Afgreiðsla mála fyrir jólahlé

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 11:19:02 (3056)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér upp nánast til þess að taka undir orð hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Mér finnst þetta nokkuð merkileg fundarstjórn hér. Við byrjum að taka fyrir fyrsta mál á dagskrá á tilteknum tíma og ræðum það stutta stund síðan er hafin hér umræða um þingsköp sem auðvitað er spurning hvernig fór fram. Að henni lokinni ákveður virðulegur forseti að taka fyrir 3. og 4. mál á boðaðri dagskrá fundarins. Ég veit satt að segja ekki um framhaldið, hvort meiningin er að taka þá á dagskrá aftur það mál sem er númer eitt á boðaðri dagskrá. En ég sé það að minnsta kosti, virðulegur forseti, eins og maður átti jafnvel von á, að ráðherrarnir eru farnir burtu. Og ég sá ekki annað en hæstv. fjmrh., sem kannski var eðlilegt að væri hér við umræðuna um vegamál, er gengin úr salnum. Þannig að ég segi það að mér finnst hér vægast sagt einkennilega að málum staðið.