Afgreiðsla mála fyrir jólahlé

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 11:11:10 (3050)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd. Ég vil þakka hv. formanni fjárln. fyrir það sem hann sagði hér. Hann viðurkennir auðvitað að það eru allar líkur á því að einhverjar frekari tafir verði á því að við fáum upplýsingar sem við verðum að fá áður en til 2. umr. kemur, þ.e. áður en fjárln. lýkur sinni vinnu við gerð fjárlagafrv. áður en það kemur hér inn aftur og við munum að sjálfsögðu halda áfram að vinna úr þeim upplýsingum sem fyrir liggja. En endanleg afgreiðsla getur ekki orðið fyrr en að því loknu. Ég vildi aðeins undirstrika það og þakka hæstv. forseta einnig fyrir það sem fram kom í hennar máli áðan að auðvitað muni forsætisnefnd meta það yfir helgina hvernig mál þróast og þá flytja umræðuna til ef þörf krefur. En mér sýnist nú reyndar ekki í dag vera nein spurning um að það sé þegar ástæða til að fara að huga að skipulagi vinnunnar í næstu viku. Ég ítreka það líka að það verður að vera tími fyrir þingmannahópana til að skoða málin og svo að sjálfsögðu þar sem öllum er ljóst að nefndarálit verða að liggja fyrir daginn áður en umræða fer fram, þá verður það ekki gert fyrr en öllum slíkum upplýsingum hefur verið safnað saman að hægt verði að setjast niður til að skrifa nefndarálit.