Almannatryggingar

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 18:02:24 (3388)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin vil ég benda á í fyrsta lagi að það reglugerðarvald sem er í almannatryggingalögunum er ívilnandi yfirleitt. Það er sú grundvallarregla sem er í gömlu almannatryggingalögunum frá 1970 að þar er um að ræða reglugerðarvald sem er ívilnandi fyrir viðskiptamenn trygginganna. Það reglugerðarvald sem menn eru að tala um aftur á móti er vald til ráðherra til að ákveða skatta, til að ákveða hversu mikið er borgað fyrir sérfræðiþjónustu, til að ákveða hversu mikið er borgað fyrir lyf o.s.frv. án nokkurra viðmiðana. Ég fullyrði, eins og ég gerði áðan, að það er einstakt. Þar er of langt gengið.
    Varðandi önnur atriði sem komu hér fram í máli hæstv. ráðherra vil ég aðeins undirstrika þar meginatriði. Í frv. sem hefur verið rætt hér í tvo daga eru íþyngjandi aðgerðir fyrir almenning í landinu upp á einn og hálfan milljarð kr. Í 1. og 2. gr. eru 485 milljónir, í 6. gr. 610 milljónir, í 7. gr. 190 milljónir, í 8. gr. 80 milljónir og í II. kafla 170 millj. kr. Þessum tölum hefur ekki verið mótmælt af hæstv. heilbr.- og trmrh. Þvert á móti hefur hann staðfest þær í síðustu ræðu sinni. Það er mjög nauðsynlegt að hafa það í huga núna við lok umræðunnar að hér erum við að fjalla um tilfærslur upp á hvorki meira né minna en einn og hálfan milljarð kr. sem bætast við hækkun á beinum sköttum upp á 3,1 milljarð og bætast við niðurfellingu barnabóta og vaxtabóta upp á einn milljarð og hækkun virðisaukaskatts upp á 1,8 milljarða og hækkun bensínsgjalds um 350 millj. kr. Með þessum frv. tveimur og með virðisaukaskattsbreytingunni eru menn í raun að hreyfa til í þjóðfélaginu hvorki meira né minna en 8.000 millj. kr. Ég hygg að ekki áður hafi ríkisstjórn ætlast til þess að Alþingi afgreiddi með jafnskömmum fyrirvara og jafnilla undirbúin, jafnstór mál sem snerta jafnmarga í landinu og þau sem hér liggja fyrir.