Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 21:17:35 (3493)

     Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Ég vil taka það fram í upphafi míns máls að það er sjálfsagt að þakka formönnum utanrmn., bæði fyrrv. og núv., fyrir ágætt samstarf og hef ég í engu undan að kvarta í þeim efnum. Við höfum náð að tala við þá sem við höfum óskað og fá umsagnir og ég tek undir það með formanni utanrmn. að vafalaust er þetta eitt það mál sem vandlegast hefur verið farið yfir á Alþingi.
    Ég vil líka staðfesta það sem kom fram hjá hv. formanni þingflokks Sjálfstfl. að það var að minni ósk að 2. umr. um málið var frestað til sl. laugardags, en þá var ætlunin að taka það á dagskrá. Ég óskaði eftir þessu vegna fjarveru minnar og ég met það að við þeirri ósk var orðið. Ég hef því ekki tekið þátt í gagnrýni, a.m.k. ekki að ráði, á það að taka málið fyrir núna. Ég lét að vísu í ljós þá skoðun mína við umræðu á laugardaginn um skýrslu hæstv. utanrrh. að ég teldi óeðlilegt að taka málið á dagskrá eins og það er nú komið. Ég vona jafnframt að mér leyfist án þess að vera útmálaður fyrir fréttamönnum eða kallaður fara með ósæmilegt mál á Alþingi að fara nokkrum orðum um það hvers vegna ég tel að það sé misskilningur hjá hæstv. ríkisstjórn að taka málið nú fyrir. Ég tel að brottför Sviss frá þessu máli sé stórmál og ég er alls ekki sammála því sem komið hefur fram að eingöngu þurfi að gera tæknilegar breytingar á samningnum. Í 1. gr. frv. sem hér liggur fyrir er m.a. farið fram á heimild til þess að staðfesta samning milli EFTA-ríkjanna í 2. og 3. lið 1. gr. Sá samningur liggur ekki fyrir því þetta verður ekki samningur á milli EFTA-ríkjanna.
    Þegar hæstv. utanrrh. segir að þarna sé eingöngu um tæknileg atriði að ræða er ég honum ósammála. Það kann að vera að það sé tæknilegt atriði að setja þarna inn í þau EFTA-lönd sem eftir eru. En það er ýmislegt fleira í þessum samningi sem þarf að breyta. T.d. þarf að breyta fjölda dómara í dómstólnum og eflaust fjölda þeirra sem sitja í eftirlitsstofnuninni og t.d. kemur fram að fjöldi dómara verður jöfn tala sem er ekki talið ganga upp. Ég nefni líka þróunarsjóðinn sem ekki er vitað hvernig verður farið með eftir að Sviss dregur sig til baka. Ég nefni sömuleiðis kostnaðinn og reyndar rekstur stofnana EFTA sem eru mjög viðamiklar samkvæmt þessum samningi og áætlað að reksturinn kosti 4,4 milljarða kr. Hvernig verður þeim kostnaði skipt? Loks og ekki síst mikilvægt er vitanlega það að allt sem við höfum í höndum um framhald þessa máls er frá skyndifundi utanrrh. EFTA-ríkjanna en fundur EB, þ.e. hins samningsaðilans, verður ekki fyrr en 21. des. Við vitum ekki enn hvaða augum EB lítur á þá breytingu sem hefur orðið. Hæstv. utanrrh. hefur sjálfur látið að því liggja að svo kunni að fara að Spánn krefjist þess að þróunarsjóðurinn verði ekki minni en hann átti áður að verða svo framlög annarra ríkja aukist.
    Ég vek líka athygli á því að breytt hefur verið dagsetningum í þeim drögum sem fyrir liggja frá þeirri nefnd eða þeim mönnum sem hafa fjallað um nauðsynlegar breytingar og stefnt er að því nú að samningurinn taki gildi um mitt ár.
    Ég tel þess vegna afar óþingræðislegt að ætla okkur að fjalla um samning sem þarf að taka breytingum þegar ekki er nauðsynlegt að gera það vegna þess að tíminn leyfir eðlilegri málsmeðferð.
    Þetta var rætt í utanrmn. sl. laugardag og kom þá fram að æskilegt væri að fá lögfræðilegt álit á því hvort rétt gæti talist að taka samninginn fyrir í þessari mynd. Það álit kom á fund nefndarinnar í morgun. Hæstv. utanrrh. hafði falið sínum starfsmönnum að semja álit og ég er út af fyrir sig ekki að gera lítið úr því. Þetta eru hinir mætustu menn. Engu að síður hlýt ég að taka undir að eðlilegra hefði verið að fá lögfræðilegt álit frá mönnum utan ráðuneytanna því fleiri koma þar að. Í þessu áliti er nefnt fordæmi og þess getið að Alþingi muni hafa staðfest fríverslunarsamning Íslands og Evrópubandalagsins 1973 eftir að breyting hafði orðið á stöðu mála þar því reiknað hafði verið með því að Norðmenn gerðust aðilar á grundvelli samkomulags sem hafði náðst á milli Noregs og Evrópubandalagsins um aðild Noregs að bandalaginu. Eins og allir vita var það fellt. Ég hef náð mér í þann samning og farið yfir hann. Það er rétt að þar er Noregs getið á nokkrum stöðum. En ég sé ekki að sú breyting sé í fyrsta lagi neitt svipuð því sem hér gerist og sérstaklega hlýt ég að vekja athygli á því að þá voru menn eingöngu að staðfesta þjóðréttarsáttmálann en ekki að lögfesta hann, ekki gera hann að íslenskum lögum. Hér er verið að gera þjóðréttarsáttmála að íslenskum lögum. Ég hef a.m.k. lært það mikið í lögfræði eftir sumarið og öll lögfræðiálitin að þar er reginmunur á. Hér er verið að tala um að gera að íslenskum lögum sáttmála sem liggur ekki fyrir í dag. Mér þykir þetta satt að segja óþörf og afar óeðlileg málsmeðferð.
    Í þessari greinargerð lögfræðinganna er leitast við að færa rök fyrir þeirri fullyrðingu hæstv. utanrrh. að nauðsynlegt sé að staðfesta samninginn eða samþykkja frv. nú þegar á Alþingi til þess að hann geti fengið að vera með, blessaður, á þeirri ráðstefnu sem ráðgert er að kalla saman snemma í janúar til að fjalla nánar um samninginn. Er þar vísað til bókana sem gerðar hafa verið með tilvísun til 129. gr. samningsins sem fjallar um það hvernig með skuli fara ef einhver hleypur undan merkjum. Með leyfi forseta, vil ég lesa þær tvær tilvísanir sem hér er um að ræða. Þar segir:
    ,,Samningsaðilar hafa samþykkt eftirfarandi:
    1. Ef einhver þeirra er ekki tilbúinn til að fullgilda samninginn skulu undirritunaraðilar endurmeta aðstæður.`` Hér er sem sagt sett það skilyrði að það liggi fyrir að einhver sé ekki tilbúinn til að undirrita samninginn. Það liggur núna fyrir að Sviss er ekki tilbúið til þess. Það liggur svo sannarlega ekkert fyrir að Íslendingar séu ekki tilbúnir til að undirrita samninginn svo ég held það hljóti að liggja í hlutarins eðli að þeir eru þá í þeim hópi sem kemur saman til að meta stöðuna. Það er varla hægt að vísa þeim frá á þeirri forsendu að þeir séu ekki tilbúnir til að fullgilda samninginn.
  ,,2. Ef einhver þeirra [þ.e. samningsaðila] fullgildir ekki samninginn skulu hinir samningsaðilar boða til ráðstefnu stjórnarerindreka til að meta áhrif fráviks frá fullgildingu samningsins og skoða möguleika á að samþykkt verði bókun um breytingar sem verða með fyrirvara um nauðsynlega meðferð innan lands. Slík ráðstefna skal haldin jafnskjótt og ljóst er að einhver samningsaðili muni ekki fullgilda samninginn eða í síðasta lagi ef dagsetning gildistöku samningsins er ekki virt.``
    Það liggur alls ekki ljóst fyrir að við munum ekki fullgilda samninginn og eins og hæstv. utanrrh. hefur tilkynnt alheimi telur hann 33 þingmenn hér örugga til að samþykkja samninginn. ( Gripið fram í: Það er ekki víst að þeir trúi utanrrh.) Það má vera, hv. þm., en ég vil enn þá trúa því að utanrrh. Íslands njóti viss trúnaðar erlendis.
    Þessi greinargerð gengur öll út á það hvort við verðum í hópi hinna sem verða kallaðir saman á ráðstefnuna. Ég tel mig hafa fært rök fyrir því að það er nokkuð öruggt að við verðum í þeim hópi.
    Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar yfir þær breytingar sem þarf að gera. Við höfum fengið drög að þeim og eins og ég sagði á Evrópubandalagið eftir að fjalla sömuleiðis um þessa hluti svo við vitum í raun og veru alls ekki hvort enn fleiri breytingar verða nauðsynlegar en þær sem ég hef lauslega minnst á.
    Nál. 1. minni hluta er stutt og það er stutt af þeirri ástæðu að við teljum að tryggt þurfi að vera að stjórnarskráin heimili að þessi samningur sé gerður. Við teljum það útgangsatriði í þessu máli öllu saman. Mér þótti athyglisvert þegar ég kom til landsins sl. fimmtudag og sá í sjónvarpinu hv. þm. Pálma Jónsson, virðulegan forseta sem hér situr nú, fjalla um mál sem varðar líka stjórnarskrána, þ.e. Samábyrgð fiskiskipa. Hv. þm. sagði þá mjög skýrt að hann styddi ekki þann gerning nema öllum vafa væri eytt um að þetta stæðist 67. gr. stjórnarskrárinnar um eignarréttinn. Þetta er hárrétt hjá hv. þm. eins og ég átti von á. Það er það sem við erum að fjalla um. Það verður að eyða öllum vafa um það að sá gerningur sem hér er til umræðu standist stjórnarskrána. Það var það sem flokksþing framsóknarmanna áréttaði á nýlegu þingi sínu. Þar er lögð áhersla á að stjórnarskráin verði að njóta vafans. Það verði með öðrum orðum að eyða öllum vafa í þessu sambandi. Við sem stöndum að áliti 1. minni hluta teljum að þeim vafa hafi satt að

segja alls ekki verið eytt, langt frá því. Ég mun koma að því miklu nánar hér á eftir. Við teljum satt að segja að enginn vafi sé á því að samningurinn standist ekki stjórnarskrána eins og hún er skrifuð. Þess vegna lagði stjórnarandstaðan fram frv. um breytingu á stjórnarskránni til þess að þeir sem telja samninginn af einhverjum ástæðum, málefnalegum og efnislegum, mikilvægan fyrir okkur Íslendinga, geti samþykkt þennan samning. Við erum á þeirri skoðun að það sé ekki hægt, jafnvel fyrir þá menn, ef þeir skoða eiðstafinn sem þeir gáfu þegar þeir settust á Alþingi, sem að sjálfsögðu eru haldnir einhverjum vafa um að samningurinn standist stjórnarskrána.
    Í þessari umræðu sem fjallar um öll atriði samningsins mun ég koma ítarlega að ýmsum og væntanlega flestum málum hans. Ég tel nauðsynlegt að rekja nokkuð sögu þessa samnings því ég kom töluvert að málinu á fyrri stigum þess og ekki síst með tilliti til þess að sumir hafa haldið því fram, einkum hæstv. forsrh., að í raun hafi ekkert breyst í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég tel einnig nauðsynlegt að skoða vandlega hvaða hag við Íslendingar megum ætla okkur af þessum samningi og þá ekki síst í hvaða stöðu við Íslendingar erum til að nýta okkur það sem samningurinn býður upp á. Þá tel ég í þriðja lagi nauðsynlegt að meta fjórfrelsið, eins og það er gjarnan kallað, eða frelsi á fjórum sviðum og reyna að gera okkur grein fyrir því hvernig það horfir við íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Loks hlýt ég að koma ítarlega inn á stjórnarskrárþátt málsins.
    Það hygg ég að sé nokkuð sammála álit flestra ef ekki allra að þessi samningsgerð kemst fyrst á skrið þegar Delors flytur ræðu í Strassborg í janúar 1989, mig minnir að það hafi verið 17. jan., þar sem hann í raun lagði línurnar fyrir viðskiptasamning EFTA og EB. Vissulega hafði áður verið talað um mikilvægi þess að slíkur samningur yrði gerður enda eru þetta afar stórir viðskiptaaðilar, t.d. er EB stærsti viðskiptaaðili EFTA-landanna, ekki bara okkar heldur þeirra í heild. Í þessari mjög merku ræðu sem Delors flutti lagði hann sérstaka áherslu á að slíkur viðskiptasamningur, fríverslunarsamningur, yrði byggður á því að stoðirnar yrðu tvær og jafnréttháar. Ég legg áherslu á það. Þetta var það sem við í fyrri ríkisstjórn höfðum til hliðsjónar þegar við ræddum um málið og fórum vandlega yfir ræðu Delors. Niðurstaðan varð sú að við ákváðum að leggja til að Íslendingar tækju þátt í þessum viðræðum enda yrði um viðskiptasamning að ræða með tveimur jafnréttháum aðilum.
    Þess vegna varð það úr að ég fór á leiðtogafund EFTA í Ósló í mars 1989 og hélt þar ræðu, sem var flutt með fullu samþykki ríkisstjórnarinnar, og setti þar fram lýsingu á stöðu Íslands og sérstöðu Íslands að mörgu leyti. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa niðurstöðuna. Ég er því miður ekki með hana nema á ensku sem hún var flutt á en þetta verður þá í lauslegri þýðingu minni. Hér segir:
    ,,Með tilvísun til þessarar lauslegu lýsingar á stöðu mála á Íslandi treysti ég því að þið skiljið að full aðild að Evrópubandalaginu kemur ekki til greina fyrir okkur. Við getum aldrei gengið undir vald yfirþjóðlegrar stofnunar. Við getum aldrei gefið eftir fullveldi okkar eða réttindi til þess að taka eigin ákvarðanir til að varðveita lífsviðurværi okkar og sjálfstæði. Við hljótum ætíð sjálfir að stjórna nýtingu náttúruauðlinda landsins sem er grundvöllur að tilveru okkar. Við teljum ekki að fjarlægt vald geti nokkru sinni stjórnað nýtingu þessara viðkvæmu auðlinda á þann veg að hagsmuna okkar sé gætt. Slík grundvallaratriði munu ráða ákvörðun okkar um náið samstarf við Evrópubandalagið eða innan EES.``
    Það má segja að þetta dragi saman þau skilyrði sem við settum og ég fann afar mikinn skilning, t.d. hjá forsætisráðherrum hinna EFTA-ríkjanna á þessum skilyrðum. Reyndar má geta þess að sérstaklega forseti landsstjórnar Sviss var með ýmis skilyrði sem sum hver gengu í svipaða átt og önnur sem náttúrlega helguðust af því að þar eru aðstæður töluvert aðrar.
    Nú hefur töluvert verið um það rætt hvernig þessum skilyrðum eða fyrirvörum eins og þeir hafa verið kallaðir hefur verið fullnægt. Um það var að sjálfsögðu afar mikið rætt í síðustu ríkisstjórn. Í allri meðferð málsins af hálfu hæstv. utanrrh. og aðalsamningamanns var þess mjög gætt að útfæra þessi skilyrði sem best. Ég vil aðeins taka það fram í sambandi við meðferð málsins í síðustu ríkisstjórn að ég tel hana töluvert aðra en hún er nú. Í síðustu ríkisstjórn t.d. starfaði ráðherranefnd sem í sátu þáv. fjmrh., utanrrh. og ég. Við hittumst æðioft til að fjalla um allan framgang málsins. Auk þess áttum við utanrrh. mjög náið samstarf um málið og eins og oft hefur komið fram má segja að það hafi ekki komist hnífur á milli okkar og hef ég ekkert undan því samstarfi að kvarta. Loks hélt ríkisstjórnin sjálf iðulega langa fundi þar sem farið var yfir alla þætti þessa máls.
    Í fáum orðum sagt var fyrirvörunum og ýmsum skilyrðum Íslendinga haldið til streitu eins og frekast var unnt, t.d. í pappír sem lagður var fyrir ríkisstjórn 20. nóv. 1990, þ.e. æðiseint á ferli þeirrar ríkisstjórnar, rétt undir lokin. Þá er tollfrelsi enn þá sett sem ófrávíkjanlegt skilyrði, tollfrelsi fyrir allar íslenskar sjávarafurðir á allt EES-svæðið. Þetta hefur ekki náðst. Hæstv. utanrrh. heldur því fram að þetta hefur náðst að langmestum hluta eða 96% innfluttra sjávarafurða. Ég skal ekkert um það segja en það vekur engu að síður athygli að æðimargt er undanskilið. Í mjög nýlegri skýrslu um þessi mál kemur t.d. fram að ýmsar fisktegundir njóta ekki tollfrelsis eins og gert var ráð fyrir og kemur fram í þeirri kröfu sem ég las áðan. Það eru fyrst og fremst þessar algengu fisktegundir eins og þorskur, ýsa og ufsi sem njóta algjörs tollfrelsis. Hins vegar er síðan tekið fram að aðrar sjávarafurðir lækka aðeins í tolli smám saman. Það vekur líka athygli t.d. að söltuð síld nýtur ekki tollfrelsis, ekki humar svo eitthvað sé nefnt. Reyndar má segja að í þessum flokki, Annað, séu ýmsar fisktegundir sem eru síður nýttar hér en menn leggja áherslu á nú eins og t.d. langa og flatfiskur sem er fluttur úr í töluverðum mæli til Evrópubandalagsins, ekki síst

Hollands. Af honum verður að greiða toll og síðan er hann unninn áfram þar. Það vekur líka athygli að t.d. þurrkaður saltfiskur sem talið var framan af að væri í þessum flokki er ekki lengur með af einhverjum ástæðum. Ég hygg að fyrir bragðið sé afar líklegt að sú grein falli algerlega út hér á landi. Staðreyndin er sú að SÍF hefur keypt þurrkstöð í Frakklandi, kannski vitandi að svona færi og það er því hentugra fyrir SÍF að flytja blautan fisk út til Frakklands og þurrka hann þar og njóta um leið styrkja hjá Evrópubandalaginu sem veittir eru þar til fiskvinnslu. Þetta skilyrði hefur sem sagt ekki náðst fram og það er ekki fyrr en þessi ríkisstjórn tekur við að upplýst er að það fæst ekki tollfrelsi fyrir allar íslenskar sjávarafurðir á allt EES-svæðið.
    Hér segir líka, sem var skilyrði af okkar hálfu, að engar veiðiheimildir fyrir ríki EB við Ísland komi til greina sem greiðsla fyrir tollfríðindi. Nú veit ég að hæstv. ríkisstjórn heldur því fram að sá samningur sem hefur verið gerður og er til meðferðar á Alþingi um veiðar sé gagnkvæmur, þ.e. að í staðinn fyrir 3.000 tonn af karfa fáum við að veiða 30.000 tonn af loðnu. Ég lít ekki á þetta sem gagnkvæman samning. Við fáum enga heimild til að veiða innan fiskveiðilögsögu EB. Það er verið að vísa okkur á mjög óörugga veiði. Það er verið að vísa okkur á loðnu sem Evrópubandalagið hefur nú rétt til að veiða á Grænlandsmiðum. Við höfum ekki einu sinni leyfi til þess að versla með þessa heimild til að veiða loðnu að því mér skilst. ( Gripið fram í: Við höfum ekki veitt hana í sex ár.) Fyrir utan það. Ef við gætum verslað t.d. við Norðmenn og einhverjar aðrar þjóðir um að þeir veiði þessa loðnu og við veiðum annað, en þetta er alls ekki gagnkvæmt og reyndar liggur ljóst fyrir að við erum neyddir til að gera þennan samning. Við erum neyddir til þess að hleypa erlendum fiskiskipum aftur inn í íslenska fiskveiðilögsögu af því að öðrum kosti verður ekki undir þennan samning skrifað. Það hefur hæstv. utanrrh. upplýst. Svo þetta er ekki frjáls samningur og gagnkvæmur eins og ég hef rakið.
    Við settum líka skilyrði um fólksflutninga. Í þessari skýrslu frá aðalsamningamanni og utanrrn. frá 27. nóv. 1990 segir:
    ,,Íslendingar hafa sagst vera reiðubúnir til að fallast á allar samþykktir EB um atvinnu- og búsetufrelsi að því tilskildu að þeir fái öryggisákvæði í EES-samningi svipað því sem er í samningi um norrænan vinnumarkað.``
    Í samningnum um norrænan vinnumarkað getum við stöðvað þessa fólksflutninga að eigin vild. Við þurfum ekki annað en komast að þeirri niðurstöðu að óeðlilega mikill fjöldi Norðurlandabúa sé kominn til vinnu hér á landi og raski þess vegna jafnvægi á vinnumarkaðnum og þá getum við stöðvað þá. Hæstv. utanrrh. hefur sagt að komin sé öryggisgrein inn í samninginn sem heimili okkur að stöðva slíka fólksflutninga þegar þeir valdi röskun. En þarna er um allt öðruvísi grein að ræða. Við þurfum náttúrlega fyrst og fremst að tilkynna þetta og við eigum á hættu að gripið verði til gagnráðstafana og jafnvel að málið fari fyrir gerðardóm. Hér er vitanlega mjög undan slegið og allt annað en við lögðum áherslu á.
    Við settum sem skilyrði að það yrðu engar fjárfestingar í vatnsorku og jarðhitarétti og það er mjög greinilega tekið fram í þessari skýrslu frá utanrrn. Þar segir jafnframt, með leyfi forseta:
    ,,Virkjunarréttindi sem slík eru þegar í höndum hins opinbera ef um verulegar framkvæmdir er að ræða.`` --- Þetta á að vísu bara við um vatnsorkuna. --- ,,Ekki þarf að setja fyrirvara um það mál enda er gildandi tilhögun ekki í ósamræmi við reglur EB.``
    Síðan segir: ,,Kaup á eignarrétti á orkulindum er að óbreyttri löggjöf möguleg í vissum mæli. Með nokkrum breytingum á íslenskri löggjöf er auðvelt að tryggja íslenska hagsmuni án þess að það brjóti gegn þeirri grundvallarreglu að ekki sé mismunað eftir þjóðerni.``
    Þetta töldum við í síðustu ríkisstjórn að væri í höfn. Eins og allir vita eru lög um vatnsvirkjanir þannig að það þarf samþykki Alþingis til að virkja megi og það samþykki hefur verið bundið við ríki og sveitarfélög. Nú hefur hæstv. ríkisstjórn boðað í sinni hvítu bók að hún ætli að einkavæða orkufyrirtækin. Ég hef reyndar haft tækifæri til að ræða þetta mál við forsrh. og utanrrh. á fundum og hef spurt um það hvað eftir annað hvort ekki sé ástæða til að hverfa frá þessari áætlun með tilliti til þess að ef hlutabréf í slíku fyrirtæki verða seld eiga Evrópubúar jafnan rétt og Íslendingar til að kaupa þau. Ég hef vakið athygli á því að jafnvel þótt sett væri í lög að ekki mætti selja hlutabréf ríkisins nema með samþykki Alþingis er ekki unnt að setja það í lög um hlutabréf Reykjavíkurborgar og Akureyrar. Þessum aðilum væri þá að sjálfsögðu frjálst að setja sín bréf á frjálsan markað. Þetta hefur líka breyst frá því að núv. ríkisstjórn komst að. Núv. ráðherrar, m.a. núv. hæstv. iðnrh., sem geispar nú, hafa ekki sýnt að því er mér finnst neinn áhuga á því að halda þessu í ríkiseign. Hann var því þó mjög samþykkur í fyrri ríkisstjórn og hefur boðað hér frv. um að koma jarðhitanum í svipað form. Nú hefur hann samþykkt í hvítri bók að hann ætli að einkavæða þetta allt saman og þá er vitanlega öllum orðið frjálst að kaupa.
    Enn eitt atriði sem við stóðum mjög fastir á er fjárfesting í landareign í ágóðaskyni. Það var upplýst á þessum blöðum sem ég er með hérna fyrir framan mig að erfitt væri að fá fyrirvara sem algildur yrði. Hins vegar segir, með leyfi forseta:
    ,,Setja má í lög forkaupsrétt ríkisins ef fátækt sveitarfélag treystir sér ekki til að nýta forkaupsrétt. Tengja má heimild til kaupa við nýtingu og enn fremur ef kaupandi eða kaupendur, ef um fleiri er að ræða, hafi búið á landinu, t.d. í fimm ár og hyggi á áframhaldandi búsetu. Hugmynd að viðauka við 6. gr. jarðalaga til að tryggja íslenska hagsmuni er eftirfarandi:`` --- Þetta er sem sagt tillaga frá utanrrn. --- ,,Framan við texta 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976 bætist eftirfarandi: Jörð mega þeir einstaklingar eignast sem eru

ríkisborgarar einhvers þeirra ríkja sem mynda Evrópska efnahagssvæðið, átt hafa lögheimili hér á landi í a.m.k. fimm ár og hyggja á áframhaldandi búsetu. Sé um fleiri en einn einstakling að ræða skulu þeir báðir eða allir uppfylla skilyrði um lögheimili. Félög án persónulegrar ábyrgðar hvers félagsmanns á heildarskuldbindingu félagsins mega ekki eiga jarðir.``
    Síðan segir: ,,Sé þetta gert sýnist fyrirvari óþarfur.`` Þetta töldum við í fyrri ríkisstjórn að mundi tryggja málið. Nú höfum við að vísu fengið að sjá frv. sem á að tryggja þetta mál og gerir það en það gengur hins vegar miklu lengra og mun verðfella allar jarðir hér. Með því frv. eru bændur látnir greiða mikið fyrir aðild okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Það má heita að ef það frv. verður að lögum eins og það er verði nánast ógerningur að selja hér jarðir. Við töldum að ákvæði, eins og ég las áðan, mundi duga og fróðlegt væri að vita hvort utanrrh. væri ekki enn þeirrar skoðunar.
    Þannig er farið um fyrirvarana. Þeir eru æðimargir í lausu lofti. Reyndar er einn sem ég á enn eftir að nefna og ég taldi fram á síðustu stundu að væri í höfn og fullkomnu lagi. Það er fyrirvari um að erlendir aðilar megi ekki fjárfesta í sjávarútvegi eða frumvinnslu fiskafurða. Þetta var tryggt með lögum sem fyrri ríkisstjórn lagði fram og ég mælti fyrir í lok þess stjórnarferils og var hér samþykkt. Nú er fylgiskjal 4 með þessum samningi sem um þetta fjallar. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í þriðja lagi er Íslendingum heimilt þrátt fyrir 40. gr. samningsins og hinna almennu ákvæða viðaukans að beita áfram þeim höftum, sem í gildi eru við undirritun samningsins um eignarrétt erlendra aðila og/eða eignarrétt aðila sem ekki eru búsettir á Íslandi á sviði fiskveiða og fiskvinnslu.``
    Síðan segir: ,,Þessi höft skulu ekki koma í veg fyrir fjárfestingar erlendra aðila eða ríkisborgara sem eru ekki með lögheimili á Íslandi í félögum sem taka aðeins á óbeinan hátt þátt í fiskveiðum eða fiskvinnslu. Þó hafa innlend yfirvöld rétt til að skuldbinda fyrirtæki sem hafa að hluta eða öllu leyti verið keypt af erlendum aðilum eða ríkisborgurum sem ekki er með lögheimili á Íslandi til að losa sig við fjárfestingar í starfsemi á sviði fiskvinnslu eða fiskiskipum.``
    Í lögunum er þetta allt öðruvísi orðað. Í lögunum er beinlínis lagt bann við því að erlendir aðilar megi eiga hlut í íslenskum fyrirtækjum sem aftur eiga hlut í útgerðarfélögum eða fyrirtækjum sem vinna að frumvinnslu fiskafurða. Hér er beinlínis tekið fram að þetta ákvæði standist ekki og megi ekki standa, það megi koma í veg fyrir slíka fjárfestingu. Það er hins vegar lagt í vald ráðherra hverju sinni hvort hann krefst þess að slíkir aðilar losi sig við hlut í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Ég held að allir hljóti að sjá að hér er allt öðruvísi um hnútana búið. Reyndar er þegar komið fram frv. á Alþingi sem breytir gildandi lögum um fjárfestingu erlendra aðila. Það er athyglisvert að í því frv. segir jafnframt að erlendum aðilum skuli heimilt að aðlögunartíma loknum að fjárfesta í fyrirtækjum í vinnslu á okkar orkulindum, vatnsafli og jarðhita. Ég veit ekki hvort það er í tengslum við þá ætlun ríkisstjórnarinnar að einkavæða orkufyrirtækin og gefa þetta frjálst. Það er auðvitað algjörlega nauðsynlegt að fá svör við því í umræðunni.
    Í sama frv. er endurtekið það sem ég las áðan, þ.e. samkvæmt því verður erlendum aðilum heimilt að eignast hér olíufélögin sem eiga stóra hluti í íslenskri fiskvinnslu og geta þannig komist bakdyramegin yfir íslenskan sjávarútveg. Þar er hins vegar sagt að ráðherra geti skyldað þessi félög til að losa sig við hlut sinn í íslenskum sjávarútvegi. En gerir hann? Það það er stóra spurningin.
    Það er fleira sem við lögðum mikla áherslu á í fyrri ríkisstjórn. Við töldum í upphafi samningsins alveg ljóst að landbúnaðarafurðir yrðu ekki með. Það var aldrei talað um það. Þegar þær koma inn, að sumu leyti fyrir ósk EFTA-ríkjanna eða a.m.k. með þeirra samþykki, tók hæstv. utanrrh. þá ákvörðun að taka ekki þátt í umræðum. Hann sagði m.a. í skýrslu frá aðalsamningamanni, að sjálfsögðu með samþykki hæstv. ráðherra, um stöðu mála 25. sept. 1991. Þar segir hann: ,,Af hálfu Íslands er því lýst yfir að samningsviðræður Íslands og EB um þetta, þ.e. unnar landbúnaðarafurðir, væru í raun ekki hafnar og teldi Ísland sig því alls óbundið af lista þeim en EB lýsti vonbrigðum sínum með þessa afstöðu.``
    Þetta var líka sú afstaða sem hæstv. ráðherra hafði í fyrri ríkisstjórn. Hann sagði: Við eigum enga aðild að þessum samningum um landbúnaðarafurðirnar, við erum algerlega óbundnir af þeim. Við getum hafnað þessu hvenær sem okkur sýnist, jafnvel á síðustu stundu. Hann gaf það greinilega til kynna að hann tæki ekki við slíkum skipunum frá öðrum aðilum.
    En hvað hefur orðið? Ég veit ekki betur en hæstv. utanrrh. hafi tekið við öllu því sem aðrir voru búnir að semja um. Ég veit ekki betur en hæstv. utanrrh. eða fulltrúar hans hafi meira að segja ekki staðið með Norðmönnum í því sem þeir voru að reyna að færa til betri vegar í þessum samningum. Hæstv. utanrrh. hefur tekið við því sem einna erfiðast verður íslenskum landbúnaði sem þessu er háður og ekki gert nokkra athugasemd við það. Þetta er líka enn ein mjög mikilvæg breyting frá því sem þessi samningur horfði í tíð fyrri ríkisstjórnar.
    Það er fróðlegt að fara yfir fleiri atriði þessu skyld, t.d. var það ætíð skilyrði allt frá upphafi að EFTA-stoðin fengi fulla aðild að allri ákvarðanatöku þegar um nýjar ákvarðanir yrði að ræða í framtíðinni. Í skýrslu frá 23. okt. 1990 sem ríkisstjórnin fyrri fékk er skýrt frá því sem utanrrh. hafði sagt á óformlegum fundi EFTA-ríkjanna. Þar segir hæstv. utanrrh.: ,, . . .   að krefjast þyrfti raunverulegrar þátttöku í stjórnun og þróun EES.``
    Þetta gerði utanrrh. réttilega því það var stefna fyrri ríkisstjórnar að EFTA-ríkin skyldu hafa rétt til raunverulegrar þátttöku í þróun EES. Á minnisblaði til ríkisstjórnarinnar frá utanrrh. dags. 23. nóv. 1990 segir enn um ákvarðanamótun og ákvarðanatöku að það sé krafa að taka fullan þátt í sérfræðingafundum

sem framkvæmdastjórnin óskar eftir að verði haldnir og að sérfræðingar allra EFTA-ríkjanna tali hver fyrir sig eins og sérfræðingar aðildarríkjanna. ,,Þegar formleg tillaga hefur verið lögð fyrir ráðið verði óformleg þátttaka EFTA í frekari meðferð hennar með reglulegum óformlegum fundum þar sem bandalagið ráðfærir sig við EFTA og upplýsir um framgang málsins.``
    Það er lagt til að þannig verði málin undirbúin og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins lýsi að lokum þeirri niðurstöðu sem búið er að ná með slíku nánu samráði við EFTA-ríkin. Ég held að öllum sé ljóst að þetta hefur alls ekki náðst. Ég leyfi mér enn þá að vísa til mjög fróðlegrar skýrslu frá aðalsamningamanni EB, Van der Pas. Þar lýsir hann þessu á þann máta að aðhlátursefni sé. Hann segir utanríkismálanefnd eða tilsvarandi nefnd í Evrópuþinginu að þetta ákvæði um ráðgjöf sé eingöngu til þess að friða blessuð EFTA-ríkin. Hann leggur mikla áherslu á það sem allt var lesið upp á hinu háa Alþingi í fyrra vetur eða í vor og að þetta sé eingöngu sýndarmennska sem hér er um að ræða. Þar kemur greinilega fram að sérfræðingarnir mega koma til fundar, þeir mega láta í ljós skoðun sína en hafa ekkert ákvörðunarvald um niðurstöðu, hvorki sérfræðinefndar eða þeirra annarra nefnda sem til eru kvaddar. Mig grunar að þetta álit aðalsamningamanns EB sé töluvert nær sannleikanum en hæstv. utanrrh. hefur viljað láta að liggja. Ég sé að hæstv. utanrrh. er farinn úr salnum, ég vildi gjarnan að hann sæi sér fært að vera hér en kannski hefur hann ekki líkamlegan styrk í það. ( Gripið fram í: Það er blaðamannafundur.) Er blaðamannafundur? Það má vera. En sem svar við spurningu ( ÓÞÞ: Getur forseti upplýst hvort sé rétt í þessu, líkamlegi styrkurinn eða blaðamannafundur?) Ef hæstv. utanrrh. þarf að jafna sig þá get ég vel beðið einhvern tíma, ég hef fullan styrk til að standa hér nokkuð lengi ef í það fer.
    Ég ætla að spyrja hæstv. utanrrh. um dálítið sem svar við spurningu. Ég held hún hafi komið frá hv. þm. Kristínu Einarsdóttur um þær nýjar gerðir EB frá því að samningurinn var undirritaður í fyrra. Við fengum skjal í hendur með lista yfir slíkar gerðir á u.þ.b. einu ári. Samkvæmt talningu minni voru þær gerðir, sem venjulega eru kallaðar tilskipanir, 193 á einu ári og síðan höfum við fengið í hendurnar samanburð á íslenskri löggjöf og samþykktum Evrópubandalagsins. Þar eru þessar gerðir eitthvað færri. En hér eru taldar upp rúmlega 170 tilvísanir sem talið er nauðsynlegt að verði annaðhvort teknar upp í íslensk lög eða séu þess eðlis að þær séu þegar í samræmi við íslensk lög. Mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh.: Hafa þessar gerðir verið ákveðnar í fullu samráði við EFTA? Hafa t.d. sérfræðingar EFTA-ríkjanna verið kvaddir inn og hefur það farið í gegnum þá meðferð sem hæstv. utanrrh. gerði svo ákveðnar kröfur um á fyrri stigum þessarar samningsgerðar, þ.e. fullt samráð allt upp til þess að framkvæmdastjórnin gefur út tilskipunina? Ég ætla að ræða nánar um einhver atriði þessi síðar, en þetta er spurning sem ég vildi gjarnan fá að vita svarið við.
    Síðan er eitt atriði sem ég verð að viðurkenna að veldur mér áhyggjum í vaxandi mæli. Það var mjög skýrt tekið fram þegar til þessara viðræðna var gengið að við gengjum ekki inn fyrir neina tollmúra eða tæknilegar viðskiptahindranir Evrópubandalagsins. Við værum algjörlega frjálsir gagnvart löndum sem eru utan EES. Mér sýnist hins vegar á því sem þegar kemur fram í Alþingi að framkvæmdin verði ekki þessi því að hæstv. ríkisstjórn hefur þegar lagt fram frv. um breytingu á tollalögum þar sem gert er ráð fyrir að fella niður fjáröflunartolla á vörum frá Evrópubandalaginu en hækka hins vegar tolla á ýmsum vörum frá öðrum mikilvægum viðskiptalöndum okkar, Bandaríkjunum og Japan. Þá erum við náttúrlega farnir að framkvæma vissa tollvernd gagnvart vörum frá Evrópubandalaginu.
    Það vekur líka nokkra undrun mína, það sem ég finn bara í þessari bók og er eflaust miklu víðar að finna, að hér er langur listi yfir tæknilegar viðskiptahindranir og beinlínis nefndar tæknilegar viðskiptahindranir í þessari bók. Hvað eru tæknilegar viðskiptahindranir? Eru það nema tollmúrar? Eru tæknilegar viðskiptahindranir annað? Ég hlýt að lýsa því að það vekur undrun mína ef við verðum skyldaðir til þess að taka upp hér tæknilegar viðskiptahindranir og ég ætla bara að nefna eina sem dæmi. Ég gæti flutt mjög langa ræðu og farið yfir þessa bók, hún er hátt á annað hundrað síður. Hér er tæknileg viðskiptahindrun um vélknúin ökutæki og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar frá 10. des. 1991 sem aðlagar að tækniframförum tilskipun ráðsins, nr. 76/756/EBE um ljósabúnað og stillingu á ljósum vélknúinna ökutækja og eftirvagna fyrir þau.``
    Síðan er þetta skýrt og þær breytingar tilgreindar sem þarf að gera og þessu munu fylgja. Hér á landi eru samt leyfð aðalljós frá Bandaríkjunum og reglur um stillingu á ljósgeisla þeirra eru örlítið frábrugðnar þeirri reglu sem hér er verið að taka upp. Einnig eru t.d. leyfð hvít stefnuljós að framan á ökutækjum frá Norður-Ameríku en EB krefst þess að þau séu gul, með takmarkaðra sviði þó en EB stefnuljós, rauð stefnuljós að aftan en EB er með gul að aftan. Rauðgul stefnuljós og breiddarljós að framan en EB með hvít og rautt hliðarljós, EB er með gul.
    Ég skil satt að segja ekki hvað okkur kemur við hvers konar stefnuljós hæstv. utanrrh. EB kýs að hafa í Brussel. Af hverju megum við ekki hafa rauð hliðarljós ef Bandaríkjamenn kjósa að hafa það á sínum bílum og við höfum komist vel af með það hingað til? Ég verð að viðurkenna að þetta gengur langtum lengra en það sem ég hafði skilið með jafnrétti einstaklinga og fyrirtækja á öllu EES-svæðinu. Þetta er ekki jafnrétti einstaklinga og fyrirtækja. Við höfum engan rétt. Þetta er aðeins eitt dæmi um tilskipanir EB en þær eru um 9.000 síður og okkur er talið skylt að breyta reglum okkar til þess að fullnægja því sem Brussel er að taka upp, eflaust til að hindra, eða gera a.m.k. ekki auðveldari innflutning á bifreiðum frá Bandaríkjunum. Ætlum við virkilega að fylgja þessu? Ég vil gjarnan fá svar við þeirri spurningu hvort

hæstv. utanrrh. detti í hug að fylgja þessari vitleysu að við getum ekki ákveðið sjálfir hvers konar stefnuljós við viljum hafa á bifreiðum okkar. Vel má vera að Bandaríkjamenn sjái sig knúna til þess að breyta eða kannski taka þeir upp aðra viðskiptahindrun og banna stefnuljósin eins og þau eru. Ætlum við að taka þátt í svoleiðis endaleysu?
    Hæstv. utanrrh. hefur allra manna best lýst á hinu háa Alþingi hvers konar þríhöfða þurs þetta er, eða hvað hann kallaði það í Brussel, og hann hefur lýst því á hinu háa Alþingi að ekki væru til í heiminum meiri verndunarsamtök en í Brussel og farið um það hinum hörðustu orðum. Satt að segja þótti mér fyrst þegar ég heyrði hann fara með slíka lýsingu á þessum mönnum í Brussel, sem við vorum að semja við, hann taka ansi djúpt í árinni en ég sé það núna að þetta hefur verið alveg hárrétt hjá hæstv. utanrrh. Ég nefni aðeins eitt dæmi, ég ætla ekki að fara í gengum allt hitt: Dettur hæstv. utanrrh. í hug að við förum að lögleiða hér svona tilskipun?
    Loks er eitt sem vekur mjög til umhugsunar í þessu sambandi öllu, það er þetta bákn sem er að verða í Brussel. Eitt sinn minnist ég þess, líklega þegar hv. formaður utanrmn. var einn af aðalmönnunum í Sambandi ungra sjálfstæðismanna að þeir skáru upp herör gegn bákninu. ,,Báknið burt`` var hróp þeirra, eða hvað á að kalla það, í kosningum fyrir nokkrum árum. Hvað með þetta bákn í Brussel? Ég er sannfærður um að aldrei hefur verið til meira bákn en báknið í Brussel. Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að við hæstv. utanrrh. héldum þegar við gengum til þessara samninga að við þyrftum ekki að ganga á vald þríhöfða þursanum eða bákninu í Brussel. En nú virðist annað uppi á teningnum, nú virðist svo sem þeir geti gefið tilskipanir jafnvel um það að ljósin eigi að vera gul en ekki rauð og þá bara hlýðum við bákninu í Brussel.
    Ekki er að ástæðulausu að einhver fróður maður sagði að þegar báknið í Kreml hrundi þá hófst til valda, og stöðugt meira, báknið í Brussel. Miðstýringin í Brussel er orðin algjörlega yfirgengileg og það eru miklu fleirum en mér blöskrar þetta og hefur komið greinilega fram hjá æðimörgum í Evrópu.
    En hvað um það, ég hef rakið mörg atriði sem eru frábrugðin því sem var í lok ársins 1991 og ég vísa hér í skjöl sem sú ríkisstjórn hafði og sem hún fékk frá utanrrh. í lok starfsferils hennar. Ég held það fari ekkert á milli mála að það hefur orðið mikil breyting á fjölmörgum atriðum þessa samnings. En þó hef ég ekki nefnt þá breytingu sem er langsamlega stærst. Þegar við gengum til þessa samnings þá gengum við til hans fullvissaðir af Delors um að hér yrði um tveggja stoða lausn að ræða. Önnur stoðin yrði EFTA og eins og ég sagði áðan ætti hún að vera jafnrétthá. Nú er komið í ljós að þessi stoð verður hverfur fljótlega. Þegar við gengum til þessara viðræðna lá fyrir að Austurríki mundi sækja um aðild og ég minnist þess frá ráðherrafundi EFTA-ríkjanna að menn voru ákaflega leiðir yfir þessari ákvörðun Austurríkis og töldu að Austurríki gæti átt góða daga innan EES og þyrfti ekki að sækja um aðild. En síðan hrundi borgin og nú er svo komið að öll ríki í EFTA, þ.e. þau sem eru eftir, hafa ákveðið að sækja um aðild nema Ísland. Kannski ekki Liechtenstein eftir hvernig fór í Sviss, ég skal ekki segja um það, en þeir höfðu áður ákveðið að sækja um aðild. Þetta gjörbreytir náttúrlega allri tilveru og framtíð EES. Ég held að allir geti verið sammála um það a.m.k. Að sjálfsögðu þegar Sviss fer núna út þá flýtir það þessu hruni. Stoðin er að hrynja.
    Auk þess var sagt að þessar tvær stoðir ættu að vera jafnréttháar og hæstv. utanrrh. hefur sagt hvað eftir annað og barið sér á brjóst og sagt: Hér hafa náðst frábærir samningar og rétturinn er jafn.
    Það er náttúrlega alls ekki rétt, rétturinn er kannski jafn á pappírnum en hver er í raun réttur smáríkisins Íslands til að hasla sér völl á afgerandi máta í Evrópu borið saman við stórveldið Þýskaland, svo ég nefni dæmi? Eða dettur mönnum í hug að aðstaða sé jöfn, t.d. fyrir Landsbankann hér að kaupa Deutsche Bank í Þýskalandi eða Deutsche Bank að kaupa Landsbankann hér. Ég veit að ég þarf ekki að biðja hæstv. utanrrh. um svar við þessu. Staðreyndin er nefnilega sú að aðstaðan er algjörlega ójöfn og þess vegna þurftum við Íslendingar að hafa miklu fleiri fyrirvara en önnur ríki, en Evrópubandalagið og eins og ég hef áður sagt, því lýsti ég skilmerkilega í ræðu þeirri sem ég flutti í Ósló í mars 1989.
    Að sjálfsögðu er ljóst að sú mikla breyting, sem ég nefndi áðan og er að verða á þessari svokölluðu stoð, kallar á skjót viðbrögð af hálfu okkar Íslendinga. Við framsóknarmenn höfum þess vegna ætíð lagt á það mjög mikla áherslu að leitað verði að því að breyta samningnum eða viðskiptahlið hans í tvíhliða samning við Evrópubandalagið.
    Nú tefst að öllum líkindum fram á mitt ár að EES verði sett á fót og ef svo fer sem hæstv. utanrrh. upplýsti á laugardaginn að viðræður við Svía og Austurríkismenn og Finna hefjist þrátt fyrir þetta strax upp úr áramótum þá kynni svo að fara að þessi ríki verði orðin aðilar að EB um svipað leyti og EES-samningurinn verður kominn í gildi eða a.m.k. fljótlega þar á eftir. Þá væri náttúrlega afar slæmt fyrir okkur Íslendinga að sitja uppi með þessar stofnanir og þróunarsjóðinn og ég veit ekki hvað og hvað. Ég held að menn hljóti að vera sammála því að það verði afar veik undirstaða undir þessa stoð jafnréttisins.
    Við höfum því lagt fram, tveir þingmenn Framsfl., ég og Halldór Ásgrímsson, till. til þál. um að þegar verði hafist handa og undirbúnar viðræður við Evrópubandalagið um að breyta viðskiptahlið fyrst og fremst þessa samnings í tvíhliða samning Íslands og Evrópubandalagsins. Við teljum þetta afar mikilvægt og við teljum nauðsynlegt að Alþingi marki þessa stefnu og taki þessa ákvörðun. Við leggjum á það mikla áherslu að þessi tillaga fáist afgreidd fljótt á Alþingi.
    Ég held að afgreiðsla þessarar tillögu og þar með stefnumörkun Alþingis muni eyða miklum misskilningi og ekki ástæðulausum ótta margra að sumir hugsi sér að hoppa í hraðlestina inn í EB og gerast þar aðilar.
    Ég ætla þá að láta lokið þessum þætti um það sem hefur breyst á samningsferlinu. Ég held að öllum hljóti að vera ljóst að það er æðimargt og reyndar gæti ég haldið áfram að telja upp fleiri atriði.
    Ég sagði að ég ætlaði síðan að ræða efnislega um málið og reyna að meta eins og ég get hvaða kosti og hvaða erfiðleika slíkt hefur í för með sér. Þá virðist eðlilegt að skoða málið út frá fjórfrelsinu í vöruviðskiptum, frelsi til fjármagnsflutninga og fjárfestinga, frelsi til þjónustuviðskipta og frelsi til fólksflutninga. Auk þess eru jaðarverkefni sem nauðsynlegt er að minnast á.
    Ég vil segja það í stuttu máli að ég tel að yfirleitt sé því meira frelsi til viðskipta hagkvæmt fyrir okkur Íslendinga. Við erum afar háðir erlendum viðskiptum, rúmlega 40% af okkar þjóðarframleiðslu má rekja til erlendra viðskipta. Því tel ég að það frelsi sé hagkvæmt, en það verður vitanlega að vera algjörlega gagnkvæmt og við þá að njóta fulls frelsis fyrir meginútflutningsvöru okkar, sjávarafurðir.
    Við fáum ekki fullt frelsi fyrir sjávarafurðir okkar, engu að síður fáum við frelsi fyrir stóran hluta þeirra og ég tel að tollfrelsi fyrir saltfisk sé afar mikilvægt þótt mér þyki slæmt að það skuli ekki einnig ná til þurrkaðs saltfisks. Ég tel einnig afar mikilvægt að fá fellda niður tolla af ferskum flökum en ég er sannfærður um að framleiðsla þeirra muni aukast við þessa niðurfellingu. Þjóðhagsstofnun hefur áætlað að þetta frelsi eða lækkun tolla þýði u.þ.b. 1,5--2 milljarða í lækkun á tollum á íslenskum sjávarafurðum og það er sannarlega ekki lítil upphæð. Hins vegar finnst mér vera afar mikil spurning hvort það kemur allt til okkar Íslendinga eða íslenskra framleiðenda. Mér þótti fróðlegt reyndar að sjá í fréttabréfi frá Sambandi íslenskra fiskframleiðenda, frá SÍF, núna í haust, þar sem þeir leggja á það áherslu við félaga sína að alls ekki sé óhætt að reikna með því að þetta komi allt til framleiðenda, alls ekki. Þeir segja meira segja að reynslan hafi sýnt það þegar tollalækkun verður á ýmsum innflutningsvörum okkar Íslendinga. Þá teljum við að við sem neytendur eigum að njóta þeirrar tollalækkunar og gefa til kynna með ákveðnum orðum að það megi búast við því að kaupendur á íslenskum saltfiski, í þessu tilfelli í Evrópu, muni vilja fá a.m.k. stóran hlut af þessari lækkun. Þetta tel ég út af fyrir sig mjög raunhæft mat og tel að þetta mat, 1,5--3 milljarðar, sé æðimikið byggt á bjartsýni ef eins og sumir telja að þetta komi allt til okkar. Engu að síður tel ég að tollalækkunin muni auðvelda aðgang fyrir sjávarafurðir okkar að þessum mikilvæga markaði og kannski er það mikilvægasta að með þessari tollalækkun njótum við sama réttar og Norðmenn. Við höfðum meiri rétt en Norðmenn áður með bókun 6 en ef Norðmenn gerast aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði sem virðist nú nokkuð ljóst en við ekki þá mundum við búa þar við lakari kjör og ég er sannfærður um að íslenskir fiskútflytjendur munu illa una því.
    Hins vegar er nú nauðsynlegt að vekja athygli á því að þó að útflutningur okkar á sjávarafurðum fari langsamlega mestur til Evrópu þá hefur það alls ekki alltaf verið svo. Það er alls ekki langt síðan hann var meiri t.d. til Bandaríkjanna. Og staðreyndin er sú að nú auka íslenskir framleiðendur sjávarafurða mjög framleiðslu sína á Bandaríkjamarkað einfaldlega af þeirri ástæðu að Bandaríkjamarkaður er í dag betri. Verðið hefur hækkað, dollarinn hefur styrkst og hann er því betri þannig að það er ekki unnt að meta þetta algerlega frá núverandi stöðu í útflutningsmálum okkar Íslendinga.
    Í öðrum atvinnugreinum, t.d. í iðnaði, verður engin breyting því að með samningi okkar frá 1973, sem tók gildi 1976, njótum við algerra tollfríðinda í iðnaði. Í umsögn frá Félagi ísl. iðnrekenda og öðrum iðnaði kemur fram að þeir mæla með samningnum engu að síður vegna þess, og það er athyglisvert, að þeir telja að með samningnum neyðist íslensk stjórnvöld til að standa við ýmislegt af því sem áður hafi verið lofað, t.d. 1973, en hafa ekki síðan efnt og verður til þess að skapa hér hliðstæð kjör getum við sagt með tilliti til skatta og fleira, t.d. að fella niður aðstöðugjaldið o.s.frv. Reyndar heyrði ég það hjá talsmanni Félags ísl. iðnrekenda í útvarpi núna --- ég man ekki hvort það var í gærmorgun eða fyrradag --- að það væri skammgóður vermir því að í staðinn ætti að hækka vörugjaldið svo að álagið á iðnaðinn yrði ósköp svipað og það hefur verið. En þetta voru meginrök hjá fulltrúum iðnekenda á fundi hjá utanrmn., líka þau að þeir teldu að þá fengju þeir aðgang að fjármagni á lægri vöxtum og svo sannarleg tek ég undir það að töluvert væri til þess vinnandi.
    Í landbúnaði er alls ekki hægt að segja að við séum að fara einhverja óskabraut. Í landbúnaði, eins og ég rakti áðan, hefur hæstv. utanrrh., þrátt fyrir yfirlýsingar í fyrri ríkisstjórn, sagt að hann væri óháður því samningabrölti sem átti sér stað á milli sumra EFTA-ríkjanna og EB um landbúnaðinn. Nú hefur hann að því er virðist hlaupið inn á það allt saman og er alveg ljóst að það mun valda mjög miklum erfiðleikum í vissum greinum landbúnaðar hér eins og í gróðurhúsarækt svo eitthvað sé nefnt.
    Engu að síður er það mín persónulega skoðun vegna mikilvægis okkar útflutnings o.s.frv. að þessi þáttur frelsisins, þ.e. viðskiptafrelsis, sé hagkvæmur fyrir okkur Íslendinga og ég er þeirrar skoðunar að við eigum að stuðla að sem víðtækustu viðskiptafrelsi á sem flestum sviðum.
    Þá kem ég að öðru frelsinu sem er frelsi til fjármagnsflutninga og ég tek þá um leið frelsi til að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum. Frelsið til fjármagnsflutninga var reyndar ákveðið af fyrri ríkisstjórn. Hæstv. viðskrh. náði því fram með töluverðu harðfylgi, mig minnir að það hafi verið 1990, að frá og með 1. jan. 1993 ríki mjög mikið frelsi til flutnings fjármagns til og frá landinu. Ég féllst á það þá og taldi það skref í rétta átt m.a. á þeim grundvelli að þá sáum við fram á verulegan bata íslenskra atvinnuvega og töldum sömuleiðis að peningakerfið væri að verða heilbrigðara. Eins og tölur sýna lækkaði sjávarútvegurinn skuldir sínar á árinu 1990. Þá hækkaði eiginfjárstaða sjávarútvegsins mjög mikið, úr u.þ.b. 10% í 15%, sem er að vísu allt of lágt en er samt afar mikil hækkun, og á því ári hækkaði eiginfjárstaða iðnaðarins um svipaða tölu. Á því ári var t.d. iðnaðurinn rekinn betur og með meiri hagnaði en nokkru sinni fyrr á þessum síðasta áratug og reyndar var sjávarútvegurinn á árinu 1990 í kringum núllið enda tókst honum að bæta eiginfjárstöðu sína og lækka skuldir. Því miður hefur þetta algerlega snúist við og má það fyrst og fremst þakka eða kenna aðgerðarleysi hæstv. ríkisstjórnar sem gerði það eitt af sínum fyrstu verkum að hækka vexti og leggja stórkostlegar álögur á sjávarútveginn þannig að grundvöllur til þessara fjármagnsflutninga er allt, allt annar en hann var og það á reyndar líka við fjárfestingu í íslenskum atvinnuvegum.
    Ég er þeirrar skoðunar og hef verið það lengi að við Íslendingar verðum að ná meiru erlendu fjármagni inn í atvinnulíf okkar annað en sjávarútveg, orkuframleiðslu og landbúnað en alveg sérstaklega ýmiss konar iðnað, ekki bara orkufrekan heldur ýmiss konar smærri iðnað sem þarf að rísa. En staðreyndin er hins vegar sú að það er alveg hárrétt sem Einar Oddur sagði á morgunfundi Verslunarráðs ekki alls fyrir löngu, Einar Oddur sem um tíma var kallaður bjargvætturinn og er að því er ég best veit ákveðinn sjálfstæðismaður. Hann lýsti því þar að þessi samningur um EES, og ég hygg að hann hafi ekki síst átt við þessi ákvæði sem ég er að tala um, geti verið stórhættulegur veikburða atvinnulífi og það er hárrétt. Og ég hlýt að segja það að mér hefur brugðið þegar ég hef rætt við atvinnurekendur sem hafa lýst mjög erfiðri stöðu sinni og mjög versnandi stöðu vegna okurvaxta og mikilla skatta og álaga ríkisvaldsins að þeir eigi bókstaflega engan annan kost en að leita á náðir erlends fjármagns til að komast hjá gjaldþroti. Ég tel því að til að þetta frelsi megi verða farsælt fyrir okkur Íslendinga þá verði að snúa við blaðinu gagnvart íslensku atvinnulífi og það verði að skapa íslensku atvinnulífi starfsgrundvöll. Það verði að lækka vextina og það verði að létta af því álögum og skapa því á þann máta og ýmsan fleiri, sem ég ætla ekki að fara að ræða hér en hef áður rætt og mun ræða síðar, heilbrigðan rekstrargrundvöll. Það er kannski mikilvægasta atriðið í sambandi við þetta frelsi. Ég hlýt því að lýsa því að ég hef áhyggjur af þessu frelsi sem ég er í grundvallaratriðum þó fylgjandi en ég hef áhyggjur af þessu frelsi eins og staða atvinnulífsins er í dag. Því fylgir að mínu mati afar mikil óvissa og ekki síst þegar hæstv. ríkisstjórn hefur lýst því yfir, a.m.k. hæstv. forsrh. og utanrrh., að þessi samningur sé einhvers konar bjarghringur fyrir íslenskt atvinnulíf.
    Þriðja frelsið er frelsið til þjónustuviðskipta og það er að sumu leyti mjög athyglisvert og neytendur hafa með nokkrum rétti vakið athygli á því að það kunni að leiða til verulegrar lækkunar hér á vissum sviðum. Menn hafa t.d. bundið vonir við það að erlendir bankar setji hér upp útibú og bjóði útlán með lægri vöxtum. Og vissulega er mikil ástæða til að ætla að svo geti farið. Erlendur banki sem hingað kæmi er ekki með afskriftir af töpuðum lánum upp á fleiri milljarða. Það hefur verið áætlað að íslenskir bankar og sjóðir þurfi að afskrifa um 10 milljarða á tveimur árum. Erlendur banki getur komið hingað, boðið sömu innlánsvexti, mjög háa innlánsvexti, hefur ekki þetta tap og getur því boðið verulega lægri útlánsvexti en íslenskir bankar og getur reyndar bara ákveðið að hirða þau fyrirtæki sem eru öruggust. En ég hlýt að spyrja mig að því, eru íslenskir bankar þá núna í stöðu til að keppa við slíka erlenda banka? Ég hef stundum fengið þau svör að það sé engin hætta á því að erlendir bankar komi hingað til lands. Ég er ekki sammála því. Ég veit ekki af hverju erlendur banki ætti ekki að vilja setja hér upp útibú. Það kostar hann ekki mikið.
    Þarna kem ég því aftur að þessu sama. Mér þætti vænt um það, virðulegur forseti, ef einhver ráðherranna sem á hlut að máli sæi sér fært að vera í salnum. Ég lít svo á að þeir telji þetta afar stórt mál (Gripið fram í.) ja, ég veit það ekki. En ef þeir sjá sér ekki fært að vera í salnum þá get ég náttúrlega bara lengt mitt mál og talað um eitthvað annað á meðan þeir eru fjarverandi (Gripið fram í.), nei, ég hef ekki áhuga á því að stunda hér málalengingar og hef ekki tekið þátt í neinu slíku. En ég vona að hæstv. utanrrh. sé ekki hlaupinn á blaðamannafund til að kæra mig. En ég ætla þá heldur að óska eftir því að þeir verði kallaðir hingað inn og þeir sitji hér og ég ætla að gera smáhlé á ræðu minni og fá mér vatnssopa á meðan. Hæstv. forsrh. sást hér í dyrunum en komst ekki mikið lengra. --- Það er gott íslenska vatnið og verður eflaust mikil tekjulind þegar fram í sækir ef erlendir aðilar hafa ekki náð því undir sig sem við skulum vona að verði ekki.
    Ég minnist þess, svo ég tali um annað, þegar það munaði minnstu að núv. hæstv. landbrh. slægi til virðulegs forseta og meira að segja var það sýnt í sjónvarpi og ég minnist þess að það var út af því að menn vildu ekki hlýða og vera við í salnum. Ég man að hann gerði þá lágmarkskröfu þegar var samsteypustjórn fjögurra flokka að það væri einn frá hverjum flokki. En ég er nú ekki að gera kröfu til þess. Ég sætti mig eiginlega við það að hæstv. utanrrh. sé hér í salnum. Hann er vonandi búinn að ná sínum líkamsstyrk og getur þá setið einhverja stund í salnum. (Gripið fram í.) Já, því hefur stundum verið svarað að hæstv. ráðherrar hlusti annars staðar. Það eru furðuleg þingsköp. Samkvæmt því get ég eða hæstv. ráðherra setið heima og horft á Sýn og fullnægt þannig þingsköpum um að vera við. En ég lít ekki á það sem fullnægjandi og vil gjarnan láta það kom fram hér núna, en ég ætla nú að halda áfram ræðu minni fyrst hæstv. utanrrh. hefur séð sér fært að koma inn og taka þátt í umræðu um þetta stóra mál hans.
    Ég var kominn að því frelsi sem fjallar um þjónustu og ég lýsti vissum áhyggjum út af því að íslenskar peningastofnanir væru ekki í þeirri stöðu eins og nú er vegna mikilla erfiðleika atvinnulífsins að taka þátt í samkeppni um þjónustu á peningamarkaðnum. Ég vil bara segja að ég held að það sé afar rík ástæða til að styrkja þennan grundvöll áður en við komum inn í Evrópskt efnahagssvæði ef svo verður og

ber eflaust að fagna því að nú fær hæstv. ríkisstjórn nokkra mánuði í viðbót til að hífa upp um sig í sambandi við íslenskt atvinnulíf og taka þar rösklega til hendi. Það held ég að sé hrein forsenda fyrir því að þessi frelsi geti orðið góð fyrir okkur Íslendinga. --- Mér þykir nú vænkast hagur, hæstv. viðskrh. er líka kominn hingað inn og ég fæ að hafa hér tvo hæstv. alþýðuflokksmenn. ( Gripið fram í: En forsrh.?) Forsrh., nei ég ætla ekkert að krefjast hans komu. Hann hafði að sjálfsögðu ekki tækifæri til að fylgjast með samningnum á fyrri stigum hans, var þá borgarstjóri og upptekinn af að byggja sína Perlu og ráðhús svo að hann kemur nú seint að þessum málum.
    En hvað um það, ég var einmitt að tala um peningastofnanirnar og það hvort hæstv. ráðherra sem yfir þeim er hlustar á mál mitt. Ég var að lýsa áhyggjum mínum af því að íslenskar peningastofnanir eins og er í dag með svo veikburða íslenskt atvinnulíf á herðunum geti staðist þá samkeppni við erlendar peningastofnanir sem við hæstv. viðskrh. töldum að þær gætu á batatímabilinu 1990 þegar við féllumst á að auka frelsi í peningaviðskiptum. Ég skil út af fyrir sig mætavel að Neytendasamtökin telji að þetta frelsi geti orðið þeim hagkvæmt. Það gæti orðið til þess að fargjöld til og frá landinu lækki því að þá hafi öll flugfélög í Evrópu heimild til að fljúga hingað. Ég hlýt að taka undir það því að staðreyndin er sú að fargjöldin eru há hér en við höfum samt verið reiðubúin að greiða þau til að hafa íslenskt flugfélag og það tel ég afar mikils virði. Ég skal ekki fjölyrða mjög um þetta frelsi, en ég er því í grundvallaratriðum heldur hlynntur. Ég kem aftur að þeirri meginniðurstöðu að til þess að það geti orðið til farsældar fyrir okkur Íslendinga er afar mikilvægt að íslenskar peningastofnanir og þau fyrirtæki, sem munu taka þátt í þessari samkeppni eins og t.d. flugfélög og skipafélög, séu í stakk búin til þess að standast þá samkeppni.
    Það er eitt atriði sem mér láðist að minnast á áðan í sambandi við frjálsan innflutning sem er vert að hafa í huga. Þessi frjálsi innflutningur mun leiða til þess að innflutningur á áburði verður frjáls. Mér er tjáð að áburður geti orðið um það bil 10% ódýrari en hann er nú. Hins vegar virðist ljóst að Áburðarverksmiðjan sem hæstv. landbrh., sem hér stakk inn nefi áðan en hrökklaðist út aftur, ætlar að fara að einkavæða, --- hann mun jafnvel hafa lýst því að eftir tvö ár eða svo verði þessi áburðarverksmiðja búin því hún mundi ekki standast þessa samkeppni. Ég hygg að þetta sé nokkuð raunsætt mat hjá hæstv. ráðherra því að markaðurinn hér á landi fyrir áburð hefur dregist svo mikið saman að það er þegar á mörkum að Áburðarverksmiðjan geti starfað með svo lítinn markað. Þar munu tapa vinnu sinni yfir 100 manns. Sumum kann að þykja að að sé þess virði að fá áburðinn á eitthvað lægra verði, 10% eins og ég sagði. Ég held ekki. Ég held að það sé afar mikils virði að halda hér áburðarverksmiðju og reyndar sakna ég þess fyrst og fremst að Áburðarverksmiðjunni hefur ekki tekist að færa út kvíarnar og taka upp ýmsa aðra efnaframleiðslu þannig að því frelsi fylgja líka vissulega erfiðleikar og sárindi.
    Ég kem síðan loks að frelsi til fólksflutninga sem ég hef reyndar minnst á lítillega áður og mér þykir það afar slæmt að ekki hafa náðst fram þær kröfur sem hæstv. utanrrh. setti fram og var full samstaða um í fyrri ríkisstjórn um skilyrðislausan rétt okkar til að takmarka fólksflutninga til landsins. Ég get ekki tekið undir það með öðrum sem segja að engum Evrópubúa detti í huga að flytja til landsins og ég vek athygli á því sem hefur gerst í Evrópu sjálfri. Menn segja: Þetta eru aðallega menn utan Evrópubandalagsins sem valda núna vissum vandræðum því miður í sumum löndum Evrópu. Það er alls ekki að öllu leyti rétt. Staðreyndin er sú að það er afar mikið atvinnuleysi víða í Evrópu, það er t.d. orðið um 17% á Spáni og mér þætti alls ekkert óeðlilegt þó að þetta fólk leiti norður á bóginn og þá hingað til lands og ég er þeirrar skoðunar að okkar mjög litli vinnumarkaður þoli ekki slíkan innflutning fólks. Ég set því mínus við þetta frelsi af því að ekki náðust fram þau skilyrði sem við settum um takmörkun á fólksflutningum hingað til lands.
    Ég vil svo taka fram að ég tel að ýmis jaðarverkefni sem fylgja þessum samningi eins og samstarf á sviði rannsókna og mennta --- þótt ekki næðist það heldur að EFTA-ríkin hefðu fullan aðgang að menntastofnunum fyrir lægra skólagjald --- en ég tel samt sem áður að þeir samningar séu allir heldur jákvæðir.
    Hver verður þá meginniðurstaðan af efnislegu mati á þessum samningi? Meginniðurstaðan í mínum huga verður í raun óvissan. Þarna eru jákvæðir hlutir eins og fyrir sjávarútveginn en óvissan finnst mér vera yfirgnæfandi, óvissa sem fyrst og fremst ræðst af aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar á sviði atvinnumála innan lands, sem ræðst af því að rekstrargrundvöllur atvinnulífsins er ákaflega veikur og sem ræðst af því að veikburða atvinnulíf er í stórri hættu eins og ég hef áður nefnt hér, og vísa til mæts manns í því sambandi, er í stórri hættu í þessari opnu samkeppni sem hér er um að ræða.
    Ég vil taka það fram að væri íslenskt atvinnulíf sterkt, ef haldið hefði verið áfram á þeirri braut sem var 1990 og bæði atvinnulífið og bankarnir hefðu verið þannig í stakk búin að takast á við þessa samkeppni og ef hér á landi sæti ríkisstjórn sem teldi það hlutverk sitt að styrkja íslenskt atvinnulíf í samkeppninni, þá teldi ég að samningurinn væri efnislega jákvæður og þá mundi ég jafnvel treysta mér til að greiða atkvæði með honum ef stjórnarskráin heimilar það. --- Það þýðir ekkert, séra Gunnlaugur, að vera að messa yfir þessum blessuðum hæstv. ráðherrum, svo ég held það væri best að láta það vera. Ég hélt að presturinn hefði reynt það þegar, þetta eru báðir hans flokksmenn. (Gripið fram í.) Hann hrökklast frá. Jæja, ég ætla ekki að segja það sem mér datt í hug.
    En hvað um það. Ég gæti vitanlega nefnt fjölmargt fleira sem mér þykir slæmt. Mér þykir t.d. afar illt að skipaiðnaðurinn er ekki með í því frelsi sem er um að ræða og reyndar get ég bætt við fyrri upptalningu: Ég veit ekki betur, hæstv. utanrrh., en að við gengjum alltaf út frá því að skipaiðnaðurinn yrði með og a.m.k. veit ég að mjög ákveðnar kröfur voru settar fram um að skipaiðnaðurinn væri með. Hann er undanþeginn af því að Evrópubandalagið vill fá heimild til að halda áfram styrkveitingum sínum til hans. Reyndar veit ég að það var einnig mjög ákveðin ósk okkar að sæist fyrir enda á gífurlegum styrkjum Evrópubandalagsins til sjávarútvegs síns. Það hefur heldur ekki fengist og þar heldur áfram algjörlega óbreyttu striki. Í hreinskilni sagt er staðreyndin náttúrlega sú að samningamenn EFTA hafa náð ákaflega litlu fram af því sem við ætluðum okkur í upphafi. T.d. er eitt atriði sem er líka vert að nefna í þessu sambandi. Í upphafi var talað um það að þær reglur sem gilda fyrir Evrópubandalagið yrðu dregnar bæði frá reglum EB og reglum EFTA. Það var alltaf viðurkennt að það yrði að meginstofni reglur EB en fullyrt var hvað eftir annað, þegar ég m.a. spurði um þessi mál, að ýmsar reglur EFTA yrðu lagðar til grundvallar. Ég hef ekki fundið eina einustu. Ég hef fundið einhvers staðar að því væri frestað að setja ákveðnar reglur um umhverfismálin af því að EFTA-ríkin, sérstaklega Norðurlöndin, töldu reglur EB ekki nægilega góðar þar en það var ekki það að reglur Norðurlandanna væru teknar upp, hæstv. utanrrh. leiðréttir mig ef það er rangt, heldur var því frestað að setja ákveðnar reglur á þeim sviðum.
    Samningurinn er því um margt óskaplega gallaður og veldur miklum vonbrigðum miðað við þær væntingar sem við hæstv. utanrrh. höfðum um hann á sínum tíma.
    En hvað varðar stjórnarskrárþátt samningsins, sem ég hlýt að fjalla um, því eins og ég sagði í upphafi þá er það sá þáttur sem er að okkar mati, 1. minni hluta, afgerandi í afstöðu okkar til þessa máls. Ég hlýt að fara nokkrum orðum um þær álitsgerðir sem hafa komið fram. Ég ætla síður en svo að gera lítið úr álitsgerð nefndar þeirrar, sem gjarnan er kölluð fjórmenningar utanrrh., það eru allt virtir lögfræðingar og hinir bestu. En ég hlýt þó að harma að hæstv. utanrrh. féllst ekki á þá tillögu sem lögð var fram af nokkrum þingmönnum í Alþingi að Alþingi veldi menn til að gefa álit. Ef það hefði verið gert þá hygg ég að öllum vafa hefði verið eytt. Ég hygg að menn hefðu getað sameinast um slíka álitsgerð og þá hefði væntanlega orðið að ósk hv. þm. Pálma Jónssonar, sem eins og ég sagði í upphafi míns máls, lagði svo mikla áherslu á það að öllum vafa þyrfti að eyða þegar stjórnarskráin væri annars vegar. Þetta kaus hæstv. utanrrh. ekki að gera heldur kom á fót nefnd sem er skipuð hinum mætustu mönnum en þó mönnum sem höfðu áður komið mjög að þessum samningi og ég hygg að í hvaða rétti sem er hefðu þeir líklega sjálfir úrskurðað sig vanhæfa að taka þátt í dómi um þetta mál. Engu að síður þá vekur álitsgerð þeirra vissulega athygli og ég ætla að leyfa mér að vísa í nokkur atriði. Hér segir t.d. um 2. gr. stjórnarskrárinnar sem er sú grein sem ég þarf ekki að segja þingmönnum að mestu varðar í þessu sambandi því að þar er ríkisvaldinu skipt milli forseta Alþingis og Alþingis og framkvæmdarvaldsins og dómstólanna. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í 2. gr. stjórnarskrárinnar er talað um forseta lýðveldisins og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskránni og öðrum landslögum. Ekki er tekið fram að þetta skuli vera alíslensk stjórnvöld og hugsanlegt er að alþjóðastofnanir séu stjórnvöld eftir 2. gr. Það er með öðrum orðum til skoðunar hvort í 2. gr. stjórnarskrárinnar felist heimild til að ákveða með lögum að þættir framkvæmdarvaldsins skuli vera í höndum alþjóðastofnana. Þegar haft er í huga hve mikilvægt alþjóðasamstarf er á okkar dögum fyrir Íslendinga sem aðra er þessi hugmynd ekki fráleit.``
    Ég verð að segja að ég þurfti að lesa þetta oft og ég tel þessa hugmynd algjörlega fráleita, að láta sér detta í hug að þeir sem sömdu stjórnarskrána, gengu endanlega frá henni þegar við vorum að fá okkar fullveldi og síðan okkar sjálfstæði hafi látið sér detta í hug að það ætti að framselja vald til erlendra stofnana. Það voru ekki síst þessi ummæli fjórmenninganna sem urðu til þess að ég fór að skoða málið miklu nánar og fengum við í utanrmn. ljósrit frá Birni Guðmundssyni prófessor af riti sem Daninn prófessor Max Sørensen ritaði sem mér skilst að sé viðurkenndur sem einhver mesti stjórnlagafræðingur sem uppi hefur verið á Norðurlöndum. Þetta staðfesti m.a. Þór Vilhjálmsson á málfundi sem efnt var til um þessi mál. Þar segir prófessorinn ýmislegt athyglisvert og talar m.a. um dönsku stjórnarskrána eins og hún var áður en bætt var inn í hana grein sem heimilar framsal valds. Ég ætla að leyfa mér að lesa þetta á dönskunni, þó mín danska sé ekki allt of góð. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ganske vist kan lovgivningsmagten indenfor visse grænser overføre sin egen kompetence til andre organer, og den kan i et vist omfang forrykke kompetencefordelingen mellem domstole og administration men heraf følger ikke, at den kan overføre beføjelser til organer, der står udenfor det danske forfatningssystem. En sådan kompetenceoverførelse vil ikke kunne lade sig gøre uden grundlovsændring. I det den ville stride mod nævnte fundamentale princip at myndighed overfor borgerne udøves af danske organer.`` --- ,,Af danske organer``, segir hann.
    Ég hlýt að segja að það er ótrúlegt að hlusta á það að m.a. dómari í Hæstarétti skuli láta sér detta í hug að íslenska stjórnarskráin í því formi sem sú danska var og prófessorinn var að lýsa hér, heimili framsal valds til erlendrar stofnunar.
    Jafnframt má geta þess að öll hin Norðurlöndin sáu sig af þessari ástæðu neydd til þess að setja í stjórnarskrá sína ákvæði sem heimila takmarkað framsal valds. Það er t.d. í 93. gr. norsku stjórnarskrárinnar sem ég ætla að koma að síðar. Ég sé að hæstv. utanrrh. er horfinn en hann er eflaust . . .   ( Gripið fram í: Það var þegar danski kaflinn byrjaði. Hann hélt að hann væri á röngum stað.) Jæja, hann hefur eflaust ekki mikið líkamsþol eins og hann segir sjálfur. En hvað um það, ég sé að hæstv. iðnrh. er hér og

ég met hann að sjálfsögðu mikils. --- Og svo ég haldi áfram hér með dönskuna, þá segir, með leyfi forseta:
    ,,I mangel af anden løsning måtte man derfor antage, at hvis Danmark ønskede at blive medlem af internationale organisationer, der skulle kunne udøve retslig myndighed direkte over danske borgere, uden om dansk forfatnings retslige myndigheder, måtte det ske ved, at der i det enkelte tilfælde vedtages en beslutning eftir fremgangsmåden for grundlovsændringer.`` --- Svo rekur prófessorinn það áfram til að þurfa ekki að gera það í hvert sinn þá hafi verið talið nauðsynlegt að breyta dönsku stjórnarskránni 1953. Þetta vil ég biðja menn að hugsa um þegar þeir lesa það álit fjórmenninganna að íslenska stjórnarskráin í núverandi mynd banni ekki flutning valds. Reyndar viðurkennir fjórmenninganefndin að hér sé um flutning valds að ræða og segja hreinlega hér að hér sé flutt vald en segja að það sé með heimilum hætti. Þeir segja hér, með leyfi forseta:
    ,,Stjórnarskráin stendur því þó í vegi að með lögum um samningana sé vald hvort sem um er að ræða löggjafarvald, framkvæmdarvald eða dómsvald með óheimilum hætti lagt í hendur annarra en taldir eru í 2. gr. stjórnarskrárinnar. Um er að ræða ákvæði sem leggja skyldur á einstaklinga eða lögaðila, síðan skyldur sem aðeins varða íslenska ríkið að þjóðarrétti fela ekki í sér stjórnarskrárbrot.``
    Um þetta er ég alveg sammála fjórmenningunum því að náttúrlega er allt annað með þjóðarétt en landslög. Ríkisvaldið getur bundið sjálft sig með þjóðarrétti en ekki einstaklinga og ríkisborgara sem eru verndaðir af stjórnarskránni. En fjórmenningarnir komast þó að þeirri niðurstöðu að hér sé ekki um óheimilan flutning að ræða vegna þess sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Vald það sem alþjóðastofnunum er ætlað með samningnum sem hér er fjallað um er vel afmarkað.
    Þetta vald er á takmörkuðu sviði.
    Það er ekki verulega íþyngjandi fyrir íslenska aðila.``
    Þetta þykja mér hin furðulegustu rök. Vel má vera að valdið sé afmarkað, en hvenær er það vel afmarkað, hver ætlar að meta hvort valdið sé vel afmarkað og hvort það sé á takmörkuðu sviði viðskiptanna, þ.e. á sviði viðskipta sem er náttúrlega afar víðtækt svið? Ég held allir hljóti að geta verið sammála um það og að það sé ekki verulega íþyngjandi. Hver getur metið hvort vald eða hvort ákvörðun, t.d. eftirlitsstofnunar, er íþyngjandi eða ekki íþyngjandi t.d. ef eftirlitsstofnunin ákveður að sekta íslensk fyrirtæki um einhverjar milljónir, jafnvel einhverja tugi milljóna? Hver getur kveðið upp þann úrskurð fyrir fram að það sé ekki íþyngjandi?
    Einnig er mjög athyglisvert sem nefndin segir um takmarkanir hjá eftirlitsstofnuninni. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Undanþágur eru frá banni við samningum sem fela í sér samkeppnishömlur. Mikilvægust er reglan um ,,minni háttar samninga``. Samningar um minna en 5% markaðshlutdeildar á þeim markaði sem máli skiptir og þar sem heildarvelta fyrirtækjanna sem hlut eiga að máli er innan við 200 millj. ECU eru að jafnaði undanþegnir bannákvæði 53. gr. Skilyrði fyrir undanþágu er að bæði atriðin eigi við. Minniháttarreglan [það sem hér er um að ræða] er viðmiðunarregla. Hún varðar aðeins 53. gr. og framkvæmd hennar bíður frekari túlkunar að því er Ísland varðar.`` --- Þetta er kjarnaatriði því að menn eru að vísa til þess að íslensk fyrirtæki séu hólpin af því að þau hafa ekki 5% markaðshlutdeild og ekki 200 millj. ECU veltu sem eru 15 milljarðar íslenskra króna. Að vísu er í þessu sambandi afar fróðlegt að lesa greinargerðina með norksa frumvarpinu þar sem þetta er einmitt einnig tekið fyrir og komist að þeirri niðurstöðu að jafnvel þótt norsk fyrirtæki slyppu þá sé ekki hægt að samþykkja norska samninginn nema með 3 / 4 atkvæða á Stórþinginu.
    Svo er náttúrlega þetta að ekki er búið að ákveða hver viðmiðunin verður fyrir Ísland. Svo getur farið að eftirlitsstofnunin úrskurði að Ísland sé sérstakur markaður og þá er fljótt að koma a.m.k. yfir þessi 5% og þá yrði veltutalan eflaust ákveðin langtum minni. Auk þess geta samsteypur á Íslandi, t.d. í útflutningi sjávarafurða, vissulega farið yfir þessi mörk. Hvort það er íþyngjandi að fá t.d. á sig sekt, ef t.d. fyrirtæki fengi sekt upp á 10--20 millj. kr., ég held það væri töluvert íþyngjandi. (Gripið fram í.) Ég skal ekki segja hvað hún yrði, hún er jafnvel talin íþyngjandi af þessum fjórmenningum ef hún færi svo hátt.
    Reyndar segja fjórmenningarnir hér áfram, með leyfi forseta, sem er fróðlegt að hv. þingmenn geri sér grein fyrir:
    ,,Undanþágureglurnar miða við heildarveltu og markaðshlutdeild á sameiginlegum markaði. Ekki er alltaf átt við samanlagða markaði allra EB- eða EFTA-ríkjanna heldur er markaðurinn skilgreindur hverju sinni eftir viðkomandi vörutegundum og landfræðilegum sjónarmiðum. Þannig gæti Ísland hugsanlega talist einn markaður í einhverjum tilvikum.``
    Samt sem áður komast fjórmenningarnir að þeirri niðurstöðu að svona sekt sé ekki eða geta ekki talist íþyngjandi. Ég hlýt að lýsa furðu minni á þessari niðurstöðu.
    Prófessor Björn Þ. Guðmundsson gaf mjög athyglisvert álit sem vert væri að lesa hér allt, en ég ætla að grípa á nokkrum stöðum niður í það. Hér segir hann m.a., með leyfi forseta:
    ,,Að mínu viti dugar ekki lögfræðilega að reyna að sýna fram á að formlega sé í lagi að lögfesta EES-samninginn en ef hins vegar komi síðar í ljós að ákvæði hans brjóti í bága við stjórnarskrána sé unnt

að bregðast við því samkvæmt ákvæðum hennar sjálfrar,`` þ.e. með því að breyta stjórnarskránni. Þetta er verðug athugasemd hjá prófessornum því að fjórmenningarnir segja í lokaorðum sínum, næstsíðustu málsgrein: ,,Þá bendum við á að síðar megi eða beri að gera stjórnarskrárbreytingu ef fram kemur að forsendur okkar standist ekki.`` --- Þ.e. þegar búið er að brjóta stjórnarskrána og þegar búið er að gera fjöldamarga gerninga, fjöldamarga samninga um viðskipti, sem svo reynast brot á stjórnarskránni þá eigi að hlaupa til og breyta stjórnarskránni. Það eigi sem sagt að byggja á vafanum í staðinn fyrir það sem hv. þm. Pálmi Jónsson sagði svo réttilega að öllum vafa yrði að eyða fyrir fram. Það á að byggja á vafanum og síðan að leiðrétta og það er ekki að ástæðulausu að prófessorinn sér ástæðu til að taka ofan í dálítið hjá þessum mönnum. ( Gripið fram í: Þarf ekki utanrrh. að heyra þetta?) Jú, vitanlega þyrfti hann að heyra þetta en við vitum að líkamsþol hans er lítið, eflaust er það það sem veldur fjarveru hans, en ég vil taka undir það með hv. þm. að mér þætti vænt um það, virðulegi forseti, ef hæstv. utanrrh. er beðinn að vera hér því þetta er einu sinni hans stærsta mál. ( Gripið fram í: Getur ekki Guðni sótt hann?) Guðni getur tekið hann undir höndina og komið með hann, en það þykir kannski ekki rétt á hinu háa Alþingi að hafa þau vinnubrögð. En ég fer þess sem sagt formlega á leit að hæstv. ráðherra verði tilkvaddur og beðinn að sitja hér í salnum.
    Þarna kemur hæstv. utanrrh. Af því ég veit að hæstv. utanrrh. leggur á það mikla áherslu að þetta mál gangi fljótt og vel, hann hefur lýst því á blaðamannafundi, þá vil ég ráðleggja honum að vera sem mest í salnum því að mönnum þykir mjög vænt um að hafa hæstv. utanrrh. í salnum og svo ég vona að það takist að halda honum hér í nokkrar mínútur.
    Ég er hér að fara yfir stjórnarskráratriðin sem ég sagði í upphafi að ég teldi afgerandi í þessu máli og ég hef farið í gegnum álit fjórmenninganna en ég er nú að fjalla um álit Björns Þ. Guðmundssonar. Og ég ætla að lesa hér nokkur atriði úr áliti hans, með leyfi forseta: ,,Það er alveg ljóst samkvæmt stjórnskipunarrétti að með stjórnarvöldum í 2. gr. stjórnarskrárinnar er einungis átt við innlenda stjórnvaldshafa en ekki erlenda og ekki heldur þjóðréttarlegar stofnanir, . . .  `` Hér er prófessorinn sem sagt fullkomlega sammála prófessor Max Sørensen í því að í stjórnarskránni eins og hún stóð í Danmörku áður en henni var breytt og eins og hún er hér þá er eingöngu átt við innlenda valdhafa. Og ég vona svo sannarlega að engum detti annað í hug. Ég ætla svo að leyfa mér að lesa hér úr niðurstöðum prófessors Björns:
    ,,Með EES-samningnum er íslenskt refsivald framselt að hluta. Slíkt vald er svo mikilsvert að óverjandi er að það verði fengið öðrum en dómstólum og stjórnvöldum þeim, sem getur nú í stjórnarskránni, nema þá að breyta henni.
    Með því framsali ríkisvalds, sem hér er til umræðu, er ekki einasta þjóðréttarlegum stofnunum falið bindandi ákörðunarvald á tilteknum sviðum gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum á Íslandi, heldur afsala sömu aðilar sér þeirri réttarvernd sem þeir njóta samkvæmt íslenskum lögum og m.a. er fólgin í því að mega bera athafnir stjórnvalda undir umboðsmann Alþingis, undir æðra stjórnvald og að lokum dómstóla.``
    Ég bið menn að taka eftir þessu. Þetta er töluvert stórt atriði en lítið er á það minnst í umræðunni að t.d. umboðsmaður Alþingis getur ekki komið að þeim málum sem falin eru eftirlitsstofnun EFTA og dómstóli. Enn segir prófessorinn:
    ,,Hér er um að ræða hluta ríkisvalds sem framselt er í hendur fyrirbrigðis sem er nýtt á alþjóðavettvangi og engin reynsla er fengin af. Stjórnskipun þess byggir á réttarhugmyndum og réttarhefðum sem eru í veigamiklum atriðum frábrugðnar þeim forsendum sem stjórnskipun okkar byggist á.`` Þetta er líka athyglisvert mál og reyndar rekur prófessorinn það mjög vandlega að íslensk stjórnvöld fá ekki tækifæri til að setja þessum stofnunum lög og reglur sem við gerum að sjálfsögðu um allar þær stofnanir sem fá vald hér heima.
    Síðan fjallar nú reyndar prófessorinn líka um dóma sem fjórmenninganefndin túlkar svo að þeir séu eingöngu leiðbeinandi og mér finnst verðugt að lesa það einnig hér. Prófessorinn segir: ,,Ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt hjá fjórmenninganefndinni að túlka megi EES-samninginn þannig að dómar EB-dómstólsins séu einungis leiðbeinandi en ekki bindandi fyrir dómstóla og stjórnvöld hér á landi. Þrátt fyrir þá takmörkun sem gerð er í samningnum, þ.e. að dómarnir skipti máli og séu efnislega samhljóða, tel ég miklu líklegra að reynslan muni leiða í ljós að líta beri svo á að hér sé um bindandi fordæmi að ræða, enda segir skýrum stöfum að það beri að fara eftir þeim þegar svo stendur á sem í EES og ESE-samningunum segir. Þessa skoðun byggi ég ekki síst á víðtækri túlkun EB-dómstólsins sjálfs á hlutverki sínu og valdsviði.``
    Þetta er vitanlega mjög umhugsunarvert atriði því að við höfum hingað til gengið út frá því að þó leitað væri álits þessara dómstóla þá væru þeir ekki bindandi. En það er athyglisvert í þessu sambandi að Norðmenn hafa komist að annarri niðurstöðu. Og í norska frv. til staðfestingar á EES-samningnum er grein sem undanskilur Norðmenn frá ákvörðunum og niðurstöðum EB-dómstólsins. Norðmenn segja í sinni greinargerð, sem ég ætla að koma að aðeins nánar hér á eftir, að það verði ekki skilið á milli. Norðmenn segja: Norsk stjórnarskrá heimilar ekki að samþykkja það að stofnun sem Norðmenn eiga ekki aðild að hafi slík áhrif á einstaklinga og fyrirtæki í Noregi. Og þeir hafa þennan fyrirvara í sínu frv. Mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh. að því: Hvers vegna er ekki slíkur fyrirvari í frv. hans? Hvers vegna var ekki líka talin ástæða til þess að taka þá skýrt fram að a.m.k. sú stofnun sem við eigum ekki aðild að gæti ekki ákvarðað neitt fyrir íslenska ríkisborgara? Norðmenn hafa talið þetta nauðsynlegt. Og þetta er mjög athyglisvert

þegar skoðuð eru ummæli Björns. Hann telur að þarna verði ekki skilið á milli. Hann virðist sem sagt algerlega sammála niðurstöðu Norðmanna í þessum efnum.
    Síðan kemur að greinargerð Guðmundar Alfreðssonar sem er nú hvað ítarlegust og gagnmerk eins og þær eru að sjálfsögðu allar. En ég vil segja það í upphafi að Guðmundur gengur töluvert lengra og hann er sammála því sem hinir tveir aðilarnir, fjórmenningarnir og Björn Þ. Guðmundsson, telja að um framsal valds sé að ræða hvað varðar eftirlitsstofnunina og dómstólinn, þ.e. í sambandi við samkeppnisreglurnar. En hann gengur töluvert lengra og mér finnst athyglisvert fyrir löggjafarsamkomuna að gera sér grein fyrir því. Það er sérstaklega það að með samningnum er löggjafarsamkoman að fela öðrum en því framkvæmdarvaldi sem hún hefur sjálf lýst trausti á og styður að meiri hluta a.m.k., hún er að fela öðrum að undirbúa lög og reglur sem leggjast eiga fyrir Alþingi. Þ.e. enginn aðili sem hún hefur valið sem kemur nálægt þessum málum. Og það er reyndar athyglisvert án þess að ég fari að lesa álitsgerð Max Sørensens prófessors, sem er fyrir nokkru látinn, að hann segir að það skipti töluvert öðru máli í sambandi við ákvarðanir erlendra stofnana ef löggjafarþingið situr með neitunarvald, einstaklingur t.d. ráðherra sem danska þingið hefur valið, sem er ábyrgur gagnvart danska þinginu. Hann gerir greinarmun á því hvort þar situr embættismaður sem er ekki ábyrgur gagnvart löggjafarsamkomunni dönsku heldur sem sagt maður sem er valinn af þinginu eða nýtur trausts meiri hluta á danska þinginu. Og þetta finnst mér einnig vera mjög umhugsunarvert og kemur nokkuð heim við það sem Guðmundur Alfreðsson rekur.
    Guðmundur Alfreðsson segir, með leyfi forseta:
    ,,EB mundi að mestu ráða ferðinni um breytingar á eldri textum og tilurð nýrra laga og reglna á EES-svæðinu. Efnislega löggjafarvaldið verður að þessu leyti í höndum stofnana EB. EES-nefndin og EES-ráðið munu samþykkja lög og reglur frá EB til að viðhalda samræmdu lagakerfi. Sérfræðingar EFTA-ríkjanna fara með tillögu- og samráðsrétt á fyrri stigum máls og fulltrúar EFTA-ríkjanna fara með neitunarvald í áðurnefndum EES-stofnunum. Frá EES berst málið til Alþingis, sem samkvæmt samningnum getur samþykkt eða hafnað máli, en ekki breytt frumvarpi, því að þá næði samræmingin ekki fram að ganga. Eins og sérfræðinganefnd utanríkisráðherra orðar það: ,,Er slík einhliða breyting því ekki raunhæfur kostur.```` Fjórmenningarnir viðurkenna það að Alþingi getur í raun ekki breytt frv. sem eru undirbúin að Alþingi forspurðu og af mönnum sem Alþingi hefur ekki til þess valið. Og ég hlýt að benda á að það er vissulega umhugsunarvert hvort þarna er ekki líka verið a.m.k. óbeint að framselja vald.
    Dr. Guðmundur segir jafnframt: ,,Verkefnaskipting eftir þessu fyrirkomulagi raskar þrískiptingu ríkisvaldsins eins og því er lýst í 2. gr. stjórnarskrárinnar. Undirbúningur og flutningur löggjafarmála flyst frá Alþingi til stofnana EB og EES og til fulltrúa íslenska ríkisins hjá þeim, en þetta var náttúrlega aldrei hugmyndin þegar stjórnarskráin gekk í gildi. Það eru fulltrúar framkvæmdarvaldsins, ýmist ráðherrar, embættismenn eða sérfræðingar, sem mundu halda uppi samráði við EB og fara með neitunarvaldið hjá EES. Framkvæmdarvaldið fengi því augljóslega aukinn hlut á kostnað löggjafarvaldsins. Þennan framgangsmáta staðfestir sérfræðinganefndin með því að segja: ,,Við þetta allt er þörf á samstarfi íslenskra stjórnvalda og Alþingis.````
    Svo segir dr. Guðmundur: ,,Enn segir sérfræðinganefnd utanríkisráðherra: ,,Setning nýrra EES-reglna fer ekki eftir reglum landsréttar þar sem hér er um að ræða breytingar á þjóðréttarsamningi. Þar eiga því ekki við stjórnarskrárákvæði um frumkvæðisrétt ríkisstjórnar eða þingmanna að lagafrumvörpum eða rétt til flutnings breytingartillagna. . . .  ``
    Þessi atriði telur nefndin að ráði úrslitum um það að umrædd ákvæði EES-samningsins séu samrýmanleg 2. gr. stjórnarskrárinnar. Röksemdafærsla nefndarmanna fær staðist og niðurstaðan er formlega rétt. Hún er hins vegar efnislega röng því að frumkvæðisréttur þingmanna að lagafrv. og flutningi brtt. skerðist að sjálfsögðu þegar löggjafarstarfið um sjálfar efnisreglurnar, eins og áður segir, er flutt frá Alþingi til aðþjóðastofnana.`` Þetta telur doktorinn sem sagt efnislega rangt þó það sé formlega rétt. Enn segir doktorinn:
    ,,Samningurinn rýrir greinilega hefðbundið hlutverk Alþingis. Alþingi mundi fara með formlegt neitunarvald en efni laganna og orðalag verða ráðin annars staðar. Löggjafarvald er að hluta framselt til alþjóðastofnana og framkvæmdarvaldið fær stærra hlutverk við ákvörðun efnisreglna, en löggjafinn getur sagt nei í krafti hins formlega neitunarvalds. Breyti hann texta eða setji andstæðar reglur, mundi það hafa þjóðréttarlegar afleiðingar vegna viðurlagaákvæða EES-samningsins. Það er ekki hátt risið á svona fyrirkomulagi fyrir þjóðþing í fullvalda ríki, en það er matsatriði og getur horft til beggja átta hvort þetta fyrirkomulag brýtur í bága við stjórnarskrána.``
    Þarna held ég að sé kjarni málsins. Þetta er vafaatriði gagnvart stjórnarskránni en augljóslega er ekki hátt risið á okkur blessuðum alþingismönnum þegar við föllumst á að jafnvel EB hefur frumkvæðisvaldið að setningu nýrra laga hér á Íslandi. Og það verð ég að segja að var aldrei ætlunin í þeim kröfum sem hæstv. utanrrh. setti fram í tíð fyrri ríkisstjórnar að EFTA-ríkin kæmu í alvöru að því að semja nýjar reglur fyrir EES. Reyndar má skjóta því inn að það var fullyrt við okkur af aðalsamningamanni að það mætti gera ráð fyrir að slíkar nýjar reglur yrðu afar fáar því að þetta lægi allt fyrir nú þegar. Eins og ég rakti áðan þá hafa á einu ári verið gefnar út 193 nýjar tilskipanir af bákninu í Brussel.
    Síðan fjallar dr. Guðmundur um yfirtöku á dómum og úrskurðum EB-dómstólsins sem er líka vert að hafa í huga því að hann gengur töluvert lengra í því að telja ýmis atriði samningsins brjóta gegn stjórnarskránni. Hér segir dr. Guðmundur, með leyfi forseta:
    ,,Það er því rökrétt, eins og skýrt mál lesa í enska textanum, að 6. gr. EES-samningsins fjallar um skyldu til beita EB-dómunum. Þetta viðhorf kemur greinilega fram í áliti EB-dómstólsins um EES-samninginn frá 10. apríl 1992, þar sem valdahlutföllunum og hlutverki EB-dómstólsins á EES-svæðinu er skilmerkilega lýst. Dómarnir eru ekki eingöngu lögskýringar- eða túlkunargöng. Þeir eru nauðsynlegur hluti lagasamræmingarinnar og óumflýjanlegur hluti hins nýja EES-réttar. Þeir geta í reynd haft bein réttaráhrif þar sem eftirlitsstofnun og dómstóll EFTA eiga að beita þeim í ákvörðunum sem mundu koma til fullnustu á Íslandi.``
    Þarna kemur enn sú ástæða sem knúði Norðmenn til að setja fyrirvara í sitt frv. en við gerum ekki. Og þetta er vitanlega mjög umhugsunarvert ekki síst eftir þann skell sem hæstv. utanrrh. og aðrir samningamenn fengu þegar dómstóll EB úrskurðaði samninginn eins og hann lá fyrir ógildan af því að EB-dómstóllinn yrði að hafa óbundnar hendur, frjálsar hendur til að úrskurða Rómarsáttmálann og m.a. öll þau grundvallaratriði sem liggja til grundvallar þeim samningi sem við erum að tala um hér.
    Þá segir dr. Guðmundur: ,,Viðeigandi dómar EB-dómstólsins, t.d. um samkeppnisreglurnar, eru hins vegar ekki skráðir í EES-samningnum. Það er bara almenn tilvísun til þeirra og þeir ekki tilgreindir þótt það sé að sjálfsögðu vitað hvaða dómar koma við sögu. Að mínu mati er það alvöruspurning hvort Alþingi og forseti lýðveldisins geta samþykkt slíka tilvísun til lagabókstafs sem á að fá gildi að landsrétti án þess að viðkomandi gögn séu lögð fram í frumvarpsformi, á íslensku að sjálfsögðu, og svo birt. Það hlýtur að skerða réttarvitund manna og réttaröryggi ef þetta er allt saman samþykkt óséð og óskoðað, jafnvel þótt dómarnir séu til og liggi frammi í erlendum bókum og þótt sumir þeirra hafi verið reifaðir í íslenskum gögnum. Um réttan framgangsmáta má vitna í ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar, t.d. 26. gr. um lagafrumvörp og 27. gr. um birtingu laga.``
    Er það ekki, hv. þm., umhugsunarefni sem doktorinn segir hér? Eða eru þeir tveir hæstv. ráðherrar sem hér sitja þeirrar skoðunar að þetta sé ekki vert umhugsunar, þetta sé ekkert áhyggjumál og skella þeir við þessu skollaeyrum? Ég þekki þessa hæstv. ráðherra að öðru. Ég þekki alveg sérstaklega hæstv. viðskrh. að mikilli nákvæmni í svona málum og væri nú fróðlegt að heyra einhvern tímann síðar ef hann hefur hlustað hvort hann telur hér farið með smáatriði ein sem ekki þarf að ræða um.
    Um bókun 35 með EES-samningnum hefur mikið verið fjallað og talið að hún tæki af allan vafa að Íslendingar hefðu fullt ákvörðunarvald. Ég ætla að lesa það sem dr. Guðmundur segir þar um:
    ,,Stök grein bókunar 35 með EES-samningnum hljóðar svo:
    ,,Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmda og annarra settra laga skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.````
    Tekur þetta ekki af allan vafa? Erum við ekki hér að undirskrifa það að við skuldbindum okkur til að setja lög sem taka af allan vafa um það að EES-reglur gildi í þessum tilvikum? Er þetta ekki alveg ljóst? Hrindir þetta ekki gjörsamlega fyrra ákvæði að íslenska löggjafarvaldið hafi hér síðasta orðið í raun? Erum við ekki að samþykkja í raun að taka við öllu sem að okkur er rétt? Um þetta segir dr. Guðmundur:
    ,,Efnisgrein bókunar 35 mundi þrengja mjög að löggjafarvaldinu hvað sem líður áðurnefndum formálsorðum bókunarinnar. Því er lofað með tilvísun í lagasamræmingu á EES-svæðinu að EFTA-ríkin muni tryggja með lögum að EES-reglur gangi framar öðrum landslögum ef til áreksturs kemur. Samkvæmt stjórnskipunarrétti okkar geta Alþingi og forseti breytt eldri lögum og sett ný lög eins og þeim sýnist. Stjórnarskráin heimilar ekki að lög eða milliríkjasamningar takmarki þennan rétt. Svona samningsloforð um forgang EES-reglna getur haft þýðingu sem almenn stefnuyfirlýsing, en lögfræðilega er það ekki marktækt.``
    Með öðrum orðum telur hann þetta í raun alls ekki standast lögfræðilega en okkur er engu að síður ætlað að samþykkja slíkar reglur.
    Síðan er fjallað um eftirlitsstofnun EFTA og þar er um að ræða atriði sem allir lögfræðingar hafa verið sammála um að brjóti gegn stjórnarskránni. Fjórmenningarnir segja að þetta sé slíkt lítilræði að það taki því ekki að tala um það. Þar segir dr. Guðmundur Alfreðssonar, með leyfi forseta:
    ,,Sérfræðinganefnd utanrrh. heldur því fram, að það megi hugsanlega skýra fyrirmæli í 2. gr. stjórnarskrárinnar um framkvæmdarvaldið þannig, að það geti verið í höndum alþjóðastofnana á vel afmörkuðum og takmörkuðum sviðum: ,,Ekki er tekið fram, að þetta skuli vera alíslensk stjórnvöld.`` Þessi skoðun þeirra er algerlega úr lausu lofti gripin og á enga stoð í íslenskum stjórnskipunarrétti. Þetta er ævintýramennska í lögfræði og það breytir engu, hvort framsalið nær til milliríkjaviðskipta eingöngu eða til annarra málaflokka.``
    Þarna er sannarlega djúpt í árinni tekið. Þarna er sagt um hæstaréttardómara að hann stundi ævintýramennsku í lögfræði. Það þykir mér sárt að heyra því að ég met þann mann mikils. Á eftir segir:
    ,,Það er rétt, sem sérfræðinganefndin segir um takmörkun á ábyrgð ráðherra: ,,Ráðherrar bera aðeins ábyrgð á stjórnarframkvæmdum, sem þeir hafa framkvæmt, vitað um eða látið viðgangast.`` Ólafur Jóhannesson túlkar þetta ákvæði svo (bls. 158 í Stjórnskipun Íslands), að
    ,,ráðherrar verði eigi gerðir ábyrgir vegna athafna embættis- og sýslunarmanna, sem undir þá heyra, nema eitthvað hafi á skort af hendi ráðherra um val starfsmanna, eftirlit með þeim eða fyrirmæli til þeirra.

Í 14. gr. stjórnarskrárinnar felst því það eitt, að ráðherrar beri ábyrgð á embættisrekstri sínum.``
    Það má fullyrða, að það var aldrei ætlun stjórnarskrárgjafans, að sumar stjórnarframkvæmdir mætti flytja út úr landinu og framkvæma ábyrgðarlaust án umsjónar eða eftirlits þeirra stjórnvalda, sem upp eru talin í 2. gr. stjórnarskrárinnar.``
    Ráðherra er hérna skotið undan ábyrgð. Það framkvæmdarvald sem við veljum okkur hér á landi ber ekki ábyrgð að stórum hluta á íslensku athafnalífi sem er þetta fjórfrelsi margumtalaða. Ég er sammála dr. Guðmundi að það hefur aldrei verið ætlunin að skjóta þannig stórum þætti undan ábyrgð framkvæmdarvaldsins. Dr. Guðmundur segir:
    ,,Það er mín niðurstaða um framkvæmdarvaldsþátt EES-samningsins, að yfirþjóðlegt framsal af þessu tagi fái ekki staðist samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar, sem felur tilteknum íslenskum aðilum þetta vald. Framsalið stangast líka á við 14. gr. stjórnarskrárinnar um ráðherraábyrgð, því að hvorki ráðherra né önnur innlend stjórnvöld myndu geta borið ábyrgð á ákvörðunum stofnana EFTA og EB, þar sem þær heyra alls ekki undir innlenda aðila og enginn slíkur myndi því bera ábyrgð á athöfnunum. Hér vaknar því greinilega spurning um stjórnarskrárbrot.``
    Í þessu sambandi hefur verið vitnað til þess að fordæmi séu í samningi Norðurlandanna um gagnkvæma aðfararheimild og mér finnst ástæða til að lesa það sem dr. Guðmundur segir um það. Hann segir:
    ,,Loks vitnar sérfræðinganefndin (bls. 23--24) í Norðurlandasamninga um gagnkvæmt aðfarar- eða fullnustuhæfi stjórnarathafna og dóma frá þessum löndum. Nánari athugun leiðir í ljós, að þarna er tvennt ólíkt á ferðinni. Útlend stjórnvöld eða dómstólar fá samkvæmt Norðurlandasamningunum aldrei lögsögu yfir íslenskum einstaklingum eða fyrirtækjum, nema þeir hafi sjálfir með gerðum sínum komist undir vald erlendrar lögsögu. Það var engin lögsaga flutt út úr landinu því að erlend stjórnvöld og dómstólar höfðu þegar vald til að fara með viðkomandi mál. Við tökum aðeins að okkur fullnustuna á gagnkvæmnisgrundvelli. Á EES-svæðinu mundu hins vegar EFTA-eftirlisstofnunin og dómstóllinn fá lögsögu, svo og stofnanir EB, án þess að íslenskir aðilar aðhafist nokkuð til að kalla lögsöguna yfir sig. Tilvitnunin í þessa Norðurlandasamninga og samanburðinn eiga því ekki rétt á sér.``
    Einfaldlega lýst er þetta svo að ef Íslendingur brýtur af sér í Svíþjóð, þá er hann undir lögsögu sænskra dómstóla, hann er það þegar og ekkert verið um annað samið og ekkert annað kemur til greina. Ef Svíi brýtur af sér hér, þá er hann undir lögsögu íslenskra dómstóla. Það eina sem við höfum fallist á er að framkvæma niðurstöðu hins sænska dómstóls í ákveðnum málum, í skattamálum t.d. Það verður aðfararhæft hér enda samþykki Svíarnir að niðurstaðan hér í þessum málum verði aðfararhæf í Svíþjóð. Það er vitanlega um allt annað og ólíkt atriði að ræða en þar sem einhliða er afsalað valdi til erlendrar eftirlitsstofnunar og dómstóls, jafnvel í brotum sem framin eru hér á landi. Ef íslenskur aðili hér á landi brýtur af sér á samkvæmt samkeppnisreglunum fellur það undir erlendan dómstól. Ég held því að það sé ekki nokkur minnsti vafi á því að þarna er um stjórnarskrárbrot að ræða.
    Dr. Guðmundur fjallar einnig um dómsvaldið. Hann segir um EFTA-dómstólinn: ,,Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fara dómendur með dómsvaldið. Það er enn og aftur enginn vafi á því að stjórnarskráin á hér við íslenska dómendur og íslenska dómstóla. Það eru engin fordæmi til um afhendingu á bindandi dómsvaldi yfir íslenskum aðilum út úr landinu. Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar skera dómendur úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Þetta mundu þeir ekki geta gert að því marki, sem framkvæmdarvaldið hefur verið framselt til eftirlitsstofnunar EFTA og dómsvald til EFTA-dómstólsins. Til viðbótar má benda á 61. gr. um vernd og sjálfstæði dómara, sem gerir greinilega ráð fyrir innlendri málsmeðferð.``
    Þetta er athyglisvert og enginn annar hefur bent á það að íslenskum dómstólum er ætlað að fjalla um og skera að öllu leyti úr ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda, þ.e. framkvæmdarvaldsins en í þessu tilfelli getur íslenskur hæstiréttur alls ekki gert það. Honum er ekki leyft að fjalla neitt um embættistakmörk eftirlitsstofnunar EFTA, ekki neitt. Það vald er því einnig flutt úr landi. Enn segir dr. Guðmundur:
    ,,EFTA-dómstóllinn er hugsaður sem sjálfstæð stofnun og íslenskur dómari, sem þar mundi sitja, yrði óháður íslenskri dómaskipan. Íslenskir aðilar, bæði einstaklingar og fyrirtæki, sem teldu sig hafa verið órétti beitt af eftirlitsstofnuninni, yrðu þá að sækja sín mál fyrir þessum yfirþjóðlega dómstól, sem mun væntanlega sitja í Genf, eða til Lúxemborgar í þeim tilfellum, sem EB-dómstóllinn hefði dómsögu. Landinn gæti ekki leitað réttar síns fyrir íslenskum dómstólum í málum, sem mundu falla undir þessa alþjóðlegu dómstóla.``
    Hér er náttúrlega um mjög stórt mál að ræða. Það er sem sagt það að Íslendingur getur ekki áfrýjað niðurstöðu eftirlitsstofnunarinnar til íslensks dómstóls. Það verður að fara fyrir þennan erlenda dómstól. Þá segir:
    ,,Stjórnarskráin geymir enga heimild til framsals á dómsvaldi út úr landinu til dómstóla, sem gætu kveðið upp bindandi dóma sem kæmu beint til fullnustu að landsrétti. Engin fordæmi eru til um slíka niðurstöðu. Það verður að telja slíkt óheimilt að óbreyttri 2. gr. stjórnarskrárinnar, með hliðsjón af 60. og 61. gr. hennar. Þetta er að mati höfundar eitt skýrasta dæmi um stjórnarskrárbrot, sem mundi leiða af lögfestingu EES-samningsins.``
    Sumir menn hér á landi hafa gert lítið úr fullveldishugtakinu og menn hafa haft það í flimtingum og jafnvel talið að slíkt hugtak væri hálfúrelt, það væri ekkert fullveldi lengur eða a.m.k. mjög takmarkað. Mér þykir ástæða til að lesa hér aðeins það sem dr. Guðmundur segir um það og hafa þá í huga að dr. Guðmundur Alfreðsson hefur unnið árum saman sem einn aðalsérfræðingur hjá alþjóðastofnun, hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf, sem hefur einmitt fjallað um fullveldi þjóða. Hann segir hér:
    ,,Sérfræðinganefnd utanrrh. gerir í inngangsorðum lítið úr ríkis-, fullveldis- og sjálfstæðishugtökunum. Þeir skrifa án þess að færa að því nokkur rök (bls. 2 í skýrslunni): ,,Gildi ríkishugtaksins í stjórnskipunarrétti er umdeilt`` og ,,Ekki er þó ástæða til að telja að 1. gr. stjórnarskrárinnar hafi sjálfstæða þýðingu við úrlausn þess álitaefnis sem okkur er ætlað að fjalla um.```` --- Ég skýt því inn að 1. gr. fjallar náttúrlega um að við séum fullvalda þjóð. Síðan segir dr. Guðmundur: --- ,,Í tengslum við þessar staðhæfingar vitna þeir til lýsingar Ólafs Jóhannessonar á hugtakinu, en orð hans í tilgreindri tilvitnun og í áframhaldandi bókartexta ganga í þveröfuga átt; þar lýsir hann því hversu þýðingarmikið hgutakið er og getur verið. Bæði sögulega og í nútímanum hljóta 1. og 2. gr. og samspil þeirra að skipta máli; þetta er sjálfur grundvöllur lýðveldisstofnunar og sjálfstæðs ríkis á Íslandi.``
    Síðan fjallar Guðmundur um valdaframsal til alþjóðastofnunar sem Ísland er ekki aðili að. Það gera hinir umsagnaraðilarnir ekki en það sáu Norðmenn sér skylt að taka til athugunar. Þar segir dr. Guðmundur:
    ,,Sérfræðinganefnd utanrrh. viðurkennir fullum fetum í skýrslu sinni (t.d. á bls. 15, 21 og 22), að samkvæmt EES-samningnum mundu framkvæmdastjórn og dómstóll EB fá, í vissum málaflokkum, vald til að kveða upp endanlegar ákvarðanir, sem yrðu aðfararhæfar á Íslandi. Slík tilfelli hafa verið nefnd í köflunum að ofan um framkvæmdar- og dómsvald.``
    Síðan segir hann: ,,Sérfræðinganefndin færir engin rök að þeirri niðurstöðu, að það sé í lagi að framselja framkvæmdar- og dómsvald til alþjóðastofnunar, sem við erum ekki aðilar að. Málafæð dugir ekki sem röksemd, enda er stærðin óþekkt. Í kaflanum um löggjafarvaldið (bls. 10--11) lögðu þeir á það áherslu og töldu til réttlætingaratriða varðandi feril breytinga á viðaukum við EES-samninginn, að ,,stöðug samráð og upplýsingaskipti og þá einnig samningaumleitanir`` fara fram við fulltrúa ríkisins, áður en ákvarðanir eru teknar um nýjar reglur.``
    Ég þarf ekki að fjölyrða um það að dr. Guðmundur segir að lokum: ,,Að mínu mati stangast valdaframsal til EB greinilega á við 1. og 2. gr. stjórnarskrárinnar. Við stofnun lýðveldisins skiptir stjórnarskrárgjafinn verkum milli íslenskra valdhafa. Ég held því fram í meginmáli þessarar greinargerðar, að valdaframsal til yfirþjóðlegra stofnana sé óheimilt að óbreyttri stjórnarskrá, en ég fullyrði, að stjórnarskrárgjafinn hafi útilokað valdaframsal til yfirþjóðlegra stofnana, sem við erum ekki aðilar að. Engu máli skiptir, þótt framsalið sé afmarkað og takmarkað við ákveðna málaflokka á viðskiptasviðinu. Þetta er einfaldlega ekki hægt að óbreyttri stjórnarskrá.``
    Í lokaorðum segir doktorinn:
    ,,Heildarmyndin skiptir að sjálfsögðu máli bæði við athugun stjórnarskrármálsins og almenna skoðanamyndun um EES-svæðið og tilheyrandi samninga. Það er hins vegar nóg, ef einstök tiltekin atriði brjóta í bága við stjórnarskrána; hvert dæmi eitt og sér, t.d. um afhendingu framkvæmdar- og dómsvalds eða um skerðingu löggjafarvalds, mundi þess vegna nægja til þess að útheimta breytingar, áður en samningurinn fengi gildi að landsrétti.``
    Ég hef nokkrum sinnum nefnt það að Norðmenn hafa kosið að fara aðrar leiðir. Í greinargerð með norska frv. kemur þetta mjög greinilega fram. Ég hef fengið það þýtt hér á Alþingi og ætla aðeins að vitna í niðurstöður þar. Í norska frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Um 93. gr. stjórnarskrárinnar`` --- ég skýt því inn að það er sú grein sem leyfir framsal á valdi með 3 / 4 atkvæða í Noregi --- ,,og afstöðuna til EES-samningsins og EFTA-samningsins um eftirlitsstofnun og dómstólinn er fjallað um í sambandi við umfjöllun um 110. gr. samningsins í III. kafla frv. og VIII. kafla til VIII.5.5. kafla stjórnarfrv. Afstaðan til 93. gr. stjórnarskrárinnar er einnig rædd ítarlega í VIII. kafla stjfrv.`` Má segja að þetta skipti ekki máli. Síðan kemur:
    ,,Niðurstaða þessarar umfjöllunar er sú að Stórþingið verður að veita heimild til staðfestingar á EES-samningnum og EFTA-samningnum um eftirlitsstofnun og dómstólinn samkvæmt málsmeðferð 93. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. með 3 / 4 meiri hluta í atkvæðagreiðslu sem a.m.k. tveir þriðju þingmanna taka þátt í. Ástæðan fyrir því er skipulagið við framkvæmd samkeppnisreglnanna í EES-samningnum og í EFTA-samningnum um eftirlitsstofnunina og dómstólinn.``
    Norðmenn viðurkenna sem sagt þetta og um það er síðan fjallað hér töluvert ítarlega. M.a. segir hér og er athyglisvert: ,,Samningurinn veitir einnig framkvæmdastjórn EB og EB-dómstólnum og dómstól EB á fyrsta dómstigi við eftirlit með ákvörðunum framkvæmdastjórnar EB vald til þess að taka vissar ákvarðanir í samkeppnismálum sem gilda afdráttarlaust í Noregi. Í framkvæmd er nefnilega ekki hægt að skipta samkeppnismálum milli etirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar EB með þeim hætti að aðeins eftirlitsstofnun EFTA taki ákvarðanir sem til greina kemur að láta gilda í Noregi. Noregur hefur þó með sérlegri yfirlýsingu vegna samningsins tekið fyrirvara sem EB hefur fallist á með þar að lútandi yfirlýsingu gegn beinni gildistöku þess konar ákvarðana sem að áliti ríkisstjórnarinnar falla undir 93. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. ákvarðanir um sektir eða févíti.``
    Norðmenn telja því að þarna verði ekki skilið á milli eins og ég las og með tilvísun til þess sem

ég fór yfir áðan frá dr. Guðmundi Alfreðssyni þar sem hann telur yfir allan vafa hafið að það komi ekki til mála að stjórnarskráin heimili framsal á valdi til stofnunar sem við erum ekki aðilar að, það þurfi ekki einu sinni að deila um það. Nú langar mig til að spyrja hæstv. utanrrh. að því hvort þetta mál hafi ekki verið hugleitt og hvers vegna í ósköpunum ekki hafi verið farið fram á að setja í íslenska frv. svipaða fyrirvara og Norðmenn eru með. Eða er virkilega svo að hæstv. ráðherra telji hér um eintóm aukaatriði að ræða sem ég hef varið mestum tíma mínum að fjalla um? Mér þykir reyndar rétt að skjóta því að að á málþingi sem efnt var til með umsagnaraðilum þessa samnings, lögfræðingum sem ég hef nefnt, sagði Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómari í lokaorðum sínum að menn væru að tala um ,,smotterí``. Ég skal viðurkenna að ég átti varla orð til að svara þessu. Er það kannski svo að hæstv. ráðherra og ráðherra og ríkisstjórn telji í raun og veru það sem varðar stjórnarskrána smotterí? Þá er afar illa farið fyrir okkur Íslendingum. ( Gripið fram í: Hver sagði þetta?) Þetta sagði Þór Vilhjálmsson á fundinum þar sem hann, Hannes Hafstein, Guðmundur Alfreðsson og Björn Þ. Guðmundsson voru mættir, eftir miklar rökræður þar sem böndin að mínu mati hertust að þeim sem telja þennan samning í lagi gagnvart stjórnarskránni. Þetta var m.a. í lokasvarinu, að menn ættu ekki að vera að deila um slíkt.
    Það væri að sjálfsögðu einnig fróðlegt að lesa hér úr norsku greinargerðinni þar sem þeir fjalla um þessar samkeppnisreglur og takmarkanir á þeim. Þessar smámunareglur, sem svo hafa veri nefndar, eða ,,bagatelmeldingen``, þ.e. heildarumsvifin verði innan við 5% og 200 millj. ECU. Ég sleppi því því það er í raun og veru nákvæmlega það sama sem dr. Guðmundur fjallar um og reyndar fjórmenninganefndin líka. Þetta eru reglur sem EB hefur sett fyrir sig en sem eftirlitsstofnun á eftir að setja fyrir EES og getur þá orðið allt annað. Það gæti ákveðið annað markaðssvæði, gæti ákveðið að Ísland væri sjálfstætt markaðssvæði. Það er athyglisvert að Norðmenn komast í sinni greinargerð að þeirri niðurstöðu að jafnvel þótt álykta mætti að þetta kæmi ekki norskum fyrirtækjum við afsaki það ekki eða heimili ekki að samningurinn væri samþykktur á Stórþinginu með einföldum meiri hluta atkvæða. Það verði að fara með hann samkvæmt 93. gr.
    Nú ég hef farið um þetta allmörgum orðum enda hef ég talið þetta vera ákaflega mikilvægt mál með stjórnarskrána. M.a. af þeirri ástæðu lögðum fram á þingi frv. til breytinga á stjórnarskránni þar sem gert var ráð fyrir að breyta stjórnarskránni í svipað horf og norsku stjórnarskránni sem mundi heimila þeim sem af efnisástæðum vildu fylgja samningnum að greiða honum atkvæði. Því var hafnað og það gerði stjórnarmeirihlutinn hér.
    Áður en ég kem að lokaniðurstöðunni er fróðlegt að velta því upp, kannski hefði átt að ræða þær breytingar sem hafa orðið síðan við utanrrh. hófum ásamt fleirum þessa samningsgerð, hvaða breytingar hafa orðið í Evrópu síðan þetta hófst og mér finnst vera umhugsunarefni. Þegar þessi samningsgerð hófst árið 1989 var Evrópubandalagið hin skínandi stjarna í efnahagsmálum heimsins. Það töluðu allir um áframhaldandi mikinn hagvöxt og að þetta yrði langstærsti og öflugasti markaðurinn. Þeir voru að vísu til sem efuðust um þetta og töldu að vonir Evrópumanna um samruna fengjust ekki staðist. Sterk þjóðernisvitund mundi vakna og valda vandræðum. Ég vek t.d. athygli á því sem fyrrv. háskólarektor, Sigmundur Guðbjarnason, sagði um þau mál. Því miður hefur flest af því þegar ræst á miklu skemmri tíma en ég gerði mér grein fyrir. Í dag er ástandið þannig í Evrópu að verðbólga er í kringum 4,5%. Þar er hagvöxtur í ár um 0,9% í Evrópubandalaginu, sem er ekki mikið, og spáð að á næsta ári verði hann í mesta lagi um 1,1%. Sumir efast um að sú spá fái staðist. Þá má vekja athygli á því að atvinnuleysi hefur farið þar stórvaxandi og t.d. á Spáni þar sem hagvöxtur og uppgangur var hve mestur eftir inngöngu þeirra í þennan markað er orðið 17% atvinnuleysi. Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að lokast ekki inni í þessu ástandi. Þá ætla ég ekki að fara að nefna þau átök sem því miður hafa blossað upp t.d. í Þýskalandi og þá vaxandi andstöðu hjá þjóðernissinnum sem komin er upp miklu víðar, t.d. í Frakklandi. Það er vissulega verulegt áhyggjuefni. Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að halda dyrum opnum og það vel, líka vestur til Bandaríkjanna og til Japans. Ég verð að viðurkenna að það vekur mig mjög til umhugsunar um þetta mál allt saman og ég hefði m.a. af þeirri ástæðu talið afar nauðsynlegt að þessum samningi yrði sem allra fyrst breytt í tvíhliða samning.
    Ég skal nú fara að ljúka þessu, virðulegur forseti, en verð aðeins að lokum að draga saman mína meginniðurstöðu. --- Þar gengur hæstv. utanrrh. í salinn ótilneyddur, það er gott að svo er. --- Ég sagði áðan að þegar ég lít eingöngu á efnishlið þessa samnings tel ég óvissuna vera meginniðurstöðu mína. Ef íslenskir atvinnuvegir væru sterkir, eins og þeir voru þegar við vorum að styrkja þá að sumu leyti með handaflinu í sambandi við vextina 1989 og 1990, mundi ég heldur hallast að því að efnislega væri þessi samningur skárri en að standa fyrir utan. Vera má að ef stjórnarskráin hefði heimilað mér að greiða þannig atkvæði að ég mundi gera það. Að vísu hefði ég orðið að lýsa áhyggjum mínum út af stöðu íslensks atvinnulífs. Nú er hins vegar svo að stjórnarskráin heimilar mér það alls ekki að mínu mati. Ég vona að ég hafi rakið það nógu ítarlega til að ég þurfi ekki að rökstyðja það frekar. Ég tel það vera yfir allan vafa hafið að það stenst ekki stjórnarskrána að framselja vald, eins og hér er gert ráð fyrir, til erlendra stofnana. Reyndar hallast ég mjög að niðurstöðu Guðmundar Alfreðssonar sem hann leiðir rök að því að verið sé að framselja vald á öðrum sviðum, m.a. vald framkvæmdarvaldsins til að undirbúa löggjöf til Alþingis og m.a. er Alþingi að fela fleirum en alþingismönnum og framkvæmdarvaldinu að undirbúa frv. sem lögð verða fyrir Alþingi.

    Ég vek einnig athygli á því að stjórnvöld hafa hafnað því að stjórnarskránni verði breytt. Ég vil út af fyrir sig taka undir það með hæstv. forsrh. sem stundum hefur sagt að það hefði verið skynsamlegt að breyta stjórnarskránni í síðustu kosningum. Það er rétt að þá var komin upp á borðið sú hugmynd að rétt væri að hafa dómstól sem úrskurðaði í deilumálum. Það er einnig rétt að við töldum að það kynni að vera hentugra fyrir okkur Íslendinga en að hafa engan slíkan úrskurðaraðila. En okkur vannst hins vegar ekki tækifæri til þess þá að leita álits lögfræðinga og það er miður. Ef það hefði verið gert hefðum við getað flutt tillögu um breytingu á stjórnarskránni. Því er hins vegar hafnað núna að sú breyting verði gerð og það tel ég vera stórkostleg mistök af hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta.
    Loks er hæstv. ráðherra að fara fram á það að við veitum honum umboð til að staðfesta samning sem verður að landslögum áður en sá samningur liggur fyrir. Ég treysti mér alls ekki til að gera það. Ég verð að segja það, því miður. Þótt samstarf okkar hafi verið ágætt í fyrri ríkisstjórn treysti ég mér ekki til að gefa honum þá traustsyfirlýsingu. Ég hef því komist að þeirri niðurstöðu að vel athuguðu máli að af þessum þremur ástæðum tel ég þetta vera stjórnarskrárbrot: að ekki var samþykkt að breyta stjórnarskránni þannig að heimilt yrði að framselja slíkt vald og að farið er fram á að veita hæstv. ráðherra vald til að takmarka samning sem ég hef ekki séð að öllu leyti. Því hlýt ég að greiða atkvæði gegn þeim samningi sem hér liggur fyrir.