Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 00:40:40 (3610)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forseta fyrir þá yfirlýsingu að hann muni beita sér fyrir því að verja málfrelsi þingsins. Fréttatímar á síðasta sólarhring byrjuðu ekki mjög glæsilega í þessum efnum þar sem voru viðtöl við hæstv. forsrh. Hjá honum kom fram að menn hefðu hugleitt að skera niður ræðutíma og takmarka málfrelsi þingmanna. Nú hefur hins vegar risið upp í forsetahópnum af skörungsskap hæstv. forseti Gunnlaugur Stefánsson, hv. 5. þm. Austurl., og lýst því yfir að hann muni verja málfrelsi þingmanna. Ég er sannfærður um það að við öll sem í stjórnarandstöðu erum og við öll sem unnum þingræðinu og Alþingi fögnum því að eiga slíkan skörung í forsetasæti á þessum örlagaríku tímum. Jafnframt vona ég að hæstv. forseti vilji verða við þeirri beiðni, sem ég lagði hér fram í allri hógværð, þótt ég skilji þá skyldu hans að hann verði að verja málfrelsi þingmanna, að hann beiti sér fyrir því að menn setji niður þann tíma þegar hugsanlega lýkur þessari lotu því að svo tekur önnur við síðar á þessum sólarhring þegar menn hafa galvaskir lokið sér af á nefndafundum í hinum ýmsu nefndum þingsins frá kl. 8 í fyrramálið.