Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:15:30 (3102)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég hjó eftir því í kvöldfréttum sjónvarpsins í gær að hæstv. utanrrh. talaði um lýðræðið í Sviss og þjóðaratkvæði sem vandamál. Það er ekkert vandamál að nota lýðræðið, að leyfa þjóðinni að segja álit sitt á málum. Hins vegar hefur auðvitað sú skoðun sem Svisslendingar hafa nú látið í ljós

skapað ákveðið vandamál fyrir stjórnvöld þar og fyrir stjórnvöld hér á landi sem halda mjög fram samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og að það þurfi að ljúka honum hið fyrsta.
    Þetta skapar eiginlega tvíþætt vandamálum getum við sagt. Í fyrsta lagi skapar þetta ákveðið pólitískt vandamál fyrir ríkisstjórnina og fyrir stjórnarflokkana. Í því sambandi langar mig til að segja frá því að á þingmannafundi EFTA, sem við nokkrir þingmenn vorum á fyrir skömmu, kom það fram í máli Hadar Cars, sem er formaður Evrópustefnunefndar sænska þingsins, að hann teldi mjög mikilvægt að vita hvar Íslendingar stæðu í þessu máli. Hann sagði sem eðlilegt var: Við Svíarnir viljum ekki fara í samninga öðru sinni eigandi á hættu að sú staðfesting strandi þá á Íslendingum og við þurfum að semja í þriðja sinn. Ástæðan fyrir því að hann sagði það er einfaldlega sú að hann veit ekki frekar en við hér inni hver er vilji stjórnarþingmanna í þessu máli. Hefur stjórnin meiri hluta á bak við sig í sínum þingflokkum? Það vitum við ekki og það virðast Svíar heldur ekki vita og það er auðvitað mjög pínleg pólitísk staða fyrir ríkisstjórnina að geta ekki sannfært sína samningsaðila um þessa hluti.
    En hins vegar getum við auðvitað verið með án þess að vera búin að ganga frá staðfestingunni hér því að við höfum ekki hafnað samningnum. Ef við hefðum hafnað samningnum þá gætum við ekki verið með í ríkjaráðstefnunni. En honum hefur ekki verið hafnað, samningsferlið er í gangi og meðan svo er í gangi getum við auðvitað tekið átt í viðræðunum.
    Hitt vandamálið er svo þinglegs eðlis. Við stöndum auðvitað gagnvart ákveðnu vandamáli hvernig við ætlum að fara með þetta frv. sem fyrir liggur og við getum auðvitað ekki haldið áfram með það eins og ekkert hafi í skorist. Það er ekki boðlegt fyrir þingið að samþykkja frv. sem við vitum að stenst ekki. Mig langar til að benda á 1. gr. sem ráðherra sagði að mundi strax fá lagagildi að sú grein fær ekki staðist eins og hún er orðuð í dag.