Almannatryggingar

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 17:17:04 (3385)


     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Ég kem aðeins til þess að ræða þann kafla þessa frv. sem varðar stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Nú vil ég taka fram að ég er í sjálfu sér ekki á móti því að lögin um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum séu endurskoðuð. Þau eru á margan hátt orðin úrelt og öðruvísi umhorfs á tryggingamarkaðnum en þegar þetta ágæta félag var stofnað á sínum tíma til að sinna mikilvægum verkefnum hjá íslenskum sjávarútvegi. Að mínu mati er hins vegar ekki hægt að líta svo á að það sé nánast sama hvernig farið er með þá fjármuni sem þarna hafa safnast saman og hvernig er staðið að ráðstöfun félagsins.
    Ég tek t.d. eftir því að heilbr.- og trmrh. á að fara með eignarhlut ríkisins í Samábyrgðinni hf. Ég hef ekki séð að neitt sé tekið fram um stjórn þessa félags. Það er ekki einu sinni minnst á það að félagið skuli hafa stjórn en væntanlega fer það nú eftir lögum um hlutafélög en nánast er gengið út frá því að hæstv. heilbr.- og trmrh. taki þetta félag inn á skrifborðið hjá sér og stýri því eins og mörgu öðru frá ráðuneyti sínu. Ég hefði haldið að þetta stæðist ekki þær kröfur sem eru almennt gerðar um einkavæðingu. Þetta mætti frekar fella undir ýmislegt annað og ég vildi að sú skoðun kæmi fram að ég tel það fráleitt að þeir fjármunir sem hugsanlega fengjust fyrir sölu þessa félags renni beint í ríkissjóð heldur sé þetta fjármagn sem eðlilega eigi að ganga til sjávarútvegsins með einum eða öðrum hætti.
    Ég vil benda á það að þegar Aldurslagasjóður fiskiskipa var lagður niður, en hann var hluti af lögunum um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, þá rann það fjármagn til Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins í því skyni að standa að úreldingu fiskiskipa, enda var Aldurslagasjóðurinn stofnaður til þess á sínum tíma. Það var eðlilegt að það yrði að hluta til stofnfé þess sjóðs og með sama hætti tel ég eðlilegt ef félagið verður selt að fjármagnið renni til þess að flýta fyrir úreldingu fiskiskipaflotans. Það er markmið sem allir geta verið sammála um. Þetta fjármagn hefur skapast vegna trygginga á fiskiskipum í gegnum tíðina og því eðlilegt að þannig sé farið með það.
    Ég spyr hæstv. trmrh. fyrst og fremst hvernig hann hyggst standa að því að fara með eignarhluta ríkisins í Samábyrgðinni, hvernig hann hafi hugsað sér að skipa þar stjórn og samkvæmt hvaða reglum hann ætli sér að gera það. Ég veit ekki betur en tveir núverandi stjórnarmanna séu tilnefndir af Landssambandi ísl. útvegsmanna samkvæmt lögum og eftir því sem ég best veit er annar þeirra formaður stjórnar. Náin tengsl hafa verið á milli samtaka útvegsmanna í landinu og þessa félags þótt útvegsmenn hafi nú í vaxandi mæli skipt við önnur tryggingafélög vegna þeirrar samkeppni sem hefur komið upp. En ég tel að ákvæði sem lúta að þessu séu allsendis ófullnægjandi í frv. og þar að auki get ég ekki fallist á það sem segir í 15. gr., með leyfi forseta:
    ,,Selji ríkissjóður hlutabréf sín í Samábyrgðinni hf. . . .  `` Með þessu er hæstv. trmrh. að ákveða svo ekki verður um villst hver eigi þessi hlutabréf, en af þeim lögfræðilegu álitum, sem hafa verið gerð um málið, er ekki einsýnt eins og þarna stendur og því er að mínu mati ekkert vit í öðru en að ráðstafa því fjármagni sem þarna kynni að vera fyrir hendi í bærilegum friði við samtök sjávarútvegsins þannig að ekki verði eftirmáli að. Eins og þarna er til stofnað er ekki ólíklegt að úr verði málaferli og ég vildi ráðleggja hæstv. heilbr.- og trmrh. að reyna að koma í veg fyrir það og verja því þessu fjármagni með þeim hætti að sem flestir geti á það fallist.