Skýrsla utanríkisráðherra um niðurstöður ráðherrafundar EFTA-ríkjanna

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 16:40:55 (3416)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það er komið undir lok þessarar umræðu og ég held að við höfum fengið nokkurn veginn þá stöðu sem við blasir. Í fyrsta lagi eru uppi rökstuddar efasemdir um að málið sé þingtækt í þeim búningi sem það er og hvort yfir höfuð er hægt að fjalla um það. Ég veit að það eru skiptar skoðanir um það en efasemdirnar hafa verið rökstuddar.
    Í öðru lagi að verðum við að vera raunsæ varðandi málsmeðferð. Það eru tveir möguleikar. Annars vegar sá að aðeins þurfi minni háttar lagfæringar við og þá er það auðvelt. Það er auðvelt að gera það á stuttum tíma. Þurfi meiri háttar breytinga við þennan samning mun það ekki taka skamman tíma heldur þarf að vanda það verk vel. Það er óljóst hver afstaða Evrópubandalagsins er og það gefur okkur svigrúm til vandaðra vinnubragða og við getum ekki, hvort sem hugur okkar stendur með eða á móti þessum samningi verið þekkt fyrir annað en vanda okkar vinnubrögð.
    Sú kreppa sem er í Evrópumálum er tvenns konar. Annars vegar vegna þeirra öru breytinga sem þar hafa orðið og hins vegar og ekki síst vegna þess að stjórnvöld hafa ekki sem skyldi hlustað á fólkið í landinu. Því vil ég ítreka það að krafan um þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi hlýtur enn að vera til staðar og nú sem aldrei fyrr vegna þess að við höfum ákveðna lexíu sem við getum lært af þar sem sést að mjög víða hafa stjórnvöld viljað hraða sér mun meira en almenningur og þetta misræmi gengur hreinlega ekki. Það veldur tortryggni. Það veldur úlfúð, erfiðleikum og vandamálum sem vel væri hægt að leysa ef betur væri hugað að því að taka tíma í þessi mikilvægu málefni.