Fjárlög 1993

78. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 14:17:31 (3279)

     Frsm. minni hluta fjárln. (Guðmundur Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Ég mun gera grein fyrir nál. minni hluta fjárln. um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993, sem flutt er á þskj. nr. 433.
    Frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 er komið til 2. umr. Fjárln. hefur haldið marga og oft stranga fundi frá því seint í september og fram á þennan dag. Ég vil í upphafi þakka gott samstarf við samnefndarmenn mína alla, bæði stjórnarliða og stjórnarandstæðinga og þó ekki síst formanninn, hv. þm. Karl Steinar Guðnason og starsfmann nefndarinnar, Sigurð Rúnar Sigurjónsson, svo og annað starfsfólk þings og ráðuneyta sem aðstoðað hefur nefndina í störfum sínum. Þá vil ég að fram komi að eins og jafnan áður hefur verið gott samstarf í nefndinni um vinnubrögð þó svo að menn takist auðvitað á um einstök atriði, efnisatriði og stefnumál.
    Í upphafi vann nefndin mest við að sinna ýmsum viðtölum svo sem venja er við sveitarstjórnarmenn, við fulltrúa félaga og samtaka ýmiss konar, við forsvarsmenn ráðuneyta og stofnana. Jafnvel hafa sumir hæstv. ráðherrar heiðrað nefndina með nærveru sinni. Að undanförnu höfum við einkum fjallað um útgjaldahlið frv. en samkvæmt venju mun tekjuhliðin að mestu bíða til umfjöllunar 3. umr.
    Við upphaf þessarar umræðu þegar komið er að afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár hlýtur maður að velta fyrir sér hver sé meginstefnan hjá hæstv. ríkisstjórn. Hvert er hún að fara með afgreiðslu fjárlaga, hvert stefnir hún eins og þau virðast nú líta út og hvernig samrýmast þau hinni boðuðu stefnu?
    Hæstv. forsrh. og aðrir hæstv. ráðherrar hafa sungið í kór sönginn um nýja og breytta stjórnarhætti. Boðskapurinn sem þeir hafa einkum fært fram er að skera niður ríkisútgjöld, hverfa frá sjóðasukkinu, afskiptaleysi af atvinnulífinu, óbreytt gengi, engar skattahækkanir, einkavæðing opinberra fyrirtækja og ríkisstofnana. Með hallalausum fjárlögum átti að treysta atvinnulífið, auka atvinnu, draga úr skuldasöfnun, lækka vexti svo eitthvað sé upp talið. Væntanlega hafa hv. þm. heyrt þessa upptalningu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.
    En hver er svo árangurinn ef við lítum á hvað hefur áunnist hjá þessum ágætu herrum? Hallinn á ríkissjóði hefur meira en tvöfaldast frá fjárlagatölu yfirstandandi árs. Halli á fjárlögum næsta árs stefnir í að verða líklega helmingi hærri en í fjárlögum þessa árs. Atvinnulífið er í kreppu, atvinnuleysi fer vaxandi og stefnir í að verða meira en þekkst hefur í marga áratugi, vextir hafa hækkað. Gengið hefur verið fellt, sjóðir til aðstoðar atvinnulífinu eru endurreistir, áður var það kallað sjóðasukk. Skattahækkanir og álögur á almenning eru meiri en nokkru sinni áður.
    Þetta er afrekaskráin og væri sjálfsagt hægt að tína fleira til. Mér virðist ringulreið og ráðleysi alls ráðandi í störfum hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarflokka. Ákvörðunum, sem teknar voru í gær, er breytt í dag og á morgun veit enginn hvað kann að koma upp úr jólasveinapokum þessara herra.
    Fyrr í haust komu tillögur til atvinnuskapandi aðgerða upp á 2 milljarða króna sem einkum átti að verja til vegagerðarframkvæmda. Nú er rætt um að skera þessar framkvæmdir niður, kann að vera að það gerist á milli 2. og 3. umr. fjárlaga. Í yfirlýsingum hv. formanns fjárln. hefur hann margítrekað að í þessu efni séu engar heilagar kýr til, allt verði skoðað og auðvitað leitað allra leiða.
    Í nóvember var hæstv. ríkisstjórn knúin til þess af aðilum vinnumarkaðarins að horfast í augu við hið alvarlega ástand sem við blasir í atvinnulífinu. Ætlaði hún þó lengst af að láta það afskiptalaust. Stjórnarandstaða lýsti sig reiðubúna til viðræðu um aðgerðir til að viðhalda þjóðarsáttinni. En ríkisstjórnin féll á prófinu. Það náðist ekkert samkomulag og þjóðarsáttin var rofin. Aðgerðirnar frá 23. nóv., sem hétu því fallega nafni ,,Að styrkja stöðu íslensks atvinnulífs og sporna gegn auknu atvinnuleysi``, duga nú skammt. Það er ekki sátt við aðila vinnumarkaðarins, hvorki við vinnuveitendur né launþega og ekkert útlit fyrir að hæstv. ráðherrar standi við sitt, vinni sín heimaverkefni eins og reiknað var með.
    Mig langar aðeins að skjóta hér inn í út af þeim ummælum hv. formanns fjárln. áðan að umræður í gær um þingsköp vegna starfa fjárln. hefðu kannski verið tímaskekkja ef litið er til atburða frá fyrri tíð að vissulega er það rétt að menn hafa oft tekið ákvörðun um að geyma verkefni milli umræðna, bæði stór og smá.

Það sem við blasti núna við fjárlagaafgreiðsluna við 2. umr. var að ráðherrar höfðu lagt fram tillögur sem voru viðamikill þáttur í þessum boðuðum efnahagasaðgerðum sem átti að þýða niðurskurð á ríkisútgjöldum um rúmlega milljarð króna, 1.200 millj. kr. Það var ljóst í gær að sá niðurskurður var langt frá því að vera í höfn. Það var aðeins það og fyrst og fremst það sem við stjórnarandstæðingar vildum draga fram og fá upplýst hvort hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarliðar ætluðu virkilega að fara í þessa umræðu án þess að hafa hugmynd um það hvert væri markmið ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra. Ætla þeir að halda áfram niðurskurði strax eftir þessa umræðu eða eru þeir fallnir frá þessum niðurskurði? Það var það sem ég bað um að fá hér fram í umræðunum í gær og að hæstv. forseti þingsins kynnti sér það og tæki ákvörðun í framhaldi af því hvort þessi umræða væri tímabær. Að því leytinu til á það ekkert skylt við það þegar menn taka ákvörðun um og ná samkomulagi um að ákveðnir málaflokkar séu geymdir frá 2. umr. til þeirrar 3. eins og við höfum alla jafna gert, t.d. með tekjuliðina.
    Vissulega eru í boðuðum aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar ýmsir jákvæðir þættir. Það er leitað leiða til að styrkja atvinnulífið. Ég tel að niðurfelling aðstöðugjalds sé einn af stærstu þáttunum í því sambandi og sú ákvörðun sé fyllilega tímabær. Það orkar kannski frekar tvímælis að lækka tekjuskatta hjá fyrirtækjum nú við þessar aðstæður. Það er einu sinni svo að vegna ástandsins í atvinnulífinu eru það sjálfsagt ekki mörg fyrirtæki sem yfir höfuð greiða tekjuskatt og þess vegna kemur þessi ákvörðun þeim lítið til góða. Sum fyrirtæki hafa þrátt fyrir allt verulega góða afkomu og þau eiga auðvitað að greiða skatt við þessar aðstæður. Ég tel að það sé vafasamt að nú sé tímabært að gera þessa breytingu. Það er óhjákvæmilegt að finna nýja tekjustofna í stað aðstöðugjaldsins. Ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn og þeir sem að málinu koma með fulltrúum sveitarfélaganna muni vanda vel þá vinnu á næsta ári þegar sú stefna verður mótuð hvernig sveitarfélögunum skuli til frambúðar tryggðar tekjur eða tekjustofnar í stað aðstöðugjaldsins.
    Það var og er víðtækur stuðningur við það að taka upp skatta á eigna- og fjármagnstekjur. Því tel ég að ríkisstjórnin hefði átt að nýta þetta tækifæri sem hún hafði og fara í það verk að afla tekna á móti niðurfellingu á öðrum sköttum að þessu sinni og til að treysta stöðu ríkisfjármálanna. Talandi um skattheimtu vil ég lýsa stuðningi mínum við boðaðar aðgerðir hæstv. fjmrh. um að endurskipuleggja skattkerfið og efla og styrkja innheimtu. Ég tel að það sé ekki vanþörf á, hefði reyndar þurft að fara í það verk fyrr og af meiri röggsemi en honum og fyrirrennurum hans hefur tekist.
    Í fréttatilkynningu frá fjmrn. frá 19. nóv. sl. kemur fram að ráðherra hafi skipað nefnd til að fara í þessa vinnu þar sem lögð er áhersla á að athuga umfang skattsvika og leita leiða til að herða allt eftirlit og koma í veg fyrir skattundandrátt og nefnt að ríkisstjórnin leggi mikla áherslu á þetta verkefni. Ég vil lýsa yfir stuðiningi mínum við þessar hugmyndir og láta það koma fram að auðvitað er sá mismunur óviðunandi sem er á starfsgrundvelli og samkeppnisstöðu hinna ýmsu fyrirtækja sem þurfa að starfa á sama markaði og við sömu aðstæður að öðru leyti en því að einum tekst að skjóta undan eða gerir það og brýtur þar með öll lög en hinir, sem reyna að leggja áherslu á að standa í skilum svo sem lög kveða á um með eigin skatta og skatta starfsmanna, búa við allt aðrar aðstæður.
    Ég vil minna á skýrslu sem lögð var fyrir Alþingi fyrir nokkrum árum síðan, ég hygg að það hafi verið 1986, sem gerði grein fyrir því hvað menn álitu að væri mikill undandráttur á sköttum í þjóðfélaginu. Þar segir m.a. í samandregnum niðurstöðum, með leyfi forseta:
    ,,Niðurstaða starfshópsins er sú að umfang dulinnar starfsemi hérlendis sé á bilinu 5--7% af vergri landsframleiðslu. Ef miðað er við 6% sem meðaltal nemur þetta um 6,5 milljörðum kr. árið 1985 miðað við áætlaða verga landsframleiðslu. Tap hins opinbera vegna vangoldinna beinna skatta og söluskatts má áætla 2,5--3 milljarða kr. árið 1985.`` Séu þessar tölur framreiknaðar miðað við landsframleiðsluna nú og tekin sömu 6% er hér um litla 23 milljarða kr. að ræða. Ef tekið er sama skatthlutfall og í skýrslunni sem lögð var fyrir Alþingi á sínum tíma, þá eru vangoldnir skattar um 10--11 milljarðar kr. af veltu fyrirtækjanna. Þetta er auðvitað ástand sem er algerlega óviðunandi og við hljótum að standa saman um að taka á þessum þáttum. Árin 1984 og 1985 fluttu nokkrir þingmenn Framsfl. þáltill. þar sem lagt er til að skorin verði upp herör gegn þessari svokölluðu svörtu atvinnustarfsemi.
    Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að nokkru fé sé varið til þessa starfs á næsta ári, um 40 millj. kr., og leiddar líkur að því að það muni skila sér margfalt í auknum tekjum. Ég vona svo sannarlega að sú spá rætist og þessar 40 millj. kr. nýtist vel. Nánar verður fjallað um tekjuöflunina og tekjuhlið við 3. umr. og ég ætla því ekki að fjalla nánar um það nú.
    Það er ýmislegt annað í boðskapnum frá 23. nóv. sem er vert nánari athugunar. Fyrir utan áhrif skattkerfisbreytinga eru stórauknar aðrar álögur á landsmenn. Þar má nefna breytingar á barnabótum, breytingar á vaxtabótum og hækkun bensíngjalds. Bara þessir þrír liðir nema álögum á annan milljarð króna. Bensíngjaldið er að sjálfsögðu eins og menn vita markaður tekjustofn Vegagerðarinnar. Hér er gert ráð fyrir að skerða hann og láta hann renna í ríkissjóð. Það er rökstutt í þessum aðgerðum með viðbótarframlagi til atvinnusköpunar. 500 millj. kr. áttu að renna í viðhaldsverkefni á vegum hins opinbera. Ekkert hefur komið fram um það enn í tillögum sem hér liggja fyrir um breytingar á fjárlagafrv. Það kann að vera að það verði tekið til nánari umfjöllunar milli umræðna. Hins vegar er því ekki að neita að við þykjumst hafa heyrt að rætt sé um að fella þær niður úr þessum aðgerðapakka af því að annað hafi ekki gengið eftir. Söguna um sparnað á útgjaldahliðinni þekkja hv. þm. Þar var upphaflega talað um að spara 1.240 millj. kr., 5. des. var sú tala komin niður í 800 millj. kr. og í dag liggja ekki fyrir í tillögum meiri hluta fjárln. nema 250

millj. kr. af þessum markmiðum.
    Undarleg finnst mér í því sambandi framkoma hæstv. heilbrrh. og fullyrðingar hans, kannski má segja loforð eða vilyrði um að spara 600--650 millj. kr. Þær tillögur sem fram hafa komið eru þó ekki nema 250 millj. kr. Rökstuðningur hans við þessum breytingum er sá að það hafi lekið út af þeim hugmyndum sem upphaflega voru í frv. á móti þessum tölum, hann sé jú að spara 600 millj. núna en hann geti bara ekki sparað þær 600 millj. kr. sem hann átti að spara í haust. Það má sjálfsagt segja að ákvörðunin um að falla frá fjármagnstekjuskattinum hafi áhrif á þetta því að hluti af áætluðum sparnaðaraðgerðum var að eignatekjutengja lífeyrisgreiðslurnar. Það verður ekki af því miðað við óbreyttar aðstæður. Þetta er sjálfsagt ágæt röksemdafærsla á ríkisstjórnarheimilinu. Síðan heldur þessi hæstv. ráðherra blaðamannafund og segist ætla að spara 2,5 milljarða kr. og er kokhraustur. Ég óttast að þessi sparnaður allur komi fyrst og fremst fram í auknum álögum á almenning. Hér sé ekki um raunsparnað í kerfinu að ræða. Það eru engar kerfisbreytingar boðaðar og þetta mun auðvitað fyrst og fremst þýða það að einstaklingarnir verða látnir borga brúsann og það mun vissulega þýða lægri útgjöld fyrir ríkissjóð en sumir hafa kallað þetta skattinnheimtu og auðvitað er það ekkert annað.
    Í yfirlýsingunni frá hæstv. ríkisstjórn á dögunum segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Með efnahagsaðgerðum ríkisstjórnar er afkoma ríkissjóðs styrkt um rúmlega 2 milljarða kr. á næstu tveimur árum eða sem nemur u.þ.b. þriðjungi rekstrarhallans. Þetta er nauðsynlegt til að skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta. Jafnframt stuðla aðgerðir ríkisstjórnarinnar að því að treysta atvinnulífið og stöðva aukningu atvinnuleysis.``
    Mér finnst þetta nokkuð óljóst. Ég vil líka benda á það að allur sá niðurskurður sem er í hinum opinbera rekstri leiðir til atvinnuleysis hjá því starfsfólki sem þar hefur áður unnið. Það kom m.a. fram í ræðu hv. formanns fjárln. áðan að störfum í opinberri þágu hefur fækkað verulega á þessu ári. Gott ef það er raunverulegur sparnaður sem ekki bitnar á þjónustunni svo vandamálin hlaðist upp. Þetta eykur vandann á hinn bóginn, eykur atvinnuleysi og útgjöld ríkissjóðs úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
    Varðandi vilyrðin um að lækka vextina má vísa til yfirlýsingar eða álits forstjóra Þjóðhagsstofnunar sem hann gaf á fundi fjárln. á dögunum þegar aðgerðirnar voru ræddar þar, að ekkert mat væri lagt á þessar aðgerðir til vaxtalækkunar og óvíst hvort nokkur lækkun yrði. Það var hans skoðun eins og hún kom þar fram og ýmislegt bendir til þess síðan að vextirnir gangi fremur hægt niður. Auk þess má minna á að í úttekt Þjóðhagsstofnunar á þessum aðgerðum er gert ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann milli ára dragist saman að meðaltali um 4,4% sem er náttúrlega veruleg aukning frá fyrri spá sem gerði ráð fyrir 0,8% samdrætti. Miðstjórn ASÍ lét þær fréttir frá sér fara í gær að hún teldi að kaupmáttur mundi rýrna að meðaltali um 7,5% vegna þessara aðgerða ríkisvaldsins.
    Hæstv. forseti. Fjárln. flytur sameiginlega nokkrar tillögur til lagfæringar á einstökum liðum frv., eins og hv. formaður hefur gert grein fyrir í ræðu sinni, svo og skiptingu á fjárfestingarliðum. Þetta eru sömu vinnuaðferðir og notaðar hafa verið mörg undanfarin ár að undanskilinni afgreiðslu fjárlagafrv. í fyrra. Þá taldi minni hluti fjárln. sér ekki fært að styðja aðgerðirnar vegna þess hvernig að fjárlagadæminu öllu var staðið í það sinn. Við höfum hins vegar ákveðið að standa nú að þessum breytingum.
    Mig langar til að nota tækifærið og þakka hv. formanni fjárln. fyrir yfirlýsingu sem hann gaf í ræðu sinni áðan um væntanlega athugun á málefnum Háskólans á Akureyri milli umræðna með tilliti til þess að taka þar upp kennaradeild. Ég held að það sé mikilvægur áfangi og hefur verið baráttumál forsvarsmanna háskólans svo og ýmissa annarra, þar á meðal þingmanna kjördæmisins að undanförnu. Ég fagna þessari yfirlýsingu.
    Það er að sjálfsögðu ástæða til að lagfæra margt fleira í fjárlagafrv. Ég geri mér fulla grein fyrir því að aðstæður eru erfiðar og það er nauðsynlegt að gæta ýtrasta aðhalds. Við þingmenn verðum allir að standa saman um það svo sem mögulegt er. Við verðum þó að hafa heildaryfirsýn yfir það til hvers niðurskurðurinn, aðhaldið og sparnaðurinn leiðir. Sparnaður á einu sviði má ekki leiða til aukinna útgjalda á öðru sviði. Þá er það ekki raunveruleg aðgerð. Við verðum líka að gæta þess að þær aðgerðir sem við grípum nú til leiði ekki til þess til lengri tíma litið að skapa ný og kannski enn þá erfiðari vandamál en þau sem við gætum leyst í dag.
    Ég tel því miður að slíka yfirsýn vanti í frv. og vanti í störf hæstv. ríkisstjórnar. Svigrúm hv. fjárln. og stjórnarliðanna þar er vissulega ekki mikið. Að sjálfsögðu hefði þurft að móta slíka stefnu með heildaryfirsýn við gerð fjárlagafrv. sjálfs.
    Ég mun nú snúa mér að því að fjalla nánar um einstaka efnisþætti frv. Ég ætla að byrja á að ræða ofurlítið um heilbrigðis- og tryggingamálin þar sem ég tel að þessara heildarsjónarmiða, sem ég var að nefna, sé ekki nægilega vel gætt. Þar er um að ræða mikinn niðurskurð á viðkvæmasta þætti okkar velferðarkerfis. Þar er kostnaði hins vegar í stórum stíl velt á einstaklingana í stað þess að leita allra leiða til kerfisbreytinga sem leitt gætu til raunverulegs sparnaðar. Þó er rétt að geta þess að það virðist vera verulegur sparnaður í rekstri einstakra stofnana, einstakra sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva á því fjárlagaári sem nú er að líða. Það er vissulega virðingarvert og gott ef það tekst án þess að það bitni á þjónustunni og án þess að það lengi biðlistana.
    Ég óttast hins vegar að niðurstaðan sé sú að við séum að skapa ýmiss konar vandamál með þessum mikla sparnaði, að við séum að lengja biðlistana, að við séum að ýta verkefnum á undan okkur. Hæstv. heilbrrh. hefur stundum nefnt að aðgerðum hafi fjölgað á þessum stofnunum þrátt fyrir hinn mikla niðurskurð. Ég vil segja honum og öðrum hv. þm. að þetta hefur að sjálfsögðu gerst með því að ný þekking er að koma inn í þessar stofnanir á hverjum tíma. Það er ný tækni að koma þar inn líka og henni er þrátt fyrir allt reynt að beita þótt vissulega vanti mikið á það að þessar stofnanir séu svo búnar tækjum sem æskilegt væri og geti fylgt eftir þeirri þróun sem stöðugt á sér stað vegna þess að fjárveitingar eru af svo skornum skammti. Hæstv. ráðherra hefur einnig nefnt að hann álíti að biðlistar hafi styst þrátt fyrir þessar aðgerðir, niðurskurð, aðhald og sparnað í heilbrigðisstofnunum. Samkvæmt mínum upplýsingum, sem ég hef fengið frá landlækni, mun það því miður ekki vera enda vart við því að búast. Listinn yfir bæklunaraðgerðir hefur t.d. lengst frá apríl 1992 til september 1992 en á þessum tímum hefur landlæknir gert úttekt eða borið saman biðlista stofnana. Bæklunaraðgerðir á listanum í vor voru 757, eru núna 783. Þeim hefur fjölgað um 26 sem þar bíða eftir nauðsynlegum aðgerðum. Ég þykist því miður viss um að þessi listi hafi enn lengst síðan í september því að nú er bæklunardeild á Landspítalanum lokuð. Sama er að segja með ýmsar aðrar mikilvægar aðgerðir, t.d. hjartaskurðlækningar. Þar hefur biðlistinn lengst úr 63 í 68, fjölgunin er 5. Vonandi hefur þó fækkað á þeim lista aftur af því að hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir sérstökum samningi milli Tryggingastofnunar og Ríkisspítala varðandi hjartaskurðlækningarnar.
    Á háls-, nef- og eyrnadeildum hefur biðlistinn lengst úr 812 í 837, þar er fjölgun um 25. Í þvagfæraskurðlækningum hefur listinn lengst úr 514 í 560. Þar hefur biðlistinn lengst um 46. Í hjartaþræðingum hefur biðlistinn lengst úr 107 í 139 eða um 32 og biðlisti eftir ýmiss konar endurhæfingarþjónustu hefur lengst úr 448 í 455, þ.e. 7 einstaklingar bíða í viðbót. Þetta eru tölur annars vegar í apríl og hins vegar í september.
    Rétt er að geta þess að miðað við hliðstæðan biðlista sem skoðaður var í ársbyrjun 1991 hefur bæklunaraðgerðum fækkað verulega en landlæknir hefur jafnframt upplýst mig um það að talan frá því í fyrra hafi verið ónákvæm þegar farið var nánar yfir þann lista. Það hafi komið í ljós að þar var jafnvel um tvítalningu að ræða og í sumum tilvikum hafði það blessað fólk sem var á biðlistanum látist meðan það beið eftir aðgerð. Biðlistatalan frá því í apríl 1991 er því ekki alveg samanburðarhæf.
    Það er því full ástæða til þess að óttast afleiðingar af þessum mikla sparnaði eða niðurskurði á stofnunum, þó að þar megi vissulega benda á að verulega hefur dregið úr kostnaði. Ef við óttuðumst ekki þessar afleiðingar, þá væri það auðvitað vel.
    Mig langar aðeins að nefna í tengslum við þetta bréf sem okkur í fjárln. barst í gær frá Krabbameinsfélaginu, reyndar afrit af bréfi til heilbrrn., þar sem gerð er grein fyrir því að Krabbameinsfélagið muni sætta sig við niðurskurð á fjárlögum, frá fjárlögum í ár til næsta fjárlagaárs, um 10 millj. kr. án þess að láta það bitna á þeirri mikilvægu þjónustu, leit að krabbameini í leghálsi og brjóstum sem er einn af stærstu þáttum leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Þeir segjast ætla að halda óbreyttum fjölda og leita allra leiða til þess að ekki dragi úr þjónustunni á þessu sviði. Þessi mikli niðurskurður mun vissulega bitna á ýmsum öðrum þáttum og verkefnum Krabbameinsfélagsins. Við erum auðvitað að ýta til verkefnum. Við erum auðvitað að fresta vandanum á hinum ýmsu sviðum með þessum mikla og róttæka niðurskurði. Í bréfi Krabbameinsfélagsins til ráðuneytisins kemur skýrt fram að félagið lítur svo á að verksamningurinn um leitarstarfið sé óbreyttur og mun félagið leitast við að standa við sinn hlut og ætlast til þess að heilbrigðisyfirvöld geri það sama eftir árið 1993. Hér sé því aðeins um tímabundið ástand að ræða.
    Ef við lítum á það hvert stefnir í málefnum Tryggingastofnunar ríkisins er ljóst að hinn svokallaði sparnaður í sjúkratryggingunum byggist fyrst og fremst á því að láta notendur þjónustunnar greiða hærri kostnaðarhlut eins og ég hef nefnt. Mig langar að rekja nokkur frekari dæmi um það. Þrátt fyrir áform um að lækka útgjöld sjúkratrygginga vegna lyfja úr 2,4 milljörðum á árinu 1991 í 2,2 milljarða í ár er nú þegar ljóst að útgjöldin í ár stefna í 2,6, jafnvel 2,7 milljarðar. Í viðbót við þetta hafa að sjálfsögðu útgjöld einstaklinganna aukist, líklega um um það bil 400 millj. kr., bein útgjöld þeirra, vegna hærri greiðsluþátttöku en greiðsluþátttaka einstaklinganna hefur verið hækkuð úr 18% í um 30% af heildarútgjöldum vegna lyfjanotkunar.
    Af þeim 400--500 millj. kr. sem ríkisútgjöld vegna lyfja munu aukast í ár á að vísa helmingi eða meira en það, 200--300 millj. kr., til næsta árs. Í fjáraukalögum sem hér liggja fyrir þinginu er gert ráð fyrir að bæta stofnuninni upp 200 millj. kr. Auk þess gerir fjárlagafrv. sjálft ráð fyrir 100--200 millj. kr. sparnaði í lyfjaútgjöldum. Í nýjustu sparnaðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar er einnig gert ráð fyrir viðbótarsparnaði í lyfjum og ráðgerð lækkun frá útgjöldunum í ár mun því nema um 500--600 millj. kr. á næsta ári. Sjá allir að það hlýtur að vera algerlega óraunhæft jafnvel þó að kostnaðarþátttaka sjúklinga verði enn aukin frá því sem er í dag. Þess má geta að frv. það sem heilbrrh. boðaði um skipulagsbreytingar í lyfjamálum hefur ekki enn litið dagsins ljós. Það hefur ekkert slíkt frv. borist til þingsins. Það breytir litlu þótt orðalagi í almannatryggingalögum sé breytt úr ,,lyfjum sem sjúkratryggðum ber brýna nauðsyn til að nota`` í orðalagið ,,lyf sem sjúkratryggðum er lífsnauðsynlegt að nota``. Þetta hygg ég að hafi ekki mikil áhrif til sparnaðar.
    Þá er einnig gert ráð fyrir því að spara á annað hundrað milljónir kr. í sérfræðiþjónustu sem hætt er við að lendi mest á sjúklingum. Má reyndar skjóta því inn í að í umræðum í gær um þessar tillögur hæstv. ráðherra kom fram að það er engin eining í röðum stjórnarliða um þessar breytingar.
    Að lokum má nefna breytingar á greiðsluþátttöku í tannviðgerðum sem munu þýða stóraukin útgjöld fyrir notendur. Hætt er við að þessi aukna greiðsluþátttaka dragi verulega úr forvarnaaðgerðum á sviði tannheilsu en breytingarnar gera ráð fyrir að ríkið greiði ekki lengur fyrir forvarnir. Nú þurfa foreldrar eða aðstandendur barna að greiða eða taka þátt í öllum tannviðgerðum svo einhverju nemur. Það er því ekkert lengur ókeypis á þessu sviði frekar en á sumum öðrum hjá hæstv. ríkisstjórn. Það er full ástæða til óttast að þetta leiði til lakari tannheilsu sem við höfum þó verið að bæta mjög á undanförnum árum ef við berum okkur saman við nágrannaþjóðirnar. Með þessu er verið að hverfa áratugi aftur í tímann. Þessar svokölluðu sparnaðaraðgerðir munu því allar þýða auknar skattálögur sem nema mörg hundruð millj. kr., jafnvel nær milljarði, á þá sem nota þurfa þessa heilbrigðisþjónustu.
    Í frv. er einnig boðaður sparnaður í lífeyristryggingum en sá sparnaður var mikið ræddur í gær í hv. Alþingi í tengslum við frv. hæstv. heilbrrh. um breytingu á almannatryggingum. Ég ætla því ekki að orðlengja mikið um það nú en langar þó að nefna í tengslum við allan sparnaðinn, allar breytingarnar sem boðaðar eru í tryggingalöggjöfinni, að fjárln. hefur fengið bréf frá Tryggingastofnun og reyndar kom forstjóri Tryggingastofnunarinnar á fundi nefndarinnar. Í bréfinu segir, með leyfi forseta:
    ,,Það er mat Tryggingastofnunar að fjárvöntun miðað við frv. geti numið um 320 millj. kr. og er þá tekið tillit til sömu forsendna og frv. gengur út frá um verðlagsbreytingar milli ára og fyrirhugaðan sparnað en hann er áætlaður um 740 millj. kr. í frv. Þó að tekið sé tillit til þessara verðlagsbreytinga og sparnaðarins álítur forstjóri Tryggingastofnunarinnar að enn vanti um 320 millj. kr. inn í stofnunina til þess að hún geti starfað eðlilega á næsta ári.``
    Ekki er enn búið að gera neinar tillögur um lagfæringar á þessum grunntölum hvort sem litið verður á það á milli umræðna eða ekki.
    Þá langar mig að fara örfáum orðum um málefni Atvinnuleysistryggingasjóðs en framlög til hans eru miðuð við það að atvinnuleysi verði á bilinu 3,5--4% á næsta ári. Fjarþörfin er lækkuð um 300 millj. kr. vegna hinna boðuðu aðgerða ríkisstjórnarinnar til þess að draga úr atvinnuleysi. Er þá vonandi þær gangi fram en verði ekki skornar niður í meðförum þingsins á frv. Þá er sjóðnum gert að ganga á eigið fé sem nemur 250 millj. kr. og svo kemur loks mjög sérkennileg athugasemd. Það er gert ráð fyrir að spara um 100 millj. með breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Eins og vitað er er nefnd að störfum við endurskoðun á tryggingagreiðslunum og bendir til þess að sú endurskoðun muni auka útgjöld sjóðsins en ekki spara þar sem fleiri telja sig eiga rétt á bótum en áður var vegna breytinga á iðgjaldagreiðslunum.
    Þá eru líka ótalin þau áhrif sem ný ákvæði um greiðslu til atvinnuskapandi verkefna í samningum við sveitarfélögin kunna að hafa á greiðslustreymið úr sjóðnum. Af öllu þessu má sjá að það er mikil óvissa ríkjandi um fjárreiður Atvinnuleysistryggingasjóðs. Stjórnendur sjóðsins, sem komu einnig á fund nefndarinnar, gátu ekki gert neina grein fyrir því hvernig þessar viðræður við sveitarfélögin ættu að fara fram eða til hvers þær mundu geta leitt varðandi útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Í rekstri sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu var ráðgert að spara verulega fjármuni á þessu ári og samkvæmt úttekt Ríkisendurskoðunar virðist hafa náðst nokkur árangur á því sviði. Ég hef reyndar lýst því að nokkru leyti hér á undan hvaða afleiðingar ég tel að það geti haft í för með sér. Við fulltrúar minni hlutans í fjárln. höfum margítrekað gengið eftir því að fá upplýsingar frá heilbrrn. um það hvernig þessi áform hafa gengið eftir og hvaða stofnanir það eru sem hafa í raun sparað á þessu ári. Því miður virðast þær upplýsingar ekki vera aðgengilegar, a.m.k. ekki enn. Væntanlega er það fyrir það að ráðuneytið vill ekki gefa þær út fyrr en árið er allt þannig að rétt sé farið með. Ekki finnst mér þó ólíklegt að það hefði mátt sjá einhverjar vísbendingar um það hvert stefnir. Ég hef fulla trú á því að þessi sparnaður komi að verulegu leyti fram í fjárveitingum til Ríkisspítalanna, langt umfram það sem gerist á hinum stofnunum tveimur að teknu tilliti til þess að rekstri Landakots var gerbreytt.
    Þær tölur sem liggja fyrir í fjárlagafrv. varðandi sjúkrahúsin á næsta ári gera ráð fyrir því að Landspítalinn þurfi að búa við óbreytt ástand. Fjárreiður hans eru aðeins hækkaðar sem nemur verðlagsbreytingum en fjárveitingar til Borgarspítala og Landakotsspítala eru hækkaðar nokkuð umfram það. Að vísu má segja að það er nokkur leiðrétting gerð á fjarveitingum til Ríkisspítalanna hvað varðar sértekjur og launaútgjöld en á móti er spítalanum ætlað að taka út einstaka rekstrarþætti, eins og að hætta að reka áfengisdeild á Vífilsstöðum, að breyta rekstri Gunnarsholtshælisins og lækka fjárveitingar til rekstrar Kristnesspítala um 40 millj. kr. Þetta eru upphæðir sem verður erfitt að standa við öðruvísi en að leggja ákveðna þætti starfseminnar niður enda er talað tæpitungulaust um það nú orðið. Það er beinlínis boðað að slíkt skuli gert. Þá er, eins og reyndar hefur komið hér fram áður í umræðum í þinginu, gert ráð fyrir því að selja eða breyta þvottahúsi Ríkisspítalanna í hlutafélag og selja síðan hlutabréfin. Ríkisspítölunum er ætlað að nota það sem sértekjur í sínum rekstri. Gangi þetta ekki eftir bregður svo við að Ríkisspítalarnir eiga í viðbót að skera niður sem þessum sértekjum nemur sem eru áætlaðar 60 millj. kr. Þetta finnst mér mjög undarleg ráðstöfun og hún leiðir hugann að því hvernig hæstv. ríkisstjórn muni ganga að ná fram ráðgerðum áætlunum um það að selja ríkiseignir fyrir 1,5 milljarða kr. á næsta ári. Það er gert ráð fyrir því sem tekjum í tekjuhlið fjárlagafrv. Svo er hér gert ráð fyrir því að einstaka stofnanir hafi þetta á sinni könnu og njóti teknanna. Ef ég man rétt hefur hæstv. heilbrrh. einnig gert ráð fyrir því að ef honum tekst að selja eða breyta Samábyrgð Íslands á fiskiskipum í hlutafélag og selja það hlutafélag síðan eigi það að ganga til þess að spara fjárveitingar í heilbrrn. en ekki til þess að laga streymi fjárveitinga hjá fjmrn. samkvæmt fjárlagafrv.

    Stjórnarnefnd Ríkisspítala átti fund með hæstv. heilbrrh. 29. okt. sl. Þar gerði ráðherra grein fyrir því að ef ekki tækist að fá þessar 60 millj. kr. út úr sölu á þvottahúsinu yrði að skoða málið að nýju og væri ekki endilega sjálfgefið að það bitnaði á starfsemi Ríkisspítalanna. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hans og vona að þetta geti gengið eftir ef þörf krefur.
    Landspítalinn er háskólasjúkrahús samkvæmt lögum. Þar er lögð stund á fleiri sérgreinar læknisfræðinnar en gert er annars staðar á landinu og þar fer einnig fram öflug vísinda- og rannsóknastarfsemi. Landspítalinn er stærsti spítali landins og jafnframt spítali allra landsmanna, eins konar endastöð fyrir mikið veika sjúklinga sem þurfa á sérhæfðri þjónustu að halda. Í ljósi þessara staðreynda er brýnt að við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár verði rekstrarumfang Ríkisspítalanna lagfært þannig að Ríkisspítalarnir geti rekið sína starfsemi af fullri reisn.
    Ástæða væri til þess að fara nokkrum orðum um það hvernig fyrirhugað var að standa að málum á Kristnesspítala en það mundi verða langt mál, virðulegi forseti. Ég vil þó láta það koma fram að í nál. þeirrar nefndar sem nýlega hefur skilað af sér kemur ekkert fram um það hvernig eigi að spara þessar 40 millj. kr. heldur er því aðeins lýst yfir að árangursríkasta leiðin til þess að ná því markmiði að reka Kristnesspítala innan ramma fjárlagafrv. sé að sameina reksturinn Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Það mun hins vegar kalla á verulega hagræðingu og sparnaðaraðgerðir. En tillögurnar liggja ekki fyrir. Við höfum heyrt að það megi ná einhverjum sparnaði með því að leggja niður yfirstjórnina og skrifstofuhaldið, breyta læknamönnun, breyta rekstri þvottahúss og eldhúss en fullvíst er að þessar aðgerðir ná aldrei 40 millj. kr. sparnaði. Það er því brýnt að ráðuneytið og fulltrúar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri móti hið fyrsta tillögur sínar um það hvernig eigi að ná þessum niðurskurði þannig að hugsanleg viðbótarfjárþörf geti þá legið fyrir við 2. umr. frv.
    Þrátt fyrir niðurskurð á einstökum stofnunum, boðaðan niðurskurð eins og t.d. hér á Kristnesspítala, er á hátíðastundum hægt að gefa fögur loforð um aukin útgjöld. Við vígslu hjúkrunarheimilisins Eirar nú á dögunum lofaði hæstv. heilbrrh. fjármunum til þess rekstrar. Vissulega er þörf fyrir aukna þjónustu á þessu svæði í þágu aldraðra. Það er mér ljóst. Hins vegar hefur ekki enn komið fram hvernig ráðherra ætlar að standa við þessi loforð og ekkert komið fram um það í vinnu fjárln. hingað til. Væntanlega hafa þetta verið meira en orðin tóm.
    Virðulegur forseti. Félagar mínir í minni hluta fjárln. munu á eftir gera grein fyrir ýmsum öðrum efnisflokkum. Ég hef eytt nokkrum tíma í að fara allrækilega í gegnum heilbrigðismálaþáttinn. Ég vil þó aðeins segja um mennta- og menningarmálin að þar er því miður staðfestur áfram niðurskurður á fjárframlögum til grunnskóla sem í fyrra var lofað að skyldi aðeins standa í eitt ár. Hér er um að ræða stórar upphæðir og bitnar á því að kennslustundum er fækkað í bekkjardeildum og nemendum í bekkjunum fjölgað. Þá er og verulegur niðurskurður boðaður á fjárveitingum til Námsgagnastofnunarinnar. Skólagjöld á að innheimta af nemum í framhaldsskóla og verulega er kreppt að fjárveitingum til Háskóla Íslands svo og til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Allt leiðir þetta hugann að því hvert við stefnum í okkar menntamálum. Erum við að draga úr menntuninni? Erum við að koma í veg fyrir að okkar unga fólk nái að tileinka sér þá menntun sem nauðsynleg er til þess að við getum haldið áfram að treysta og byggja upp efnahags- og atvinnulíf okkar, ekki síst í harðnandi samkeppni í heimi sem sífellt er að vinna meira og meira saman? Þetta held ég að sé full ástæða til þess að fjalla ítarlega um og veit að aðrir félagar mínir í minni hluta í fjárln. munu gera það.
    Mig langar að nefna varðandi þessi mennta- og menningarmál að gerð er tillaga um það að sérgreina aftur í fjárlögunum fjárframlög til einstakra þátta sem áður voru í safnliðum eins og frv. var lagt fram að þessu sinni. Þar vil ég nefna t.d. fjárveitingar til leiklistarmála, til frjálsrar leiklistarstarfsemi í landinu, svo og til æskulýðs- og íþróttastarfs þó að því miður séu þær fjárveitingar skornar niður frá því sem er í fjárlögum ársins í ár og hefði þar vissulega þurft að gera þar betur því að það álít ég að sé hluti af forvarnastarfi í landinu að hlúa vel að íþrótta- og æskulýðsstarfseminni.
    Í landbúnaðarmálunum er verulegur niðurskurður. Fyrir utan það sem beinlínis tengist búvörusamningnum upp á 2,3 milljarða kr. sýnist mér vera um það bil milljarður í viðbót sem skorinn er af hinum ýmsu þáttum sem lúta að landbúnaðarmálum. Hér er engu hlíft og er þó gerð krafa til hæstv. landbrh. að spara enn meira í þessum málaflokki sem á við mikla erfiðleika að etja eins og atvinnumálum er háttað í landinu og miðað við allan þann samdrátt sem hefur orðið í þeirri atvinnugrein.
    Til gamans má geta þess, og hefði nú sumum líklega ekki fundist erfitt að verða við því, að okkur í fjárlaganefnd barst lítið bréf frá skólameistara Bændaskólans á Hólum þar sem hann óskaði eftir 2--3 millj. kr. til þess að gera við þak á skólastjórabústað, en þakið fauk í fyrravetur. Það er ekki svo að það hafi fokið nú á dögunum heldur í fyrra. Svo kemur hér fram í bréfi: Í ljós kom eftir hvassvirði á sl. vetri að þakplötur höfðu losnað af þakinu á skólastjórabústaðnum. Því miður sjá menn sér nú ekki fært að verða við þessari litlu beiðni og er þessari umsókn hafnað eins og svo mörgum öðrum.
    Í sjávarútvegsmálum vil ég sérstaklega benda á að það er mikil lækkun á lið sem merktur er Gæðaátak, starfsmenntun, markaðsöflun og tilraunir í sjávarútvegi og hefði þó verið full ástæða til þess að gera vel á þessu sviði en þetta sýnir aðeins það stefnuleysi sem virðist algert. Þegar hefði þurft að styrkja þessa þætti, rannsóknir og markaðsstarf, þá er það þvert á móti skorið niður.
    Við Íslendingar höfum nýlega fengið ábendingu um það að við verjum of litlu fé til rannsókna og tilraunaverkefna og hætt sé við því að það geti leitt til ófarnaðar til lengri tíma litið því að auðvitað er það undirstaða framfara í nútímasamfélagi að standa vel að þessum þáttum. Það eru að vísu gefin fyrirheit um það í fjárlagafrv. að auka fjárveitingar til rannsókna- og tilraunastarfsemi en það er hins vegar háð því skilyrði að hægt sé að selja ríkisfyrirtækin margumtöluðu upp á 1,5 milljarða kr. og þá er það hlutfall af slíkri sölu sem á að renna í þetta verkefni. Ef ekki tekst að selja þessar stofnanir verður líka lítið um fjármuni til rannsókna- og þróunarverkefna.
    Í samgöngumálunum er sá leikur leikinn að láta í það skína að tæpum tveimur milljörðum kr. sé bætt við í framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar. Sannleikurinn er sá að þetta er auðvitað miklu minna fé. Þar er skorið verulega niður, markaðir tekjustofnar jafnhliða þessu og þar að auki eru Vegagerðinni færð ný verkefni svo sem að reka ferjur og flóabáta. Þær fjárveitingar sem ætlaðar eru í frv. til þess verkefnis eru þar að auki nú þegar langt undir því sem Vegagerði áætlar á næsta ári þannig að ef ekki verður bætt við fjárveitingu til þess að standa við þessi verkefni þá er líka ljóst að enn þarf að draga úr þeim boðuðu framkvæmdum sem fjárlögin gera ráð fyrir.
    Hæstv. forseti. Ég nefndi í upphafi að hæstv. ríkisstjórn boðaði nýja og breytta stefnu. En ég leyfi mér að spyrja: Er það betri stefna? Dregið er úr samfélagslegri hjálp. Einstaklingunum er ætlað að greiða í stórauknum mæli fyrir opinbera þjónustu, bæði í menntakerfinu og í heilbrigðismálunum. Atvinnuleysi er vaxandi með öllum sínum hörmungum. Afskiptaleysi ríkisvaldsins af atvinnulífinu hefur m.a. þau áhrif. Mig langar að nefna eitt lítið dæmi í þessu sambandi þar sem sótt er um fjárveitingu frá fámennum sveitahreppi upp á 4--5 millj. kr. til þess að efla atvinnustarfsemi og reka svokallaðar skólabúðir. Þessar skólabúðir mundu skapa tiltölulega mikla vinnu í þessum litla hreppi. Það mundi t.d. lengja starfstíma hótels í sveitarfélaginu og skapa um það bil átta störf. Heimamenn hafa lagt mikla vinnu í það að leita verkefna, leita nýrra atvinnutækifæra, verið með nefnd starfandi í því og átt samskipti við ýmsa opinbera aðila sem allir eru af vilja gerðir þangað til kemur að því að leggja út fjármunina. Þá er allt í einu allt lokað. Þarna hefur þó fundist verkefni sem getur gengið, sem er eftirspurn eftir og gæti skapað nokkur atvinnutækifæri í sveitarfélaginu. Hins vegar eru 4--5 millj. kr. hvergi fáanlegar þannig að hætt er við því að ekki verði framhald á því verkefni að reka skólabúðirnar. Ég spyr því aftur: Er yfirsýnin næg? Til hvers leiða þessar niðurskurðaraðgerðir allar sem boðaðar eru? Það dregur úr menntun þjóðarinnar þegar aðgangur að skólunum er með þeim hætti sem raun ber vitni, þegar dregið er úr aðstoðinni í gegnum lánasjóðinn þá fækkar þeim sem fara í langskólanámið. Vandamálin hrannast upp í félagslegu þjónustunni og í heilbrigðisþjónustunni. Erum við kannski að skapa þjóðfélag í líkingu við það sem við sjáum í sumum stórborgum nágrannaþjóðanna? Ég vona sannarlega að svo sé ekki. Ég legg hins vegar áherslu á það aftur að það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að gæta alls aðhalds og sparnaðar í hinum opinbera rekstri og ég veit að staða stjórnvalda í dag í því efni er erfið og brtt. fjárln. sem hér liggja fyrir við umræðuna bera þess glöggt vitni.
    Við vitum reyndar líka að það er enn mikið verkefni óunnið við það að ljúka fjárlagagerðinni. Við eigum eftir að skoða útgjaldaliði betur og leita sparnaðar og við eigum þó enn þá frekar eftir að horfa á tekjuhliðina alla og forsendur hennar. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og afdrif hans getur haft áhrif á efnahagsforsendur fjárlagafrv. því að tekjur af því hugsanlega samstarfi voru reiknaðar inn í grunnforsendur fjárlaganna og þá er að sjálfsögðu eins og hv. þingheimur veit fjöldi fylgifrumvarpa óafgreiddur, þar með taldar veigamiklar breytingar á almannatrygginga- og skattalöggjöfinni. Því mun minni hluti fjárln. gefa út framhaldsnefndarálit við 3. umr. þegar nefndin hefur lokið störfum sínum og endanleg útkoma fjárveitinga og tekjuhliðar er ljós þannig að við sjáum hver er raunverulegur halli á fjárlögum næsta árs.
    Minni hluti nefndarinnar flytur ekki sameiginlegar brtt. við frv. að þessu sinni, en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.
    Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu.