Afgreiðsla mála fyrir jólahlé

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 11:15:27 (3053)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það hefur verið mjög erfitt að átta sig á því með því að sitja hér í salnum hvað hafi verið á dagskrá hverju sinni. Í umræðu um þingsköp er það reglan að beina orðum alltaf til forseta og stjórnar þingsins. Þangað á gagnrýnin að beinast ef menn ræða þingsköp. Í umræðum um vegamál vekur það undrun mjög hversu breitt það svið er orðið og undirstöður allar út og suður. (Gripið fram í.) Ég heyri að það er einn maður sem hefur skilning á þessu öllu saman, hv. 5. þm. Norðurl. v., vanur að leggja vegi um mýrakeldur þar sem mikil nauðsyn er að hafa undirstöður breiðar. En nú ber svo við að enn á að hræra í pottinum og hefja hér breytingar á dagskránni. Ég er ekki búinn að sjá að slík vinnubrögð auðveldi þingstörfin. Menn setjast hér niður og búa sig undir að tala í þeim málum sem eru á dagskrá í þeirri röð sem þetta ber að en með því að vera á eilífum fimleikum fram eftir dagskránni er bæði hægt að trufla viðveru þingmanna og ráðherra. Ég hvet nú forseta til að ganga nokkuð skipulega í þetta verk þannig að hægt sé að koma einhverju áfram hér á þessum morgunfundi.