Skýrsla utanríkisráðherra um niðurstöður ráðherrafundar EFTA-ríkjanna

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 15:13:02 (3408)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Yfirlýsingar hæstv. utanrrh. í þessu máli fyrr í þessari viku og svo hér í dag eru satt að segja orðnar með þeim hætti að það er dálítið erfitt að ræða málið án þess að velta því fyrir sér: Er hæstv. utanrrh. marktækur í málinu eða ekki?
    Á Alþingi fyrr í þessari viku og í fjölmiðlum landsins setti hæstv. utanrrh. fram fjögur atriði sem þjóðin öll man. Það vill svo til að með ræðu hans hér í dag og afgreiðslu ráðherrafundar EFTA í gær á málinu reynast allar þessar yfirlýsingar hæstv. utanrrh. vera rangar.
    Í fyrsta lagi sagði hæstv. utanrrh. að það væri skilyrði fyrir því að Ísland gæti tekið þátt í ráðstefnunni um framhald EES að Alþingi afgreiddi EES-samninginn fyrir jól. Þegar var sýnt fram á það næstu dagana á eftir að þetta voru hreinar rangfærslur og merkilegt að vita hvort hæstv. utanrrh. þekkti ekki betur málið en svo eða hvort hann fór vísvitandi með rangfærslur.
    Í öðru lagi sagði hæstv. ráðherra hvað eftir annað á Alþingi og í fjölmiðlum að þetta væri ekkert mál. Það eina sem þyrfti að gera væri að strika Sviss út úr EES-samningnum. Hvað kemur í ljós eftir ráðherrafund EFTA? Þá kemur í ljós að þetta er líka rangt. Það er alls ekki ætlunin núna að strika Sviss út úr samningnum heldur á það þvert á móti að standa.
    Í þriðja lagi sagði hæstv. utanrrh. að það sem þyrfti að gera væri að strika EFTA alls staðar út úr samningnum. Sagði það hvað eftir annað á Alþingi og í fjölmiðlum fyrr í þessari viku. Nú segir hæstv. utanrrh. hins vegar að það eigi alls ekki að gera heldur eigi EFTA að fá að standa alls staðar í samningnum.
    Í fjórða lagi sagði hæstv. utanrrh. á Alþingi að þetta væri ekki samningur EFTA sem stofnunar heldur bara EFTA-ríkjanna og það ætti að taka skýrt fram að það væru EFTA-ríkin. Nú aftur á móti kemur hæstv. utanrrh. með drög að prótókolli frá laganefnd EFTA, sem ræddur var á ráðherrafundinum, þar sem alls staðar stendur EFTA en ekki EFTA-ríkin. Alls staðar þar sem vikið er að dómstólnum stendur ,,dómstóll EFTA``, alls staðar þar sem stendur eftirlitsstofnunin stendur ,,eftirlitsstofnun EFTA``.
    Í öllum þeim fjórum höfuðatriðum sem utanrrh. byggði málflutning sinn á dagana eftir að úrslitin lágu fyrir í Sviss hefur nú komið í ljós að hann hefur reynst fara með rangt mál. Það sýnir auðvitað hvað það er hæpið fyrir hæstv. ráðherra og aðra að vera að rjúka til og lýsa því yfir að hlutirnir séu svona og svona og svona með satt að segja miklu stærilæti og miklum hroka í garð þingsins og annarra sem eru að spyrja hann, að þeir ættu nú að vita þetta, þegar á innan við viku kemur í ljós að í öllum þessum höfuðatriðum hefur ráðherrann reynst fara með rangt mál. Það er ekkert skilyrði fyrir þátttöku Íslands í samráðsráðstefnunni að EES-samningurinn sé afgreiddur hér fyrir jól. Það er ekki ætlunin að strika Sviss út úr EES-samningnum. Það er ekki ætlunin að strika EFTA út úr EES-samningnum. Og það stendur ekki EFTA-ríkin í þeim nýja prótókolli sem ráðherrann kemur nú með frá Genf.
    Síðan er það líka ljóst að það sem gerðist í Genf er bara lítill hluti málsins vegna þess að hinn samningsaðilinn, þ.e. Evrópubandalagið, er ekki búinn að segja neitt um málið. Hæstv. ráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, kemur hér og segir: Það er niðurstaða EFTA að það eigi ekki að breyta neinu í samningnum. En hver er afstaða EB, sem er hinn sterki aðili í þessum samningaviðræðum? Það liggur ekkert fyrir. Eins og hér kom fram áðan verður það fyrst á ráðherrafundi Evrópubandalagsins 21. des. sem það mun liggja fyrir. Svo það er auðvitað alveg ljóst að við á Alþingi getum ekki haft neina hugmynd um það hvað hinn samningsaðilinn segir í upphafi þessara breytinga sem nú þarf að gera fyrr en eftir 21. des. þegar ráðherraráð Evrópubandalagsins er búið að halda sams konar fund og EFTA hélt í gær.
    Þess vegna blasir það við, hæstv. utanrrh., að það er ekkert formsatriði af neinu tagi sem knýr Alþingi Íslendinga til þess að afgreiða EES-samninginn á næstunni. Það er ekkert formsatriði. Það er bara spurning um pólitískt mat eða pólitískt stolt eða pólitískan metnað sem þar hlýtur að ráða.
    Evrópubandalagið tekur hlutunum mjög rólega. Evrópubandalagið hefur enn þá ekki sagt neitt í málinu. Evrópubandalagið ætlar ekki að koma saman á ráðherrafund fyrr en 21. des. Og það sem meira er um vert, það var staðfest af hálfu utanrrh. í morgun á fundi utanrmn. að innan Evrópubandalagsins er allt í fullkominni óvissu um það hvenær öll Evrópubandalagsríkin verða búin að staðfesta EES-samninginn. Það er nefnilega mjög merkileg staðreynd. Það liggur núna nokkurn veginn ljóst fyrir að ekki verða öll Evrópubandalagsríkin búin að staðfesta EES-samninginn fyrir áramót. Þess vegna hlýtur maður auðvitað að spyrja að því hér í þeim miklu önnum og efnahagserfiðleikum sem við erum í á Alþingi og þjóðin öll: Af hverju verður við á Íslandi að rjúka til og ljúka við að afgreiða þennan ófullkomna samning fyrir jól þegar öll aðildarríki Evrópubandalagsins sjálfs ætla ekki að gera það? Sterki aðilinn í þessum samningi, EB, hefur talað alveg skýrri röddu í málinu. Þeim liggur ekkert á. Þeir ætla ekki að halda sinn ráðherrafund fyrr en rétt fyrir jól og þeir ætla ekkert að afgreiða EES-samninginn fyrir áramót. Eigum við þá hér að fara að verða kaþólskari en sjálfur EB-páfinn í þessum málum? Auðvitað ekki.
    Við eigum auðvitað að taka okkur þann tíma sem við þurfum. Við eigum að skoða þá prótókolla sem nú hafa verið lagðir fyrir. Ég fagna því að það hefur verið ákveðið að utanrmn. komi saman á mánudaginn til þess að kalla til sín lögfræðinga og skoða þessa nýju texta sem nú liggja fyrir.
    Ég hef sett fram það sjónarmið að ég tel eðlilegt að nefndin skoði á nýjan leik það staðfestingarfrumvarp sem hér hefur verið lagt fram. og ég tek undir með hv. þm. Steingrími Hermannssyni sem sagði áðan að staðfestingarfrumvarpið er markleysa eins og það er. Hvers vegna eigum við að hefja 2. umr. um frv. sem er markleysa í þeim búningi sem það er? Fyrst skulum við flytja þær brtt. sem þarf að flytja og svo ræða málin. Ég hélt satt að segja að við hefðum nóg annað að gera á Alþingi en að fara að eyða tímanum í að ræða frv. sem er markleysa í þeim búningi sem það er nú.
    Öll skynsemi mælir þess vegna með því að bíða um sinn a.m.k. Bíða eftir ráðherrafundi Evrópubandalagsins, bíða eftir því að við höfum skoðað þessa nýju prótókolla, bíða eftir álitsgerðum lögfræðinga um það með hvaða hætti á að taka á málinu. Og bíða svo eftir því hverjar verða fjárhagskröfur Evrópubandalagsins til EFTA-ríkjanna þegar Sviss er komið út. Halda menn virkilega að Evrópubandalagið komi ekki með fjárhagskröfur á hin EFTA-ríkin þegar það ríki sem átti að bera stærstu fjárhagsbyrðarnar, Sviss, ætlar ekki að bera þær lengur? Evrópubandalagið hefur lagt sig í samningalotu fyrir minni upphæðir en þær sem detta úr þegar Sviss er komið út úr þessu mikla fjárhagsmunstri.
    Hvað um annan kostnað í þessum málum? Er ekki rétt að við fáum að vita hvað margir tugir eða hundruð milljóna koma til með að falla á Íslendinga til viðbótar ef við eigum að samþykkja þennan samning? Við erum að elta milljón og nokkur hundruð þúsund í fjárlögunum og erum í miklum fæðingarhríðum og erfiðleikum, eins og formaður fjárln. Karl Steinar Guðnason hefur lýst fyrir þjóðinni á undanförnum dögum. En þegar kemur að hundruðum milljóna sem á hugsanlega að bæta á Íslendinga út af því sem er gert með EES þá þarf ekkert að skoða málin. Þá er buddan opin. Þá er bara sjálfsagt að greiða úr ríkiskassanum. En það er grátur og gnístran tanna ef það á að koma 100 þús. eða hálf milljón í eitt eða annað hér.
    Þetta mál er allt þannig því miður að það liggur allt öðruvísi fyrir í dag en þegar utanrrh. lagði það fyrir í þinginu eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Sviss og getur þess vegna legið allt öðruvísi fyrir eftir ráðherrafund Evrópubandalagsins 21. des. Öll skynsemi mælir þess vegna með því að við tökum því rólega.
    Ég ætla svo að segja við hæstv. utanrrh. það sama og ég sagði við hann á fundi utanrmn. í morgun. Það væri skynsamlegt hjá honum að biðja Alþingi Íslendinga afsökunar á ummælum sínum á erlendri grundu um atkvæðagreiðslu á Alþingi og einnig ummælunum um Alþingi sem stofnun og starfshætti þar,

a.m.k. um atkvæðagreiðsluna á Alþingi. Að ráðherra í ríkisstjórn Íslands, utanrrh. Íslands, skuli á opinberum vettvangi, blaðamannafundi eftir ráðherrafund EFTA í Genf, lýsa því yfir að atkvæðagreiðsla, sem ekki hefur farið fram á Alþingi, muni fara þannig að 33 verði með, 22 á móti og 8 sitji hjá. Auðvitað var ráðherrann í miklum erfiðleikum áðan með að reyna að réttlæta þessi mistök. Hann sagði réttilega hér áðan að enginn gæti svarað um afstöðu Alþingis nema Alþingi Íslendinga. Hvers vegna var hann þá að svara í Genf? Hverjir eru þessir tveir þingmenn stjórnarliðsins sem hann sagði í ræðustólnum að ætluðu að greiða atkvæði á móti EES? Hverjir eru það, hæstv. ráðherra? Og hverjir eru þessir átta sem ætla að sitja hjá? Hverjir eru þessir 22 sem ætla að greiða atkvæði á móti? Hvað á það að þýða að utanrrh. Íslands fari á erlendan vettvang og lýsi atkvæðagreiðslum á Alþingi sem hafa ekki farið fram? Þetta er auðvitað slík vanvirða við þingið, slík vanvirða fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum og rétti þingsins sjálfs að ef hæstv. utanrrh. vill eiga gott samstarf við þingið í málinu það sem eftir er, þá á hann að hafa manndóm til að biðjast afsökunar á þessum orðum sínum. Ég er viss um að við í þingsalnum munum þá fyrirgefa honum þau og meta hann mann að meiri fyrir að biðjast afsökunar á þeim.
    Ef hann ætlar að láta þessi orð standa án þess að biðjast afsökunar á þeim er það auðvitað slík framkoma við Alþingi Íslendinga að í raun og veru væri það í þroskuðum lýðræðisríkjum tilefni fyrir ráðherrann að segja af sér. Ráðherra sem segir við fulltrúa erlendra ríkja hvernig hlutirnir muni fara á Alþingi Íslendinga upp á mann, upp á tölu, er að ganga inn á slíka braut að það er ekki hægt fyrir þjóðþingið að starfa við þær aðstæður.
    Ég vona þess vegna að hæstv. ráðherra, ef hann gerir það ekki í dag, noti helgina til þess að hugsa sig um í rólegheitum og biðji þingið afsökunar á þessum orðum sínum eftir helgina og síðan skoðum við málin í rólegheitum á næstu dögum.