Formleg afgreiðsla EES-samningsins

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 13:58:08 (3550)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Það eru ærin tíðindi sem hér gerast. Ekkert af því sem hér hefur gerst hafði ég hugmynd um en mér óar að þurfa að hlusta á það að t.d. hv. þm. Björn Bjarnason telji að hann geti verið einfær um að dæma í slíku máli. Það hlýtur auðvitað að verða að leita til fróðari og hæfari manna en okkar Björns t.d., ég er nú hæstaréttarlögmaður, en það er náttúrlega með ólíkindum ef neitað er um slíkt. Ég held að það hafi aldrei komið fyrir allan þann langa tíma sem ég hef verið á þingi að slíkri neitun hafi verið komið á framfæri. Og að Lagastofnun Háskólans sé ekki hæfari að meta þetta mál en t.d. ég er auðvitað alveg út í bláinn. Ég skora á hæstv. forseta að fresta málinu og sjá til þess að einhver sæmileg skynsemi og sæmileg háttvísi verði á um afgreiðslu málsins.