Kostnaður við löggæslu á skemmtunum

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:13:13 (3252)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að þetta svar hæstv. ráðherra er ekkert annað en móðgun við þingheim og fyrirspyrjanda. Ég lýsi megnustu vanþóknun minni á svörum af þessu tagi. ( Gripið fram í: Ég hélt að þið ættuð nú ekki að nefna snöru í hengds manns húsi.) Það er alveg ljóst að framkvæmd mála er með ósamræmdum hætti. Þau eru í sumum lögregluumdæmum eins og til er ætlast samkvæmt lögum og reglugerðum og í öðrum umdæmum ekki. Það þýðir að skemmtanahald þar sem vínveitingastaðir eru og aukin löggæsla sem af því leiðir er greidd af þeim sem standa fyrir skemmtununum í 16 lögregluumdæmum landsins en í 11 lögregluumdæmum, þar með talin nánast öll stærstu eins og hér á höfuðborgarsvæðinu, er þessi aukni löggæslukostnaður greiddur af almannafé. Hér er því um að ræða mismun á milli lögregluumdæma stóru lögregluumdæmunum í vil sem nemur tugum milljónum kr. á hverju ári. Og ég hlýt að ítreka fsp. mína og óska svara við því af hálfu hæstv. dómsmrh.: Hvers vegna þurfa þeir sem standa fyrir skemmtanahaldi hér í Reykjavík, þar sem eru hátt á annað hundrað vínveitingastaðir, ekki að taka neinn þátt í kostnaði vegna aukinnar löggæslu sem af þeirra starfsemi hlýst eins og í öðrum fámennum lögregluumdæmum er gert?