Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 18:05:57 (2976)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þau tíðkast greinilega breiðu spjótin milli ráðherranna. Það er alveg óþarfi fyrir hæstv. sjútvrh. að vera að senda utanrrh. skeytin í gegnum mig. Þau geta farið alveg beint hérna á milli.
    Hæstv. sjútvrh. var að segja það með því að beina orðum sínum til mín að það sem utanrrh. sagði sl. þriðjudag í viðtali við Morgunblaðið þegar samningarnir lágu fyrir hafi verið rangt. Hæstv. sjútvrh. er að tilkynna það í þingsalnum að hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson hafi farið með rangt mál þegar hann lýsir niðurstöðum samninganna í viðtali við Morgunblaðið sl. þriðjudag, 1. des.
    Ég bara spyr: Ef sjútvrh. byrjar þessa umræðu með því að lýsa því yfir að utanrrh. hafi farið með rangt mál, hvað þá með okkur hina, óbreytta þingmenn? Hvernig eigum við þá að fara að því að trúa hæstv. utanrrh.?