Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 18:11:36 (3572)

     Frsm. 3. minni hluta utanrmn. (Ólafur Ragnar Grímsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það var aðeins eitt atriði í ræðu hv. þm. Geirs Haarde sem ég vildi leiðrétta. Hann sagði að málið væri ekki lengur á forræði utanrmn. Það er nokkur misskilningur ef hann telur að svo sé.
    Það sem hefur gerst er það að málið var tekið sérstaklega fyrir í utanrmn. sl. laugardagsmorgun vegna þess að þjóðaratkvæðagreiðslan í Sviss hafði skapað nýja stöðu og það var ákveðið að láta mál bíða í þinginu í síðustu viku vegna þess að í vændum væri ráðherrafundur EFTA um málið. Utanrmn. taldi nauðsynlegt að vinna áfram í málinu og óska eftir sérstakri greinargerð frá sérfræðingum utanrrn. og hugsanlega fleiri lögfræðingum. Síðan kom nefndin saman í gærmorgun til þess að fjalla áfram um málið og þar var skilið við það með þeim hætti að einstakir nefndarmenn töldu að greinargerð sérfræðinga utanrrn. væri fullnægjandi fyrir þá en aðrir nefndarmenn töldu rétt að leitað væri eftir áliti fleiri lögfræðinga. Það er því einfaldlega þannig, hv. þm., án þess að ég ætli að fara að lenda í neinum deilum út af því hér að utanrmn. hefur talið nauðsynlegt að taka málið aftur til umfjöllunar vegna atburðar í Sviss og skoða formlega þætti málsins. Menn geta svo velt því fyrir sér hvað hugtakið forræði þýðir. En það breytir því ekki að utanrmn. er að vinna í málinu, hún hefur ekki hætt vinnu sinni við málið.