Samkeppnislög

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 14:25:25 (2941)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það hefur verið spurt að því hverjir eigi Ísland og haldnir um það viðfangsefni margir fundir. Það hafa farið fram miklar umræður um óheppileg hagsmunatengsl, eignatengsl og pólitísk tengsl ákveðinna stórvelda hér í hinu smáa, íslenska viðskiptalífi. Sennilega hafa á undanförnum árum verið haldnar fleiri ræður um þetta mál undir ýmsum formerkjum, áhrif fjölskyldnanna 14, undir heitinu Veldi kolkrabbans o.s.frv., en flest önnur í okkar viðskiptalífi. Hér er lögð til tiltölulega einföld og fremur væg eða mildileg aðgerð til þess að setja þessum miklu hagsmunatengslum ákveðnar skorður. Því er vísað á bug af hálfu flutningsmanns að með því séu íslenskir hagsmunir eða samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja borin fyrir borð á nokkurn hátt en ég leyfi mér að fullyrða að þeir menn, sem ekki eru tilbúnir til að gera einu sinni þetta, jafnvægilegt og það er, til þess að setja þessum hagsmunatengslum, þessum vexti í íslenska viðskiptalífinu ákveðnar skorður, eru ekki tilbúnir til að gera neitt.
    Ég met mikils kjark þeirra hv. stjórnarþingmanna sem þegar hafa greitt þessari brtt. atkvæði en því miður virðast þeir ætla að verða of fáir sem þann kjark hafa. Að sama skapi er að sjálfsögðu geðleysi hæstv. samgrh. dapurlegt. Ég legg svo til að þeir menn sem standa að því ef svo fer að fella þessa tillögu, haldi ekki miklar ræður í bráð um kolkrabbann, um fjölskyldurnar fjórtán, um það hverjir eiga Ísland eða önnur slík efni sem þeim hefur verið tamt á undanförnum árum. Ég segi já, hæstv. forseti.