Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 22:08:01 (3004)


     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Mig langar til að benda forseta á þá staðreynd að í húsinu eru einungis sex stjórnarliðar. Þrjátíu stjórnarliðar sjá ekki ástæðu til að vera viðstaddir eða taka þátt í umræðum um þetta afar þýðingarmikla mál. Nú er það svo að það er ekkert einsdæmi að illa sé mætt á þingfundum því þingstörfum er þannig hagað að því er mér sýnist að mönnum er gefið frí frá þessum vettvangi sem hæstv. forsrh. líkti við gagnfræðaskóla á síðasta vetri. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvort áform eru um að halda lengi áfram í kvöld að svo mörgum þingmönnum fjarstöddum og hvort forseti hafi gefið þingmönnum burtfararleyfi frá þingfundi. Mér þykir ástæða til að bera þessar spurningar fram til forseta, ekki vegna þess að hér sé um þennan fund einan að ræða, heldur af þeirri ástæðu að ítrekað kemur þetta upp. Ég vildi um leið láta í ljós nokkra vanþóknun mína á því hvernig að þingstörfum er staðið hvað þetta varðar.