Öryggi raforkudreifingar um landið

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 10:45:30 (2908)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Vesturl. fyrir að vekja máls á því vandamáli sem hér um ræðir. Það hefur komið fram að raforkudreifikerfið í sveitum er víða komið að fótum fram og framlög til þess frá opinberri hálfu hafa verið skorin mjög niður á síðustu árum og eru óbreytt á þessu ári frá því í fyrra.
    Það hefur komið fram í fjárln. þegar þessi mál hefur borið á góma, eins og hefur reyndar komið fram í ræðum þeirra sem hafa talað á undan, hæstv. ráðherra og 3. þm. Vesturl., að þetta dreifikerfi er olnbogabarn. Ekki er gert ráð fyrir þessu í verðlagningu og ekki er gert ráð fyrir því að verja nema rúmlega einum tíunda hluta þess sem þarf á ári til þessara verkefna. Í svörum hæstv. ráðherra kemur fram að lausnin er, eins og hjá þessari ríkisstjórn, fólgin í því að stofna hlutafélag um rafveitur ríkisins. Þá muni þetta mál leysast.
    Er hægt að bjóða upp á svona svör? Ég segi nei, vegna þess að hvaða aðilar eru tilbúnir til að kaupa hlutabréf í Rarik í þessu skyni? Þetta er ekki gróðafyrirtæki. Þetta er samfélagsmál og hluti af kostnaðinum við að búa í stóru landi og halda því í byggð. Mér blöskrar að heyra svona svör frá hæstv. ráðherra að bjóða upp á að það muni leysa þessi mál að stofna hlutafélag um rafveitur ríkisins.