Fjárlög 1993

78. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 20:30:48 (3292)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (frh.) :
    Virðulegur forseti. Ég var komin að þriðja lið af þremur af þeim brtt. sem við kvennalistakonur flytjum við fjárlagafrv. Þessi þriðja brtt. okkar varðar það að veita rúmlega 2,8 millj. kr. til stofnunar lánatryggingarsjóðs kvenna eða réttara sagt til undirbúnings stofnunar þess sjóðs. Hér er um mjög merkt framtak að ræða og undirbúningur hefur allur verið unnin í sjálfboðavinnu en nú er að því komið að það þarf fé vegna starfsmanns í átta mánuði og auk þess þarf fé vegna þýðingarvinnu, lögfræðiráðgjafar og annarrar sérfræðilegrar löggjafar og nokkurra annarra atriði. Þær konur sem hafa staðið að þessum undirbúningi hafa nú þegar skilað fjárln. mjög vel útfærðum hugmyndum sínum. Takmarkið með stofnun þessa sjóðs er að greiðari aðgangur kvenna verði að ráðgjöf og lánsfé. Þetta hefur að sjálfsögðu mikið vægi varðandi alla nýsköpun í vinnu. Ég gat þess einnig að konurnar á Suðurnesjum sem hafa verið að gera sitthvað í sínum atvinnumálum, verið að stofna samtök, bæði Sölku Völku í Grindavík og Björgu í Keflavík, eru meðal þeirra kvenna sem horfa til stofnunar þessa sjóðs. Þar sem mikið hefur verið talað um að það þurfi að veita einhverja fyrirgreiðslu held ég að það væri engin ofrausn af hæstv. fjárln. að láta slag standa og gera tillögu um tæplega 3 millj. til þessa merka framtaks. Það sem er kannski einna mikilvægast varðandi þennan lánasjóð er að þarna er um alþjóðlegt net að ræða sem hefur gefist mjög vel. Þetta á bæði við um þriðja heims ríki þar sem þessi lánatryggingarsjóður gegnir mjög mikilvægu hlutverki og einnig í svokölluðum fyrsta og öðrum heimi þar sem lönd telja sig tiltölulega þróuð en eru þó ekki þróaðri en það að enn eiga konur ekki greiða leið að lánsfjármagni.
    Í virtu tímariti The World Monitor sem er mánaðarrit The Christian Science Monitor, í marshefti 1991,

er fjallað um þennan lánasjóð á nokkuð að ég vil segja vandaðan hátt og gefur það nokkuð glögga mynd af hver tilgangur hans er. Meðal þeirra sem vitnað er í er Ela Bhatt sem er einn stofnandi og núv. stjórnarformaður hins alþjóðlega Lánatryggingarsjóðs kvenna eða Women's World Bank sem ég hef leyft mér hér að skammstafa WWB. Í þessari ítarlegu grein segir Ela Bhatt m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Markmið okkar var að ná til kvenna sem hið hefðbundna bankakerfi hafði hafnað og ná þeim inn í hringiðu efnahagslífsins.``
    Það reyndist ekki svo auðvelt að ná þessu marki en eftir þrotlausa vinnu og mikla elju hefur WWB orðið að mjög öflugum alþjóðasamtökum. Starfsemi WWB er mjög margvísleg og mismunandi eftir löndum, m.a. hefur sjóðurinn haft veigamiklu hlutverki að gegna í ýmsum þróunarlöndum. Alls staðar eru sérstök vandamál kvenna hin sömu. Það gengur treglega að sannfæra bankastjórana um ágæti hugmynda kvenna eins og konurnar á Suðurnesjum hafa fengið að reyna.
    Hvernig ætli það hafi þá gengið hjá starfssystrum þeirra í þriðja heiminum ólæsum jafnvel sem ekki hafa búið við nútímaþægindi og hafa kannski ekki einu sinni trúverðugleika vegna stöðu sinnar og menntunarstigs fyrir utan það að vera konur? Er þetta bara ekki glatað spil sem ekkert þýðir að leggja rækt við? Ég held að margir mundu flýta sér að segja að þetta gæti varla hafa gengið mjög vel. En það er allt aðra sögu að segja sem betur fer. Ég vitna enn til greinar í The World Monitor en hún er eftir Meenal Pandya og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ein stærsta glíman var við viðhorf bankastjórnenda víðs vegar um heiminn. Venjulegir bankastjórar líta á ólæsar konur, sem ekki kunna einu sinni að fylla út öll þau margvíslegu eyðublöð sem í bönkum eru, sem áhættuviðskipti af versta tagi, bæði tíma- og peningasóun. Lánardrottnum í marmarahöllum og í fínum fötum líður ekki vel í návist kvenna sem vita lítil deili á nafnnúmerum, jafnvel ekki fæðingardögum og árum og jafnvel full nöfn þeirra samkvæmt þjóðskrá vefjast fyrir þeim. En WWB hafa sýnt fram á að þessar konur hafa með aðstoð, ráðgjöf og fræðslu reynst hinir traustustu viðskiptavinir banka og endurgreiðsluhlutfall af lánum þeirra er 99%.``
    Fyrst þessi vonlausu eða vonlitlu dæmi hafa komið svona vel út veit ég ekki eftir hverju við erum að bíða. Það hefur ekki verið hrapað að undirbúningi, það hefur þvert á móti verið unnið mjög markvisst og skipulega að þeim undirbúningi og það er best að bæta því við svo enginn misskilningur sé á ferðinni að það er ekki bara reynslan í þriðja heiminum að endurgreiðslur lána hafa verið nánast 100% heldur hefur það um víða veröld reynst afburðagott fyrir bankastofnanir að taka þátt í samstarfi við WWB því það hefur ekki verið hægt að fá öllu betri viðskiptavini.
    Ég læt hér lokið umfjöllun um þessra þrjár brtt. sem við kvennalistakonur gerum við fjárlagafrv. Auðvitað hefðum við viljað koma miklu víðar við. Í þessum umgangi ákváðum við að taka þessi þrjú atriði fyrir, öll mjög nauðsynleg. Það er ekki verjandi lengur að veita ekki fé til þess að veita börnunum sem koma hingað mállaus á íslensku til landsins, jafnvel flóttabörnum, sómasamlega þjónustu. Það er heldur ekki verjandi að konur skuli ekki hafa val í fæðingum, að Fæðingarheimili Reykjavíkur skuli hafa verið lokað og ekkert komið í staðinn þrátt fyrir ummæli hæstv. heilbrrh. í mars sl.
    Ég vil undir lok ræðu minnar fá að víkja að tveimur þáttum í viðbót sem mér finnst sérstök ástæða til að geta um í sambandi við fjárlagafrv. og þær áherslur sem ég vil sjá þar. Áður en ég vík að því finnst mér rétt að taka undir með þeim fjöldamörgu sem hafa lýst efasemdum sínum vegna þessarar umræðu yfir höfuð þar sem það er mjög hæpið að einhver vitræn umræða verði um heildarsýn á fjárlögum og fjárlagagerð á meðan heilu milljarðarnir eru óljósir og ekki vitað hvernig á að fara með, ekki vitað um hvað er samstaða og um hvað er ekki samstaða burt séð frá því að gagnrýnin sem við stjórnarandstæðingar höldum uppi á fyllilega rétt á sér, hún á hljómgrunn í öllu samfélaginu, samningar eru í uppnámi og hér stefnir í mjög hörð átök. Það er nánast ekki forsvaranlegt að ræða fjárlagafrv. núna án þess að hafa hugmynd um hvernig það lítur út eða hvernig línur liggja eða hvaða línur verða lagðar. Það sem er einna alvarlegast er að þarna standa út af háar upphæðir sem ljóst er að reynt verður að sækja hugsanlega til kvenna í fæðingarorlofi. Við skulum ekki líta fram hjá þeim yfirlýsingum sem hér hafa gengið. Það eru stórir og miklir menn sem hafa sagt ýmislegt og ég ætla ekki að vera svo bjartsýn að halda að sú umræða sé dauð þótt ég voni það að sjálfsögðu. Þegar svona stendur á þá er kannski markviss heildarmálefnaumræða ekki eins auðveld og er þegar línur fara að skýrast. Það má kannski segja að þau atriði sem ég hef valið að benda á er kannski auðveldara að framkvæma innan þess ramma sem við nú sjáum, þess skakka og skælda ramma sem er hvorki hornréttur, hringlaga né hefur neitt form sem ég þekki. Þau tvö atriði sem ég ætla að víkja að undir lokin þau eru bæði með þeim hætti að þau eru framkvæmanleg innan þess ramma fjárlaga sem við sjáum svo framarlega sem skilaboðin frá fjárln. og Alþingi eru skýr.
    Fyrra atriðið sem ég sé sérstaka ástæðu til að staldra við er niðurskurður á fé til rannsókna og þróunarstarfs í sjávarútvegsmálum. Þar á ég ekki síst við fjárlagalið sem hefur verið nefndur fyrr í dag og er hluti af nál. minni hluta hv. fjárln. Það er liðurinn Gæðaátak, starfsmenntun, markaðsöflun og tilraunir í sjávarútvegi. Sá liður lækkar úr 51,2 millj. í 21,7 millj. kr. Ástæðan fyrir því að ég gef mér að hægt sé að breyta þessu, jafnvel að tilstuðlan eða frumkvæði allrar fjárln., er að það er ljóst hver vilji löggjafans er a.m.k. í orði. Talað er um að það verði að veita fjármagni í rannsóknir, þróun, gæðaátak, starfsmenntun, markaðsöflun, tilraunir. Þetta er allt saman einhvers staðar þarna í lausu lofti, háð því að það verði stórfelld einkavæðing, sala á ríkisfyrirtækjum og mikill hagnaður. Ekkert af þessu er fyrirsjáanlegt. Sé það í

raun vilji löggjafans að gera eitthvað í því þarf að setja þetta inn í staðinn sem öruggan fjárlagalið og klípa af einhverju öðru og óþarfara eða að nýta einhverja af þeim fjölmörgu leiðum sem við stjórnarandstæðingar, ekki síst við kvennalistakonur höfum bent á, t.d. að hafa hátekjuskattinn myndarlegri, ég tala ekki um ef menn uppgötvuðu að það má hafa hann stighækkandi en það virðist vera langt í það. Það á að nýta þá leið sem fær er með því að setja lúxusskatta, og ég hef ekki sömu áhyggjur og hæstv. fjmrh. af því hvernig lúxus skuli skilgreindur, og að sjálfsögðu á að skattleggja fjármagnstekjur eins og aðrar tekjur, ekki fjármagnið sem fólk á heldur tekjurnar sem það hefur af því að eiga það.
    Niðurskurður á þessum fjárlagalið er sérlega bagalegur vegna þess að þar í er m.a. niðurskurður úr 20 millj. í 9 millj. á fjárveitingum til aflanýtingarnefndar sem hefur verið samstarfsverkefni Rannsóknastofnunar fiskiðaðarins og sjútvrn. og hefur m.a. staðið fyrir aflakaupabanka, merkilegri markaðskynningu sem kölluð var furðufiskavika núna síðsumars og vakið hefur athygli á nýjum sóknarfærum í fiskveiðum og vinnslu. Þarna er um að ræða nýsköpun, þarna er um að ræða tilraunir sem munu nýtast okkur í framtíðinni. Innan þessa liðs hefur verið svigrúm fyrir langtímarannsóknir sem eru ekki alveg örugglega arðbærar en geta orðið það og þarna hefur verið svigrúm fyrir eitthvert áhættufé í tilraunir. Og þetta á að skera. Auðvitað er fráleitt að fara þá leið.
    Ég trúi því að flestir þingmenn þekki hina nýju OECD-skýrslu sem afhjúpar lélega frammistöðu okkar Íslendinga í uppbyggingu rannsókna, þróunar og nýsköpunar og þar er ekki síst átalið að langtímaverkefnum í rannsóknum og tilraunum hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Varað er við því að kreppa að slíkum grundvallarþáttum til að efla atvinnulíf framtíðarinnar og skapa ný störf. Það er í rauninni kolröng stefna og þetta vita flestar þjóðir og hafa beint fjármagni í rannsóknir og nýsköpun. Það dugar ekki að vísa á einhverja ótrygga sölu ríkisfyrirtækja á meðan markaðurinn er í klemmu og kannski ekki aflögufær til að kaupa einu sinni þó að við förum nú ekki út í harða deilu um það hvað skal selja og hvað ekki, hvað er hyggilegt að einkavæða og hvað ekki. Áreiðanlega eru skiptar skoðanir en sumt má vissulega selja en eins og markaðurinn er núna þolir hann áreiðanlega ekki mikla loftfimleika í þeim efnum.
    Sérstaklega er áríðandi að leitað verði sem fjölbreyttastra leiða varðandi nýsköpun í sjávarútvegi og fiskvinnslu og ég vil endurtaka það ef einhver skyldi nú vera búinn að gleyma því að það eru konur sem bera uppi fiskvinnsluna í landinu, duglegar konur sem hafa bæði leikni og námsgetu til þess að feta nýjar slóðir í vinnslu fisktegunda framtíðarinnar. Þær geta orðið býsna fjölbreyttar ef við berum gæfu til þess að skera ekki niður rannsóknir.
    Vík ég þá að síðara atriðinu sem má flokka undir almennar athugasemdir mínar við fjárlagafrv. Það er varla að maður kunni við að að nefna þær staðreyndir sem eru um íslensk framlög til þróunaraðstoðar þar sem þær þola alls ekki dagsbirtu, varla rafmagnsbirtu, en auðvitað þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn heldur þarf að breyta til.
    Það var mikið áhyggjuefni og ekki að ástæðulausu þegar löndin í Austur-Evrópu og Asíu, sem áður höfðu verið undir kommúnisma, fóru fram á þróunaraðstoð vegna breyttra aðstæðna þar heima fyrir. Þá sögðu ríkin í suðri að nú væri hætta á að skorin væru niður framlög til þeirra. Því miður er full ástæða til þess að hafa slíkar áhyggjur. Einnig verður að líta á það að nú eru stríðsátök og mikil neyð víða um lönd og nægir þá að nefna Sómalíu og Bosníu-Hersegovínu. Almenningur hér á landi sem annars staðar hefur brugðist skjótt og vel við og sem betur fer hafa stjórnvöld einnig séð sóma sinn í að hækka að einhverju leyti framlög vegna þessara sérstöku aðstæðna og ber síst að lasta það. En ástæðan fyrir því að ég tek þetta sérstaklega fram núna, og í raun og veru ekki í fyrsta skiptið sem við kvennalistakonur vekjum athygli á þessum málum, er að það má ekki gleyma því að samhliða nauðsynlegri neyðaraðstoð er brýnt að byggja upp skynsamlega stefnu í þróunarmálum og þau mál hafa fengið það góða skoðun að það ætti að vera hægt að gera slíkt. Það þarf að aðstoða þær þjóðir sem eru nú meira og minna háðar öðrum þjóðum eða eiga í innanlandsneyð að byggja upp sjálfstæða tilveru og þróunarlöndin þurfa að komast nær efnahagslegu sjálfstæðu í sviptingu heimssögunnar án þess að verða of háð hinum svokölluðu þróuðu ríkjum sem hafa bæði gert sig sek um það að eyða landi og þjóðum í baráttu sinni til þeirrar þróunar sem við höfum leyft okkur að kalla framþróun. Við berum ábyrgð, bæði sögulega og siðferðilega, á því að hjálpa til en á forsendum þeirra þjóða sem byggja þau lönd þar sem þarf að taka til hendinni.
    Þróunaraðstoð UNIFEM, Þróunarsjóðs kvenna á vegum Sameinuðu þjóðanna, er dæmi um sérlega vel heppnaða þróunaraðstoð sem byggist ekki síst á fjöldamörgum smærri verkefnum sem samanlagt hafa skapað fjölmörgum konum og körlum störf, glætt atvinnulíf í mörgum þróunarlöndum og orðið til þess að umhverfissjónarmiða er gætt á tímum framfara vegna þess að verkefni sem taka tillit til umhverfisins eru sérlega valin og styrkt en það er ekki svo lítils vert eins og fólk er sem betur fer að vakna til vitundar um. Þessi stuðningur UNIFEM hefur líka gefið snauðu fólki aðgang að sjálfsögðum lífsnauðsynjum eins og hreinu vatni og stundum þarf ekki svo ýkjaháar fjárhæðir til þess að gera heilu þorpin sjálf sér nóg um hreint vatn eða tiltölulega lítið mengað.
    Á morgunverðarfundi UNIFEM á Íslandi á degi Sameinuðu þjóðanna þann 24. okt. sl. var hæstv. forsrh. sérlegur gestur samtakanna á Íslandi og það verður að segjast eins og er að hann gaf góð fyrirheit sem ég held að ég geti túlkað sem loforð um það að framlag til UNIFEM og þeirrar markverðu starfsemi sem UNIFEM á Íslandi styður yrði í samræmi við hófstilltar óskir samtakanna. Í ár flytjum við kvennalistakonur ekki tillögu um sérmerkt framlag til UNIFEM eins og á sl. ári en fé til UNIFEM mun væntanlega

koma af fjárlagaliðnum Þróunarmál og alþjóðlegar hjálparstofnanir í samræmi við loforð hæstv. forsrh. Ég veit að konurnar sem standa að UNIFEM á Íslandi litu svo á að búið væri að gefa fyrirheit sem ekki væri nokkur ástæða til að rengja og að sjálfsögðu fagna ég því.
    Ég vil einungis ítreka það að nauðsynlegt er að sinna uppbyggingu ekki síður en neyðarhjálp þegar þróunaraðstoð er veitt og ég vona að við Íslendingar munum auka í framtíðinni hlut okkar í þessum málum en ekki skerða. Í ársskýrslu UNIFEM fyrir árið 1991 kemur glöggt fram að ekki er verið eyða peningum heldur er verið að fjárfesta í framtíð alls heimsins. Þetta eru peningar sem skila sér margfalt bæði í betri líðan fólks víða um veröld og minni hættu á að þörf sé á neyðaraðstoð, sem er miklu dýrari í öllum tilvikum, og að sjálfsögðu líka í því að heimurinn verði friðvænlegri því að eins og ég held við skiljum öll, þá eru það stóru málin, umhverfismál og þróunarmál sem munu segja svip sinn á sögu næstu áratuga.
    Í ársskýrslu UNIFEM eru ýmsar fróðlegar ábendingar og staðreyndir raktar og þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Endalok kalda stríðsins og fyrstu skref í átt til fjölflokkalýðræðis vöktu vonina um þróun í átt til friðar og framfara árið 1991. En framfara í þágu hverra? Spurningar vakna um þátt kvenna í ákvarðanatöku og stjórnum um allan heim.``
    Það er einmitt þarna sem pottur er brotinn. Það er þarna sem enn þarf að sækja og það er þarna sem enn þarf að huga að staðreyndum. Einnig af þessum sökum hefur UNIFEM beint þróunaraðstoð til kvenna en rétt er að geta þess að það er almennt viðurkennt að engin þróunaraðstoð nýtist betur en sú sem fer um hendur kvenna. Konur, sem hafa fengið þróunaraðstoð, hafa reynst mjög nýtnar. Þær gæta vel hvers eyris, sem um hendur þeirra fer, svo og annarra verðmæta og þær miðla næstu kynslóð af reynslu sinni sem er ekki minnst um vert.
    Ég ætla að ljúka máli mínu með því að rekja nokkrar staðreyndir sem koma fram í þessari skýrslu og vona að það verði veganesti til þeirra sem sjá síðan um að útdeila peningum af óskiptum lið fjárlaga, þess sem ég nefndi núna, og það skiljist að um nauðsynlega áherslu er að ræða. En fyrsti punkturinn er: Konur eru í meiri hluta þeirra sem lifa undir fátæktarmörkum og fjöldi kvenna sem býr við fátækt á landsbyggð víða um heim hefur aukist um 50% frá árinu 1975. Konur eru meiri hluti ólæsra í heiminum. Ólæsum konum hefur fjölgað úr 543 millj. í 597 millj. frá árinu 1970 til ársins 1985 þegar nýjustu tölurnar yfir heiminn eru teknar. Konur í Asíu og Afríku vinna 13 stundum lengur á viku en karlar, aðallega í ólaunuðum störfum. Konur bera 30--40% lægri laun úr býtum fyrir sömu vinna. Þetta er staðreynd, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Konur eru í 10--20% stjórnunarstarfa í heiminum og innan við 20% starfa sem tengjast sérhæfðri iðnaðarframleiðslu. Konur eru innan við 5% þjóðhöfðingja heimsins. Næst kemur staðreynd sem ég vil vekja sérstaklega athygli á. Ef ólaunuð vinna kvenna innan og utan heimilis væri tekin með í þjóðhagsreikningum mundi verðmæti heimsframleiðslu aukast um 25--30% samkvæmt hagskýrslum heimsins.
    Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna The Worlds Women, sem ég hef hér áður gert að umræðuefni, þá fer bilið milli kvenna og karla vaxandi, bæði ef litið er á efnahagslegt og félagslegt sjálfstæði og forræði. UNIFEM hefur þó breytt stöðu kvenna og það ekki síst með því að styrkja einstök verkefni á sviði landbúnaðar, viðskipta og iðnaðar en þessi verkefni skipta miklu máli til að bæta stöðu kvenna í þróunarlöndunum. Meðal þessara verkefna eru vatnsöflun og vernd jarðvegs í afskiptum þorpum í Lesótó, þróun á nýtingu sólarorku fyrir 12 kvenna fyrirtæki í Perú sem framleiðir háþróaðar tæknivörur og nýting húsdýraáburðar til eldsneytisframleiðslu í Jemen. Þessi dæmi held ég að ættu að taka af öll tvímæli um að nauðsynlegt er að hafa þetta í huga þegar peningum er deilt út af fjárlagaliðnum, safnliðnum sem sér um þróunarmál og alþjóðastofnanir og að það sé tryggt að UNIFEM fær það sem hæstv. forsrh. hefur gefið fyrirheit um og treyst er á.
    Lýk ég þá máli mínu, hæstv. forseti.