Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 19:44:57 (3154)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Af þessu tilefni skal það tekið fram að frá árinu 1989, í tíð forvera míns, var reglunum breytt, lögunum var breytt og það munu gilda óbreyttar reglur áfram. Reglurnar eru þær að við upphaf árs er miðað við skattvísitölu en á miðju ári við þróun lánskjaravísitölunnar. Það verður engin breyting á. Hins vegar hefur það gerst á þessu ári að verðbólgan hefur verið svo lág og lítil að það er ekki efni til þess að hækka persónuafsláttinn í upphafi árs. Ég sagði hins vegar að það mætti búast við talsverðri hækkun á okkar mælikvarða nú á miðju næsta ári vegna þess að verðbólgan er talin verða þó nokkur á næstu 3--4 mánuðum. Það verður því engin breyting á þeim reglum sem hingað til hafa gilt frá 1989.