og við heilbrigðisstéttir og byrja þar ævinlega á öfugum enda. Það eru ekki sjúkraliðar og launakjör þeirra sem eru aðalútgjaldavandinn í heilbrigðismálum á Íslandi í dag. Hæstv. ríkisstjórn er enn einu sinni í styrjöld við vitlausa aðila í þessum málum.