Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 02:51:58 (3336)

     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 17. þm. Reykv. mæðist í mörgu. Hann þarf að svara fyrir alla hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar og hann þarf að svara öllum stjórnarandstæðingum, enda blæs hann og stynur og ég fyrirgef hv. þm. þó að hann tali hér af miklum ókunnugleika varðandi vilja SÁÁ. Ég fyrirgef honum það því að það er nú ekki mikið þó að hann fipist einhvers staðar þegar hann þarf að svara svo mörgum þingmönnum. Þannig að ég virði nú viljann fyrir verkið.
    Hann talaði um aðild Íslendinga að EES. Það væri svo sem hægt að ræða um það en ekki í beinu andsvari. Ég var bara að tala um það, hv. þm., vegna þess að ég veit --- ég hélt að ríkisstjórnin, nú veit ég að það er ekki rétt hjá mér, vildi efla atvinnu hér innan lands og þess vegna fannst mér ekki óeðlilegt þar sem hún hafði Hagræðingarsjóð í hendi sér að sá afli sem Hagræðingarsjóður hafði umleikis væri unninn í íslenskum fiskvinnslustöðvum. Það finnst hv. þm. greinilega alveg óþarfi af því að einhver útgerðarmaður eða fiskverkandi á Reykjanesi hafði sagt honum eitthvað annað. En sem sagt, ég virði það við þingmanninn að hann skuli reyna að svara öllu þó hann hafi náttúrlega ekki mikið til málanna að leggja.