Lánsfjárlög 1992

75. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 18:04:36 (3204)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hluta efh.- og viðskn. um breytingu á lánsfjárlögum fyrir árið 1992.
        Nefndin hefur fjallað um málið og reyndar áður en það kom til umræðu í þinginu. Hér er um það að ræða að flytja 4 milljarða í útgáfu húsbréfa frá árinu 1993 yfir á 1992. Reiknað er með að 1 milljarður af þeirri heimild verði notaður í lok ársins. Þetta er gert til þess að ekki komi gat í útgáfu húsbréfa. Nefndin hefur fjallað um málið og eins og fyrr segir mælir meiri hlutinn með samþykkt frv.
     Á fund nefndarinnar kom Yngvi Örn Kristinsson, stjórnarformaður Húsnæðisstofnunar ríkisins, og Halldór Árnason, skrifstofustjóri í fjmrn., og skýrðu málið út fyrir nefndinni.