Fækkun stöðugilda hjá ríkinu

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:46:01 (3277)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þann skilning sem kemur fram í ræðum hv. þm. Ég vil fyrst segja það að ráðning og stöðugildi hafa ekkert með hvort annað að gera. Tökum dæmi.
    Ég hef einn aðstoðarmann, forveri minn hafði þrjá. Það þýðir ekki að stöðugildum hafi fækkað. Það þýðir aðeins að ráðningum hefur fækkað. Í mörgum tilvikum hafa ríkisstofnanir komist upp með það áratugum saman að hafa fleira fólk ráðið en stöðugildunum nemur. Þess vegna eru umræðurnar, eins og kom fram hjá hv. 9. þm. Reykv., afar vandmeðfarnar. Ég er sammála honum um að besta leiðin sé að dreifa þessu valdi til stofnananna, hætta að tala um stöðugildi en tala frekar um fjármagn sem rennur til þessarar stofnunar. Vandinn er hins vegar sá að það eru ekki einungis stjórnendur stofnana og stjórnvöld sem koma að þessu máli heldur einnig heildarsamtök launþeganna sem vilja semja við stjórnvöld í einu lagi vegna þess að hlutföll á milli manna eru svo viðkvæm í kjarasamningum. Ég er sannfærður um að ef stjórnendurnir einir réðu og stjórnvöld, þá væri þetta mál einfaldara en það er við samtök launþeganna að eiga og auðvitað hafa slík samtök sinn rétt.
    Ég veit að sums staðar hefur fólki fækkað en annars staðar hefur fólki fjölgað. Ég hef ekki þessar tölur handbærar en ég minni á að innan sviðs málefna fatlaðra hefur fólki fjölgað, eins og kemur glögglega fram í fjárlagafrv., en annars staðar, eins og þar sem stofnanir eru lagðar niður, fækkar fólki þó að það taki sinn tíma vegna biðlaunanna.
    Þetta bið ég menn að hugsa aðeins um þegar þessi vandasömu mál eru rædd. Að allra síðustu vil ég ítreka að ég tel að kannski hefði mátt segja nákvæmar frá þessu í skýrslu Ríkisendurskoðunar þó ég sé ekki að gagnrýna það sem er sagt þar.