Ummæli utanríkisráðherra um Alþingi

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 21:08:07 (3488)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að hafa reynt að veita svar við spurningu minni en svarið er því miður á þann veg að það á ekki alveg við það sem hér hefur gerst. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. forseta að það er algengt að ráðherrar haldi blaðamannafundi, vissulega. En ég efast um að það sé hægt að finna nokkur dæmi um að ráðherra sé hvað eftir annað beðinn um það á Alþingi að fjalla um ummæli sín og endurtaka þau í þingsal svo þingmenn geti rætt þau og hann neiti með þögninni að verða við síendurteknum óskum um það en fari síðan í þinghléi sama dag um leið og þingflokkar eru á fundum og boði til opinbers blaðamannafundar utan þingsins þar sem hann endurtekur ummæli sín og segist standa við hvert orð og heldur áfram atlögu sinni gegn þinginu. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál að ráðherra neitar að ræða í þingsalnum þau málefni sem hann ræðir hvað eftir annað á blaðamannafundum erlendis og hérlendis vegna þess að nú hefur það gerst í dag að ráðherra hefur bæði haldið blaðamannafund erlendis og síðan hérlendis til þess að ráðast á Alþingi Íslendinga en neitar gjörsamlega að ræða þessi ummæli sín og þessa skoðun sína í þingsalnum. Það var ástæðan fyrir því að ég óskaði eftir umsögn hæstv. forseta vegna þess að okkur þingmönnum er nokkur vandi á höndum. Við búum við það að fjölmiðlakerfi landsins hefur flutt nánast látlaust í nokkra daga árásir hæstv. utanrrh. á Alþingi. Þegar hann er beðinn um að tjá sig um þau ummæli hér á Alþingi þá neitar hann með þögninni. Hvað eigum við þingmenn að gera, virðulegi forseti? Eigum við bara að sitja undir þessum árásum hæstv. utanrrh. á Alþingi og búa við það að hann neitar að ræða við okkur á þeim vettvangi sem er hans rétti vettvangur? Hér er nú einu sinni þingræði, hér er lýðræði og hinn rétti vettvangur ráðherranna er þingsalurinn.
    Ég vil þess vegna endurtaka ósk mína til virðulegs forseta að hann hugleiði með hvaða hætti forseti Alþingis getur brugðist við til varnar þinginu því það er auðvitað ekki búandi við það að utanrrh., sem er einn af þremur æðstu trúnaðarmönnum íslenska lýðveldisins á erlendri grund ásamt forseta lýðveldisins og forsrh., skuli ganga fram fyrir skjöldu og níða Alþingi Íslendinga á erlendri grundu. Það er auðvitað ekki við það búandi. Utanrrh. Íslands gegnir virðulegu embætti. Það er eitt af þremur virðulegustu embættum þessarar þjóðar og erlendir menn hlusta sérstaklega á hans orð eins og orð forseta lýðveldisins og forsrh. Ég læt mér það ekki í léttu rúmi liggja að hæstv. utanrrh. geti óátalið haldið áfram að níða löggjafarþing þjóðarinnar á erlendum vettvangi.