Efling Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðis sem miðstöðvar fræðslu á sviði sjávarútvegs

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 10:52:56 (3239)

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu. Sömuleiðis ráðherra fyrir hans svör. Það er mjög brýnt að þessum þál. sem hér hafa verið til umræðu verði fylgt eftir og sérstaklega að samstarf Háskólans á Akureyri og rannsóknastofnana sjávarútvegsins, þ.e. Hafrannsóknastofnunar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, verði eflt mjög. Því ber að fagna þeim orðum sem sjútvrh. lét hér falla áðan. Ég held að það sé einnig mjög brýnt að um leið og við skoðun á möguleika á flutningi ríkisstofnana út á land komi aukið samstarf Hafrannsóknastofnunar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins við Háskólann á Akureyri til sérstakrar athugunar. Ég hef trú á að af því starfi muni leiða niðurstaða sem falli í þann farveg sem þessi þál. um eflingu Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins sem miðstöðvar fyrir fræðslu og rannsóknir á sviði sjávarútvegs fjallar um.