Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 00:51:54 (3309)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil á grundvelli þessara svara sem hæstv. menntmrh. gaf láta það koma fram að ég mun draga til baka til 3. umr. tillöguna um táknmálstúlkun og sömuleiðis tillöguna um farskóla Kennaraháskóla Íslands. Ég skil það svo að þau mál verði bæði athuguð.
    Varðandi tillöguna um Rannsóknasjóð verð ég að segja að mér finnst satt að segja að það sé einnig mál sem menn ættu að skoða aðeins betur hvort ekki sé óeðlilegt upp á framtíðina að vera að færa rannsóknapeninga annars staðar en á menntmrn. Ég held að það gæti endað illa ef menntmrh. sættir sig við lítinn hlut í þessum efnum. Ég tel að hann eigi að ætla sínum málaflokki mikinn metnað og hann eigi ekki að una því að þetta sé vistað hjá fjmrn. Hann þarf ekki að sækja um gistingu þar fyrir einhverja aura þó að þeir komi frá einkavæðingu sem eigi að fara til rannsókna. Þó get ég út af fyrir sig viðurkennt það sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að það er kannski ekki með öllu heppilegt að vista þetta endilega hjá Rannsóknasjóði, en þá mætti auðvitað hugsa sér að orða liðinn einhvern veginn öðruvísi og það er mál sem ég mun taka til athugunar.
    Svo að lokum það að framlag ríkissjóðs til Háskóla Íslands á árinu 1993 verður auðvitað lægra en var samkvæmt reikningi 1991, fyrst og fremst vegna skólagjaldanna.