Ummæli utanríkisráðherra um Alþingi

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 21:04:56 (3487)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er ánægjulegt að hlusta á forseta þingsins hæstv. flytja hér mjög prúðmannlega úr forsetastóli yfirlýsingu og er hann þó einn af þeim sem hefur hlotið þá umsögn erlendis að það fari eftir líkamsburðum og líffærastyrkleika hversu lengi hann tali á Alþingi. Nú virtist mér að sú stutta ræða sem hann flutti áðan færi eftir vitsmunalegu mati á því hvað hann teldi skynsamlegt að segja. En engu að síður er það nú svo að það er ekki víst að það skaði Alþingi Íslendinga svo mikið hvað sagt er hér heima af hæstv. utanrrh. Það á við sú gamla saga sem mér var einu sinni sögð af manni sem þótti stundum segja meira en hann gæti staðið við, að það hefði ekki komið að sök þar sem allir þekktu hann. Hitt er aftur á móti miklu meiri spurning þegar hæstv. utanrrh. með laun frá íslenskri þjóð og dagpeningum frá íslenska ríkinu er erlendis, nokkuð vel haldinn í mat og drykk, að þá skuli hann nota tímann til að ausa Alþingi Íslendinga aur. Ekki aðeins okkur stjórnarandstæðinga heldur allt sitt lið. Þar á meðal hv. 17. þm. Reykv. sem sígur mjög niður í sæti sínu og skyldi engan undra að búa við þetta. Hann hefur þó kjark til að segja eitthvað. Það er víst búið að skipa flestum að þegja en það vottar þó enn fyrir hugrekki því hann segir eitthvað. Hins vegar er hæstv. utanrrh. að lesa fyrir iðnrh. upplýsingar um þennan samning sem á að fara að ræða hérna til að hann viti hvað í honum stendur. Það er svo allt annað mál.
    Mig undrar það, herra forseti, þó ekki sé meira sagt ef svo er komið að forseti Alþingis sem vissulega er mikill ágætismaður, sá sem situr í forsetastóli þessa stundina, telur að strákapör ráðherra á erlendri grund eigi ekki að taka fyrir föstum tökum í þinginu. Mig undrar það en ég skil afstöðu hæstv. forseta, hann telur óþægilegt að þurfa að standa í því að hýða hæstv. utanrrh.