Lánsfjárlög 1992

75. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 18:13:31 (3208)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er hægt að rifja upp umræður frá þeim tíma þegar húsbréfakerfið var í undirbúningi. Vegna þeirra orða hæstv. félmrh. að menn hefðu aðeins rætt um það á þeim tíma að ríkisábyrgð á húsbréfum yrði til að byrja með, þá er rétt að rifja upp hvernig sá þáttur var fram settur af hæstv. félmrh. til þess að hann sé alveg skýr. Miðað við framsetningu málsins þá er augljóst mál að ef farið verður að hrófla við ríkisábyrgðinni eru menn að gera breytingar skuldurum verulega í óhag.
    Í samantekt um málið frá 1988 sem ég hef undir höndum er verið að kynna þetta kerfi. Þar er m.a. kynnt til sögunnar ríkisábyrgðin og þáttur hennar í því að koma kerfinu á og viðhalda því. Þar segir svo, með leyfi forseta, þar sem spurt er um hættu á afföllum af húsbréfum:
    ,,Þarf að búast við afföllum á húsbréfunum? Eru þau fóður fyrir gráa markaðinn eins og andófsmenn húsbréfanna hafa haldið fram?
    Svarið við því er nei. Líklegt er að húsbréfin seljist á svipuðum vöxtum og spariskírteini ríkissjóðs og hafi svipaða stöðu þar sem húsbréfin eru ríkistryggð.``
    Það liggur því alveg ljóst fyrir, virðulegi forseti, að ríkisábyrgðin er kynnt þannig að hún verði að

vera varanleg og sé nauðsynleg til að halda vöxtunum niðri. Þegar ráðherra í hæstv. ríkisstjórn hreyfir þeirri hugmynd að afnema ríkisábyrgðina á húsbréfum þá er verið að koma óróa á þennan markað. Það er verið að skapa forsendur til vaxtahækkunar að óþörfu. Það verður því að liggja alveg skýrt og ótvírætt fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar hvort ríkisábyrgðin á húsbréfum muni standa áfram eða ekki. Eftir yfirlýsingar hæstv. fjmrh. í gær dugar ekki annað til þess að slá á væntingar braskaranna á verðbréfamörkuðunum en skýr og afdráttarlaus yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar um að ekki verði hreyft við þessum þætti.
    Sú yfirlýsing sem ég er að fara fram á er í fullu samræmi við málið eins og það var kynnt af hálfu þáv. og núv. hæstv. félmrh. Ríkisábyrgðin var eitt grundvallaratriðið í kerfinu. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér þykir alveg nóg að bregðast einni grundvallarforsendunni, sem voru vaxtabætur, þó menn bæti ekki annarri við með því að gefa út yfirlýsingar sem opna fyrir það að afnema ríkisábyrgð á þessum pappírum. Ef farið verður út á þá leið er óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að taka allt húsnæðislánakerfið til gagngerðrar skoðunar.
    Ég tel því afar nauðsynlegt að ríkisstjórnin tali skýrt í þessu máli og dragi yfirlýsingar hæstv. fjmrh. frá því í gær til baka. ( ÓÞÞ: Í síðasta lagi strax.) Í síðasta lagi strax. Hver maður getur reiknað út hvað vextir kunna að hækka við afnám ríkisábyrgðar á húsbréfum samkvæmt þeim forsendum sem ég var að gefa upp og hvaða álögur það eru sem menn eru að leggja á komandi skuldara, m.a. kannski með þessum flokki ef ríkisstjórnin verður snör í snúningum. Ef hún fer að taka upp á því að halda næturfundi, þá gæti henni dottið í hug að gera þetta bara strax.