Umræða um Evrópskt efnahagssvæði

80. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 13:14:42 (3401)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að liggja undir því að hafa borið rangar sakir á hv. kollega minn. En það veit hann vel, eins og ég veit vel, að það var samkomulag um að dagskráin liti svona út hvort sem umræður yrðu síðan í samræmi við þá dagskrá. Það liggur fyrir ósk af hálfu þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar um það að utanrrh. flytji þinginu munnlega skýrslu um för sína til Genfar og viðræður EFTA-ráðherranna þar um stöðu EES-málanna í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Sviss.
    Það var ætlunin að efna til þingflokksfunda núna og setja síðan annan fund með því máli á dagskrá. Um þetta er fullt samkomulag. Ég sé því ekki að hv. þingflokksformaður þurfi að bera mér það á brýn að ég hafi verið að ljúga upp á hann.