Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 01:06:12 (3673)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er ekki nýtt að eitthvað sé rætt um Evrópska efnahagssvæðið. Ég vil minnast á það að þegar málið var fyrst til umræðu í þinginu fyrir um það bil þremur árum þá fóru hér fram þingskapaumræður um þetta mál og stóðu samtals í 38 klukkustundir. Ekki ætla ég að gera athugasemdir við það, átti ekki sæti á þingi þá, en ég býst við því að þeim sem stóðu þá í þingskapaumræðu í 38 klukkutíma um Evrópska efnahagssvæðið fyrir þremur árum hafi þótt rík nauðsyn á að hún færi fram en sú umræða sem nú stendur yfir, 2. umr. um þetta mikla mál, hefur ekki staðið nærri því jafndrjúgan tíma og þingskapaumræðan ein og sér stóð fyrir þremur árum. Ekki veit ég hvort það tengist því að Sjálfstfl. var þá í stjórnarandstöðu en kannski er það svo. Ég vil ekkert hafa uppi neinar fullyrðingar um það, en ég vildi gjarnan harma það, virðulegi forseti, að það skyldi hafa þurft að gera hlé í þingstörfum í klukkustund vegna erfiðleika innan ríkisstjórnarflokkanna við að ná saman niðurstöðu í efnahagsmálum. Það var vissulega ekki af völdum stjórnarandstöðunnar að ekki reyndist unnt að halda fram þingfundi eins og menn höfðu að sjálfsögðu gert ráð fyrir.
    Ég vil einnig nefna það af því að það mátti skilja á hæstv. forsrh. í einhverjum ljósvakamiðlinum að þingmenn stjórnarandstöðunnar beittu stjórnarþingmenn ofbeldi með ræðuhöldum. Vona ég nú að það hafi verið önnur meining en menn þóttust lesa í ummæli hæstv. forsrh. því að eins og menn vita er hann með prúðari mönnum í orðræðum. En mig langaði samt að nefna að þegar um það var samið fyrr á þessu hausti eða fyrir nokkrum vikum að taka þetta mál til 2. umr., að vísu með fyrirvara um afstöðu Sviss eins og allir vita, þá breyttist það samkomulag, þá reiknuðu menn með þremur dögum í 2. umr. og umræðan hefur nú ekki staðið nema nokkurn veginn þann tíma eða tæplega þó sem menn ætluðu sér þá og stjórnarliðar töldu eðlilegt að færi í þá umræðu. Ég vildi vekja athygli á þessu þannig að mönnum væri enginn efi í huga um að umræðan hefur ekki verið með neitt óeðlilegum hætti um þetta gríðarlega viðamikla mál og það má benda á það enn að málsskjöl eru enn að berast. Eins og ég gat um áðan þá komu til okkar nokkrar þúsundir síðna af skjölum, viðaukum með reglugerðum Evrópubandalagsins sem tilheyra þessu máli sem á eftir að þýða að mestu leyti og þó að þingmenn hafi að sjálfsögðu reynt eftir föngum að kynna sér efni þessara reglugerða þá gefur auga leið að á svo skömmum tíma hefur engum manni tekist að lesa það til neinnar hlítar. Og reyndar vakti ég athygli á því að ég gat ómögulega fundið eina reglugerð sem vitnað er til og er það vissulega skaði að mál skuli vera til umræðu án þess að öll málsskjöl sem lögtaka á séu lögð fram í þinginu.
    Ég vil fyrst víkja að frv. sem fyrir liggur í fáeinum orðum og nefna það að í frv., sem er sjálft ekki nema upp á fimm greinar og er lagt til að verði stytt niður í fjórar með því að fella brott 4. gr. frv., verður mér nokkurt umhugsunarefni hver afdrif samningsins verða ef menn greiða atkvæði um hann og hvaða gildi sú atkvæðagreiðsla hefur. Það kemur fram í þessu frv. að það eigi að fullgilda tiltekinn samning milli tiltekinna samningsaðila. Í þeim samningi sem á ekki bara að fullgilda heldur lögtaka er ákvæði um gildistöku í 3. tölul. 129. gr. þess samnings sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Samningur þessi öðlast gildi 1. jan. 1993 að því tilskildu að allir samningsaðilar hafi afhent fullgildingar- eða samþykktarskjöl sín til vörslu fyrir þann dag. Eftir þann dag skal samningurinn öðlast gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir síðustu tilkynninguna. Lokafrestur varðandi þá tilkynningu skal vera 30. júní 1993. Eftir þann dag skulu samningsaðilar boða til ráðstefnu stjórnarerindreka til að meta stöðu mála.``
    Nú er ljóst að einn samningsaðila mun ekki fullgilda þennan samning þannig að þessi samningur mun ekki öðlast gildi. Það leiðir af eðli máls. Það verður því að breyta samningnum. Ég hef haft þann skilning á málinu að þær breytingar sem hæstv. utanrrh. og fleiri hafa verið að tala um að þyrfti að gera kæmi fram í þinginu í formi brtt. við frv. ellegar einhverjum jafngildum hætti. Hins vegar þegar ég skoða gildistökuákvæði frv. sjálft, þá veldur það mér nokkrum heilabrotum að í 5. gr. frv. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði 1. gr. laga þessara öðlast þegar gildi.
    Önnur ákvæði laganna öðlast gildi um leið og EES-samningurinn öðlast gildi að því er Ísland varðar.``
    Þetta er dálítið athyglisvert því að þetta orðalag í frv. er greinilega samið til þess að hafa möguleika á mismunandi gildistíma hjá einstökum samningsaðilum þannig að samningurinn geti öðlast gildi á mismunandi tíma eftir því hvaða lönd eiga í hlut. Það læðist að mér sá grunur eftir ræðu hæstv. utanrrh. í gær að ráðherrann telji sig ekki þurfa að koma inn í þingið með væntanlegar breytingar á samningnum. Ég vildi því spyrja hæstv. ráðherra eða staðgengil hans með hvaða hætti á að koma breytingum fram. Er nægjanlegt að ráðherra gangi frá breytingum og signeri þær og þar með sé samningurinn kominn í gildi hvað Ísland varðar eða þarf að bera málið hingað í þingsali í formi þskj. með einhverjum hætti, brtt. við þetta frv. eða sjálfstætt frv. til þess að samningurinn öðlist gildi hér á landi?
    Ég tel nauðsynlegt að fá alveg á hreint af hálfu hæstv. utanrrh. ellegar formanns utanrmn. með hvaða hætti standa á að því að væntanlegar breytingar, sem menn eru að tala um að verði gerðar, öðlist gildi hér á landi. Ég tel afar þýðingarmikið að það liggi fyrir svo óyggjandi sé með hvaða hætti framvinda málsins verður gagnvart þinginu.
    Því er auðvitað ekki að leyna, virðulegi forseti, þegar jafnviðamikið mál og hér er

um að ræða, sem er upp á mörg þúsund blaðsíður og er í raun og veru margra ára verk að kynna sér til hlítar og reyndar ekki komið fram í þinginu í formi þskj. til enda, fer ekki hjá því að um það hafa menn nokkuð rætt á þeim tíma sem málið hefur verið í undirbúningi og ýmislegt verið skrifað um það af þeim hv. þm. sem eru að búa sig undir það að gefa upp afstöðu sína til samningsins. Ég vildi því rifja upp fáein atriði úr þeim greinaskrifum til að varpa ljósi á afstöðu þeirra þingmanna sem hér eiga í hlut en svo einkennilega vill til, virðulegi forseti, að þessir þingmenn hafa ákaflega lítið tjáð sig um þetta mál og sumir alls ekki neitt. Mér er nokkur undrun í því að hafa tekið eftir því í gær og dag að stjórnarliðar hafa verið á mælendaskrá, tveir frekar en einn, en hafa ekki tekið til máls af einhverjum ástæðum og meira að segja svo að annar þeirra hefur í tvígang látið setja sig á mælendaskrá og átti að vera næstur á undan mér í ræðustóli en mun hafa dregið sig til baka og tjáir sig því ekki um málið, a.m.k. ekki að sinni. Vegna þessarar hógværðar stjórnarþingmanna tel ég kannski ekki síður rétt að rifja upp nokkur atriði til þess að þingheimur verði einhvers vísari um afstöðu þeirra. Þá munu menn sjá að stuðningur við þetta mál er kannski annar og minni en ætla mætti að óreyndu.
    Ég vil fyrst draga fram grein sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 9. mars 1991 eftir hv. þm. Árna Ragnar Árnason. Ég bið forseta að gera þingmanninum viðvart svo að hann megi fylgjast með þegar ég vitna til hans afstöðu um þetta mál og eigi þess kost, ef ekki er því mun harðari andmæli við því að stjórnarþingmenn taki til máls, að skýra mál sitt frekar en fram kemur í þessari grein. Í greininni, sem af einhverjum ástæðum, kannski tilviljun, birtist skömmu fyrir síðustu alþingiskosningar og má líta á sem skilaboð þingmannsins til kjósenda um þá afstöðu sem hann ætlaði að taka í þessu viðamikla máli, segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Að undanförnu hafa viðræður staðið milli EB og EFTA um efnahagssamstarf. Ríkisstjórnin virðist treysta á samningamátt EFTA til að gæta hagsmuna okkar og það að sáttmáli bandalaganna tveggja tryggi lífskjör okkar Íslendinga. Ég treysti okkur sjálfum betur til að fara með okkar eigin hagsmuni. Ég álít að við eigum að taka upp beinar viðræður við EB og ráða af niðurstöðu þeirra hvort við gerumst þar aukaaðilar eða ekki. Hagsmunir hinna EFTA-ríkjanna virðist krefjast margra og ólíkra sérákvæða í samningnum við EB. Það er ekki líklegt til að gera okkar þörfum viðunandi skil heldur til að flækja viðræður. Þá var ástæðulaust að binda okkur við skilmála sem önnur EFTA-ríki kunna að gera. Því tel ég að viðræður okkar við EB muni reynast einfaldari og líklegri til árangurs. Við höfum talið að við getum ekkert látið í samningum. EB sækist fyrst og síðast eftir fiskveiðiréttindum hér við land en ástand nytjastofna okkar gefur ekkert færi á slíku.``
    Ég vil segja það, virðulegi forseti, að ég er alveg sammála þessum hv. þm., sérstaklega þar sem hann segir að hann treysti okkur sjálfum betur til að fara með okkar eigin hagsmuni en EFTA-ríkjunum. Ég er alveg hjartanlega sammála þessu. Ég tel að þarna eigum við stjórnarandstæðingar skoðanabróður sem muni styðja okkar afstöðu til þessa máls. Ég er svo sem ekkert undrandi þó að slíkt komi ýmsum á óvart en stuðningsmenn við þá afstöðu að Íslendingum sjálfum sé best treystandi fyrir eigin málum eru fleiri en margur hyggur við fyrstu sýn.
    Þá vil ég víkja að öðrum þingmanni sem er hv. þm. Björn Bjarnason og bið ég forseta um að honum verði gert viðvart ef hann er í húsinu svo að hann megi heyra þessar tilvitnanir og geti brugðist við þeim ef hann kysi svo. Þingmaðurinn segir eftirfarandi um þennan samning í Morgunblaðinu þriðjudaginn 16. apríl 1991, með leyfi forseta:
    ,,Þeir sem hafa kynnt sér umræðurnar um EES og þær vonir sem bundnar eru við samningaviðræður EFTA og EB í ríkisstjórnum EFTA-landanna (utan Íslands?) vita að þar líta menn á EES sem fyrsta og annað skrefið inn í Evrópubandalagið.`` Enn fremur segir í þessari blaðagrein, með leyfi forseta:
    ,,EES-samningsgerðin er skipulegasta átak sem gert hefur verið til að opna Íslandi og öðrum EFTA-ríkjum leið inn í Evrópubandalagið.``
    Ég vil taka undir þessi orð þingmannsins. Ég lít málið sömu augum og hv. þm. Björn Bjarnason og tel að ekki þurfi svo ýkjamikinn rökstuðnng umfram það sem fram

kemur í greininni sjálfri til stuðnings þessu mati þingmannsins. Að lokum í þriðju tilvitnun minni í þessa sömu grein segir hv. þm. Björn Bjarnason, með leyfi forseta:
    ,,Við þessar kosningar á að beina athyglinni að samningsgerðinni um Evrópska efnahagssvæðið sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur alfarið haft á sinni könnu og ráðherrarnir eru teknir til við að rífast um eins og allt annað. Þessi samningur opnar leið inn í EB ef við kjósum að fara hana.``
    Þá vil ég vitna til viðtals við hv. 3. þm. Vestf. sem birtist í þessu sama blaði, Morgunblaðinu, þriðjudaginn 16. apríl 1991, með leyfi forseta. Fyrirsögn greinarinnar er: Eigum að hefja tvíhliða viðræður við EB um lækkun tolla, segir Einar K. Guðfinnsson:
    ,,Íslendingar eiga að hefja tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið um lækkun tolla á fiskafurðum, enda höfum við öll tromp á hendi til að ná hagkvæmum samningum, telur Einar K. Guðfinnsson, framkvæmdastjóri í Bolungarvík. ,,Mín stefna í þessu máli er alveg klár og skýr. Sjálfstfl. mótaði á sínum tíma þá afstöðu að leita eftir tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið um lækkun á tollum á fiskafurðum. Við þá stefnumörkun var haft í huga að verið væri að taka á því sem þýðingarmest væri fyrir okkur Íslendinga.````
    Enn fremur segir þingmaðurinn, með leyfi forseta: ,,Ég held að við höfum öll tromp á hendi til að ná hagstæðum samningum. Evrópuþjóðirnar eru orðnar háðar okkar fiskafurðum og ég held að þörf þeirra fyrir hagkvæma og skynsamlega samninga sé ekki minni en okkar.``
    Enn verð ég að segja að ég er sammála þingmanni úr stjórnarliðinu sem hefur tjáð sig um þetta mál. Ég hef reyndar ítarlegri útskýringar hv. 3. þm. Vestf. um afstöðu hans í þessu máli og vildi gjarnan reiða þær fram við umræðuna. Þar vil ég fyrst nefna til grein í blaði sem heitir Vesturland og kom út 26. febr. 1991. Þar segir í greininni um þetta mál sem ber yfirskriftina: Sjálfstæðisflokkurinn vildi tvíhliða samninga við EB, með leyfi forseta:
    ,,Af þessu sést að þátttaka okkar í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði hlýtur að teljast afdrifarík. Við erum að taka þátt í samningaviðræðum sem munu með margvíslegu móti gerbreyta öllu samfélagi okkar. Það hefur jafnvel verið talað um að munurinn á því að ganga inn í væntanlegt Evrópskt efnahagssvæði og að ganga í EB sé stigsmunur en ekki eðlismunur. Um það geta menn vissulega þráttað. En hitt er ekki ofmælt að segja að þessar samningaviðræður geta orðið mjög afdrifaríkar og kunni að kollvarpa mörgu í okkar þjóðfélagi.``
    Þá vitnar greinarhöfundur í sérfróðan mann á sviði lagaréttar sem nýtur mikils álits hjá þeim sem sitja við þann vegg sem er að baki mér, sem er dr. Gunnar G. Schram lagaprófessor. ( Gripið fram í: Sjálfur Gunnar G. Schram?) Sjálfur Gunnar G. Schram. Minnir greinarhöfundur á að umræddur prófessor hafi ritað eftirtektarverða grein í Morgunblaðið 26. jan. þar sem hann segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Með aðild að EES samþykkja EFTA-ríkin mjög verulegan hluta Rómarsamningsins en hann er grundvallarlög Evrópubandalagsins. Með því eru þau í mörgum þýðingarmiklum efnum komin á sama bát og EB-ríkin og lúta sömu lögum og þau.``
    Enn fremur segir, með leyfi forseta:
    ,,Það er borðliggjandi að viðræður EFTA og EB sem Íslendingar eru aðilar að munu fela í sér valdaafsal Íslendinga. Undan því verður ekki vikist. Menn geta kallað þetta óþjóðlega stefnu eða þjóðlega. Það fer eftir smekk en um efnisatriði málsins geta menn ekki deilt. Til þess eru þau of krítarklár og jafnframt það að Framsfl. hefur lagt blessun sína yfir þetta með forustuhlutverki sínu í ríkisstjórn sem tekur þátt í þessu viðræðum fyrir hönd Íslands.``
    Þarna kemur fram alveg skýrt mat hv. 3. þm. Vestf. að viðræður EFTA og EB fólu í sér valdaafsal. Það er augljós meining þingmannsins að honum líkar þetta ekki og er ekki sammála gjörningi af þessu tagi.
    Þá rekur þingmaðurinn þá afstöðu sína og Sjálfstfl. að menn eigi að snúa sér að tvíhliða viðræðum og leggur fram nokkur rök því til stuðnings. Í fyrsta lagi að við séum háðari fríverslun með fisk en aðrar þjóðir EFTA. Í öðru lagi sé ólíklegt að EB fallist á fríverslun með fisk sem algilda reglu og sé því líklegra til að knýja þá til að semja um undanþágu frá þeirri reglu sinni ef við séum einir á báti sem smáþjóð. Í þriðja lagi sé mótsögn fólgin í því að vera innan EFTA og draga þar fram hagsbætur fyrir okkur og Norðmenn líka þannig að við séum að veikja samkeppnisstöðu okkar gagnvart Norðmönnum með því að vera að draga EFTA hjólið áfram í þessum viðræðum.
    Síðan segir í greininni, sem er allítarleg, undir millifyrirsögninni ,,Afstaða sjávarútvegsins``, með leyfi forseta:
    ,,Sagan er miskunnarlaus dómari. Nú er vitaskuld komið á daginn að sjálfstæðismenn höfðu á réttu að standa. Samningar á vettvangi EFTA/EB viðræðna eru komnir skammt á veg hvað varðar okkar helsta hagsmunamál. Við höfum tapað tíma og eigum enn mjög undir högg að sækja. Það er heldur varla tilviljun að hagsmunaaðilar, samstarfsnefnd hagsmunaaðila í sjávarútvegi, hafa komist að sömu niðurstöðu, að brýnast sé fyrir okkur Íslendinga að vinna að okkar hagsmunamálum með beinum viðræðum sem leitt geti til áþreifanlegs árangurs. Í þessu máli fara sjónarmið Sjálfstfl. og atvinnulífsins saman og er gott til þess að vita.``
    Það er dálítið merkileg tilviljun að þegar Sjálfstfl. var á móti viðræðum EB/EFTA og vildi tvíhliða viðræður, þá var atvinnulífið á sömu skoðun og Sjálfstfl. Núna þegar Sjálfstfl. er kominn í ríkisstjórn og hefur ekki bara brotið í blað í afstöðu sinni, eins og hæstv. forsrh. segir gjarnan, heldur snúið við blaðinu, þá er atvinnulífið líka á sömu skoðun. Það er eins og atvinnulífið sé deild í Sjálfstfl. sem ungi út sínum skoðunum í takt við það sem kallað er eftir úr herbúðum Sjálfstfl. En látum það kyrrt liggja að sinni.
    Þá er enn viðtal við hv. 3. þm. Vestf. því hann var afar duglegur við að koma skoðun sinni og flokks síns á framfæri fyrir kosningar til þessa máls. Tel ég það mjög virðingarvert af hans hálfu að leggja sig mjög fram um það í svo þýðingarmiklu máli að þjóðin og kjósendur væru ekki í neinum vafa um það hver væri afstaða Sjálfstfl. og hv. 3. þm. Vestf.
    Í sama blaði, Vesturlandi, birtist 5. apríl 1991 viðtal við þingmanninn. Í því er farið yfir afstöðuna til Evrópubandalagsins og langar mig að vitna í stuttan kafla í því viðtali. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ég hef á þessu máli afar ákveðna skoðun. Í sem stystu máli er ég þeirrar skoðunar að við verðum allra hluta vegna að tryggja að aðgangur okkar sjávarafurða og annarrar framleiðslu inn á EB-markaðinn sé hindrunarlaus og án tolla. Þetta er mikilvægasta markaðssvæði okkar og við höfum ekki efni á því að vera án þess.``
    Þarna koma fram áhersluatriði sem ég get enn lýst yfir að ég er sammála og fer ég nú að vera æði oft sammála hv. þm. Sjálfstfl., a.m.k. þeirri afstöðu sem þeir gáfu upp fyrir síðustu alþingiskosningar, að það sem menn setja fram að verði að tryggja sé hindrunarlaus aðgangur og án tolla.
    Enn fremur segir í þessu viðtali, með leyfi forseta:
    ,,Okkar afstaða er alveg klár og skýr. Við munum ekkert aðhafast í sambandi við EB sem skerðir sjálfsákvörðunarrétt okkar og þjóðerni. Við erum ekki til tals um eitt eða neitt sem rýrir aðgang okkar að eigin fiskimiðum eða gefur útlendingum heimild til þess að nýta þau.``
    Þetta er líka afdráttarlaust og rétt að hnykkja á því sem fram kemur að ekki bara þingmaðurinn heldur talar hann fyrir Sjálfstfl. allan, hann er að skýra afstöðu flokksins, er ekki til viðtals um eitt eða neitt sem rýrir okkar aðgang að eigin fiskimiðum eða gefur útlendingum heimild til að nýta þau.
    Það er alveg augljóst mál að þingmaður sem hefur svona afdráttarlausa skoðun hlýtur a.m.k. að greiða atkvæði gegn sjávarútvegssamningnum, annars væri hann ekki samkvæmur sjálfum sér og annað er ekki heiðarlegt gagnvart kjósendum.
    Þá er hér enn mönnum til fróðleiks grein sem birtist í Dagblaðinu fimmtudaginn 18. apríl 1991 eftir hv. 3. þm. Vestf. og þarf í sjálfu sér ekki að sítera greinina en hún er . . .  ( Gripið fram í: Hver er 3. þingmaður Vestf.?) Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Þar koma fram og eru ítrekuð sömu viðhorf og sömu röksemdir og vakin athygli á því að samningurinn, ef af verður, muni hafa gríðarlegar breytingar á stjórnarfarslega stöðu íslenska ríkisins.
    Þá vil ég víkja að þriðja þingmanni innan raða Sjálfstfl. sem tjáði sig með mjög skilmerkilegum hætti um þetta mál fyrir síðustu alþingiskosningar. (Gripið fram í.) Það má vera að það sé sá fjórði. Ég er ekki viss um það. Jú, það eru komnir þrír. Það er rétt. Ég er kominn í þann fjórða úr þessum þingmannahópi, sem er hv. þm. Tómas Ingi Olrich. Bið ég forseta að gera honum viðvart því ég ætla að vitna í grein eftir hann þannig að hann eigi þess kost að grípa til svars ef leyfi fæst til þess að hann megi stíga í ræðustól en hann hefur í tvígang sett sig á mælendaskrá en jafnoft hrokkið út af henni aftur. Ég sé því að það er nokkuð harðsótt fyrir þingmenn Sjálfstfl. að tolla inni á mælendaskránni. Þetta er eiginlega satt að segja, virðulegi forseti, hálf ofbeldiskennd lýsing án þess það hvarfli nokkuð að mér að halda því fram að eitthvað hindri þingmanninn í því að fá að tala, þó ekki væri nema stutta stund. (Gripið fram í.) Mér finnst það mjög ósennilegt, hv. frammíkallandi, og þetta er eiginlega ósmekkleg athugasemd.
    Í þessari grein sem birtist í Morgunblaðinu 18. apríl 1991 er hv. þm. Tómas Ingi Olrich að ræða við framsóknarmenn en gefur í leiðinni upp ákveðna grundvallarafstöðu hvað hann varðar. Í fyrsta lagi tekur hann fram að hann sé andvígur því að hleypa útlendingum inn í aðalauðlind þjóðarinnar sem eru fiskimiðin. Í öðru lagi segir hann í þessari grein, með leyfi forseta:
    ,,Ég tek það skýrt fram að ef ég verð kosinn til starfa á Alþingi Íslendinga mun ég aldrei samþykkja að útlendingar fái sama rétt til að kaupa land hér og við Íslendingar. Hér er um grundvallaratriði að ræða.``
    Nú hefur mér sýnst að svo miklu leyti sem ég hef þekkingu á þessum samningi að hann sé þannig úr garði gerður að það sé grundvallaratriði í samningnum að um sama rétt sé að ræða milli Íslendinga og útlendinga til að kaupa hér land og teldi nokkurn feng að því ef hv. 5. þm. Norðurl. e. vildi rökstyðja hvernig hann telur sig geta skrifað upp á nál. meiri hluta utanrmn. án þess að ganga á þessa afstöðu sína sem hann gefur upp sem grundvallaratriði. Þar kunna að vera skýringar sem mér hafa yfirsést og væri að mínu viti mjög nauðsynlegt að þingmaðurinn ræddi þetta atriði og sýndi þingheimi fram á að þetta grundvallaratriði hans, sem hann gaf svo skilmerkilega fram gagnvart sínum kjósendum, sé virt í hvívetna.
    Þá vitna ég enn til þingmanns úr röðum Sjálfstfl. sem er væntanlega sá fimmti sem um þetta mál tjáði sig með mjög afdráttarlausum hætti. Það er hv. 1. þm. Vestf. Í viðtali við blaðið Vesturland, sem birtist 25. mars 1991, segir hann eftirfarandi aðspurður um Evrópumálin, með leyfi forseta:
    ,,Ég er nú með ansi langa reynslu af samskiptum við Efnahagsbandalagið. Kannski meiri reynslu en nokkur annar sem nú er á þingi. Þeir sem hafa helst verið fylgjandi inngöngu í Efnahagsbandalagið eru annaðhvort á leiðinni af þingi eða gengnir til feðra sinna. Efnahagsbandalagið hefur sótt mjög á. Í fyrsta lagi varðandi fiskveiðiheimildir hjá okkur Íslendingum.
    Á þeim árum sem ég var sjútvrh. og Einar heitinn Ágústsson utanrrh. komu fulltrúar EB hingað oftar en einu sinni og sóttu á um veiðheimildir. Þá hafði verið gerður tollasamningur við þá sem við höfum kallað bókun 6 sem fól í sér mjög miklar tollaívilnanir í viðskiptum okkar við EB. Nú hafa verið uppi raddir um það að EFTA-ríkin gangi í EB. Þau EFTA-ríkin eru ólík okkur. Þau hafa fjölbreyttan útflutning og fábreyttan innflutning öfugt við okkur. Þess vegna eru fiskveiðihagsmunirnir okkur svo mikils virði. Fiskstofnarnir eru fullnýttir og við þyrftum að geta framleitt meira en við getum það ekki. Þar af leiðandi er útilokað að ljá máls á því að hleypa þjóðum EB inn í fiskveiðilögsögu Íslendinga.``
    Enn fremur segir, með leyfi forseta: ,,Mín skoðun er sú að við eigum að leita eftir tvíhliða samningaviðræðum um nýjan tollasamning.`` --- Og eru þá komin meginatriðin sem fram komu í viðtali þingmannsins varðandi afstöðuna til Evrópumálanna.
    Hann minnir á að heimurinn er stærri en Evrópa og að menn eigi að leita til allra

átta að mörkuðum og minnir m.a. á Bandaríkin og Japan.
    Af þessu er ljóst, virðulegi forseti, að báðir þingmenn Sjálfstfl. í Vestfjarðakjördæmi geta ekki stutt þennan samning. Það liggur alveg kristaltært fyrir eða eins og segir í viðtalinu við hv. 3. þm. Vestf., það er alveg klárt og kvitt. Leikur ekki nokkur vafi á því að samninginn geta þeir ekki stutt, hljóta trúlega að greiða atkvæði á móti honum og örugglega á móti fiskveiðisamningnum.
    Í þessari yfirferð hef ég talið upp fimm þingmenn Sjálfstfl. sem ekki með nokkru móti geta stutt þennan samning ætli þeir að vera samkvæmir sjálfum sér. Þegar þeir eru taldir saman ásamt þeim þingmönnum öðrum úr Sjálfstfl. sem lýst hafa andstöðu við samninginn þá fæ ég ekki út annað en a.m.k. sjö þingmenn Sjálfstfl. muni greiða atkvæði gegn samningnum. Og fer þá mjög að sneyðast um stuðning við þennan samning.
    Það er annað sem er nokkurt lærdómsatriði úr þessum tilvitnunum að menn eru kannski ekki svo ósammála þegar á botninn er hvolft. Þegar gætt er að afstöðu manna eins og hún er látin uppi, þá falla skoðanir manna kannski í svipaðan farveg sem er sá að fiskimiðin eru ekki föl fyrir nokkurn hlut og að samningaviðræður milli EFTA og EB verða að tryggja hindrunarlausan aðgang fyrir sjávarafurðir inn á þann markað, algjört tollfrelsi, til þess að unnt sé að líta við samningum af þessu tagi.
    Nú kynnu einhverjir að segja sem svo: Það er nokkuð ljóst að menn ætla ekki að standa við þessar yfirlýsingar sínar. En ég er ekki alveg tilbúinn að taka undir efasemdaraddir í þeim dúr að þingmenn Sjálfstfl. muni í atkvæðagreiðslu um þetta mál gefa upp aðra afstöðu en þeir gáfu upp gagnvart kjósendum á sínum tíma. Ég vil leiða fram þeirri skoðun til stuðnings að þingmenn Sjálfstfl. muni standa við sína skoðun engan annan en varaformann Sjálfstfl., hæstv. fjmrh. Fimmtudaginn 18. apríl 1991, tveimur dögum fyrir síðustu kosningar, lýsir hann Sjálfstfl. þannig að fólki sé það ljóst að þar sé á ferðinni áreiðanlegur flokkur sem hægt er að taka mark á. Í greininni segir, með leyfi forseta:
    ,,Á landsfundum flokksins er stefnan endanlega mótuð og samþykkt. Um 1.400 fulltrúar hvaðanæva að af landinu sóttu landsfund Sjálfstæðisflokksins í síðasta mánuði. Á fundinum störfuðu 20 málefnahópar sem tóku drög málefna nefndanna til efnislegrar meðferðar. Endanleg drög voru síðan rædd í almennum umræðum, atkvæði greidd um fram komnar breytingartillögur og loks voru tillögurnar samþykktar og gerðar að ályktunum landsfundarins.
    Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem getur státað af slíkum vinnubrögðum við stefnumótun. Sjálfstæðismenn leggja áherslu á lýðræðisleg vinnubrögð, enda er flokkurinn fjöldahreyfing sem á sér rætur meðal frjálslyndra Íslendinga.``
    Í ljósi þessara yfirlýsinga varaformanns Sjálfstfl. er ekki hægt að efast um að flokkurinn muni standa við sína stefnu sem hann mótaði á sínum landsfundi og þá stefnu hef ég rakið í öðrum ræðum fyrr á þinginu. Þeir þingmenn sem ég vitnaði til munu að sjálfsögðu standa við skoðanir þær sem þeir létu í ljós í þeim greinum sem ég vitnaði til, enda voru þær skoðanir samhljóða stefnumörkun flokksins.
    Enn vil ég minna á það sem menn hafa látið frá sér fara um þetta mál áður til að sýna fram á það að menn eru kannski ekki eins ósammála og ætla mætti eftir yfirlýsingar manna síðustu daga. Ég vil nefna hér tvær greinar sem ég vitnaði til eftir hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur undir fyrirsögninni: ,,EB eitthvað fyrir okkur?`` Í þeim greinum kemur ýmislegt fram sem ég er afar sammála þingmanninum um og vildi gjarnan minna á þau atriði því það eru m.a. atriði sem ráða því að ég hef ákveðið að leggjast gegn þessum samningi. Það væri gott, virðulegur forseti, ef hægt væri að koma boðum til hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar þannig að hún mætti vita að nú væri verið að vitna til hennar greinarskrifa svo hún gæti brugðist við ef hún kýs svo.
    Í Morgunblaðinu miðvikudaginn 13. mars 1991 segir þingmaðurinn um viðræðurnar um Evrópska efnahagssvæðið að það svæði sé ekkert annað en biðsalur að EB. Hún segir, með leyfi forseta: ,,Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu eru Íslendingar að hefja aðlögun sína að EB og margt bendir til þess að skrefið inn í það allra heilagasta sé ekki eins langt undan og margir vilja vera láta.``

    Ég vil taka undir þessi aðvörunarorð þingmannsins. Ég hef því miður sömu efasemdir og hv. þm. Ingibjörg Sólrún um að það sé kannski skemmra í það að menn kveði upp úr með vilja sinn, bæði leynt og ljóst, um aðild að EB en ætla mætti.
    Enn fremur segir í þessari ágætu grein í kafla sem fjallar um frelsi fjármagnsins, með leyfi forseta:
    ,,Það vekur því nokkra furðu þegar menn halda því fram að frjálst flæði fjármagns milli Íslands og EB verði til að bæta hag Íslendinga. Því miður bendir allt til þess að jaðarsvæði innan bandalagsins muni verða illa úti, fjármagn flæða þangað sem það er fyrir, stórfyrirtækin stækka og smáfyrirtækjum fækka.``
    Þetta hygg ég að sé afar skarplega athugað. Á þessu svæði, sem menn ætla sér að koma á laggirnar, er það þannig að jaðarinn er ákaflega veikur. Ég óttast að sú þróun muni ríða yfir okkur að þetta svæði hraði enn frekar en verið hefur þeirri öfugþróun sem verið hefur á landsbyggðinni.
    En meira um það síðar. Þá segir í síðari hluta greinarinnar sem birtist daginn eftir, miðvikudaginn 14. mars, eftirfarandi, með leyfi foresta:
    ,,Í stefnuskrá sinni tekur Kvennalistinn afstöðu gegn inngöngu Íslands í EB. Við höfum líka séð ástæðu til að gjalda varhug við þeirri aðlögun að bandalaginu sem fylgir Evrópska efnahagssvæðinu. Ástæðan er einföld. Við höfum ekki heyrt nein sannfærandi rök fyrir því að það sé Íslendingum, hvað þá íslenskum konum, til hagsbóta að ganga inn í EB. Þá teljum við að á EB og Evrópska efnahagssvæðinu sé stigsmunur en ekki eðlismunur.
    Hér að framan hef ég reynt að varpa ljósi á sitthvað sem lítill gaumur hefur verið gefinn í umræðunni um EB. Ég hef reynt að sýna fram á að málið snýst ekki bara um fjármagn heldur líka fólk. Í EB lýtur allt að einu lögmáli, lögmáli markaðarins. Það sem ekki er hægt að sveigja undir þetta lögmál er látið liggja á milli hluta og þar á meðal eru þættir sem eru miklir áhrifavaldar í lífi kvenna.``
    Þetta voru, virðulegur forseti, nokkrar tilvitnanir í skoðanir nokkurra hv. þm. sem fram komu á sínum tíma um afstöðuna til þessa máls. Ef það reynist, sem ég ætla að vona, að þingmenn standi við þær skoðanir sem þeir settu fram gagnvart sínum kjósendum fáum dögum áður en kosið var er alveg augljóst mál og ég er þess alveg fullviss að það er enginn þingmeirihluti fyrir því að samþykkja þennan samning.
    Spurningin sem menn kunna að spyrja sig er svo aftur sú hvort menn muni greiða atkvæði í samræmi við þá skoðun sem þeir settu fram þegar þeir þurftu að leita til kjósenda eða hvort þeir muni láta önnur sjónarmið ráða sinni afstöðu. Ef svo hörmulega ætlar að verða er nauðsynlegt að láta það koma skýrlega fram og að þeir þingmenn geri þá grein fyrir ástæðunni.
    Þá eru nokkur efnisatriði í málinu sem ég tel nauðsynlegt að víkja að. Ég hef markað mál mitt þannig að velja út úr nokkra málaflokka svo ekki sé verið að endurtaka það sem fram hefur komið hjá öðrum þingmönnum eða ítreka um of skoðanir sem þingmenn úr mínum flokki hafa sett fram í þessu efni. Til að greiða fyrir umræðum á þinginu mun ég taka fyrir afmörkuð efni, fjalla um þau og skýra afstöðu mína til þeirra atriða.
    Það fyrsta sem ég vildi minna á er iðnaðurinn. Eins og mönnum er kunnugt hefur iðnaðurinn búið við fríverslun nokkuð lengi, reyndar síðan 1970, ef ég man rétt. Og e.t.v. er nokkuð til í því að sú fríverslun sem menn tóku upp á þeim tíma hvað varðar iðnað hafi nýst landsmönnum að einhverju leyti í formi lægra vöruverðs á innflutningi og þar með meiri kaupmætti og skal ekki gera lítið úr því. Á hinn bóginn er rétt að minna á að eitt af markmiðunum með inngöngu Íslands í EFTA á sínum tíma var að styrkja iðnaðinn. Menn sáu fyrir sér á þeim tíma að fjöldamargir Íslendingar mundu koma út á vinnumarkaðinn á næstu tveimur áratugum eða svo og það þurfti einhvern atvinnuskapandi iðnað eða atvinnugrein til að taka við því unga fólki. Menn sáu fyrir sér mikla möguleika á því að með þessum samningi gæti iðnaðurinn orðið sá vaxtarbroddur í atvinnulífinu sem tæki við hinum vinnufúsu höndum komandi kynslóðar.
    Því miður varð reyndin önnur hvað varðar iðnaðinn og vægi iðnaðarvara í útflutningi landsmanna var minna á síðasta ári en það var áður en við gengum í EFTA. Og iðnaðurinn tók hlutfallslega við færra fólki eða veitti hlutfallslega færri ársverk á vinnumarkaðnum í fyrra en hann gerði fyrir rúmum tveimur áratugum. Því miður var það því þannig að sóknarfærin skiluðu sér aldrei í neinum raunverulegum ágangri hvað iðnaðinn varðar.
    Menn hafa velt því fyrir sér hvort þessi samningur um Evrópska efnahagssvæðið sé það sem iðnaðinn skorti á sínum tíma og veiti þau tækifæri sem menn telja að eigi að felast í gagnkvæmni samningsins, þ.e. að ekki bara við veitum réttindi inn á okkar markað heldur fáum við réttindi í hinum stóra markaði Evrópumanna upp á 370--380 millj. manna. Það hefur verið aðeins athugað hvaða möguleikar liggja í þessu og í skýrslu Þjóðhagsstofnunar sem var gefin út um þetta efni og nefnist: ,,Íslenskur þjóðarbúskapur og Evrópska efnahagssvæðið`` eru dregin saman atriði hvað varðar iðnaðinn í örfáum orðum. Þar kemur fram í fyrsta lagi að athugun á samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar leiði í ljós að staða íslenskra fyrirtækja sé frekar veik og íslenskur iðnaður ekki vel í stakk búinn til að standa sig vel í samkeppninni við Evrópufyrirtækin og því miður sé ekki þess að vænta að þar séu stórfelldir vinningar innan seilingar. Samandregin áhrif af samningum um breytingar á viðskiptamarkaði innan Evrópubandalagsins og reyndar samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eru þau að fyrir þjóðarbúið í heild sé um viðskiptakjarabata að ræða með því að Evrópubandalagsþjóðirnar taki upp Maastricht-sáttmálann og hinn innri markað sem geti gróflega verið um 0,5--1% af vergri landsframleiðslu. Síðar segir, sem er dálítið athyglisvert og menn hafa kannski ekki tekið eftir sem skyldi, með leyfi forseta:
    ,,Rétt er að ítreka að þessi áhrif koma að sjálfsögðu fram hvort sem Íslendingar gerast aðilar að EES eða ekki.``
    Þessi áhrif fyrir þjóðarbúið í heild við breytingu á innri markaði EB koma fram hvort sem við verðum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði eða ekki. Við njótum góðs af þessum áhrifum hvort sem er. Það er því ekki skilyrði fyrir þessum ávinningi, sem er metinn hér á 0,5--1% af vergri landsframleiðslu, að við séum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði.
    Þetta kemur fram á bls. 48 í skýrslunni sem ég gat um og ætti að verða mönnum nokkurt umhugsunarefni varðandi þær fullyrðingar sem ítrekað eru settar fram, m.a. af hæstv. utanrrh., að ávinningurinn felist í þessum EES-samningi og án hans séum við býsna illa í stakk búin.
    Þá vildi ég minna á það, virðulegur forseti, sem ég hef minnt á áður að hvað iðnaðinn varðar er það niðurstaða skipasmíðaiðnaðarins að samningurinn sé gagnslaus fyrir skipasmíðaiðnaðinn. Það kemur skýrt fram í Fréttabréfi Landssambands iðnaðarmanna að þessi samningur sé gjörsamlega gagnslaus fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað. Það er gerð rækileg grein fyrir þessari afstöðu Landssambands ísl. iðnaðarmanna gagnvart skipasmíðaiðnaði í þessu tölublaði, sem gefið var út fyrr á þessu ári, á bls. 4 og rökstutt hvers vegna þetta sé niðurstaðan. Það er í stuttu máli að ríkisstyrkirnir munu verða við lýði áfram í EB-löndunum og því sé samkeppnisstaða íslensks skipasmíðaiðnaðar nákvæmlega jafnslæm eftir EES-samninginn og hún er nú. Þar sé því ekki um nokkurn ávinning að ræða.
    Því hefur mér fundist dálítið undarlegt og jafnvel hlálegt, virðulegur forseti, að horfa upp á það í auglýsingum í fjölmiðlum, m.a. frá þessum ágætu samtökum, Landssamtökum ísl. iðnaðarmanna, svo ekki sé talað um Málm, sem eru samtök fyrirtækja í málm- og skipasmíðaiðnaði, áskoranir á þjóðina og þingmenn um að samþykkja samninginn um EES sem þessi sömu samtök eru búin að gefa út í sérstöku blaði að sé gjörsamlega gagnslaus. Ég held að menn hafi kannski ekki áttað sig á því að hvað valdi því að menn eru í öðru orðinu að segja: Þetta er gagnslaust og í hinu orðinu: Við skorum á ykkur að samþykkja samninginn. Þessi málflutningur þessa geira atvinnulífsins hefur vafist dálítið fyrir mér.
    Ég hefði talið vel við hæfi að hæstv. iðnrh., sem mun vera nálægur í þessari umræðu, gerði grein fyrir stöðu iðnaðarinns og sérstaklega skipasmíðaiðnaðarins við inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið ef af því verður einhvern tímann. Eins og menn hafa mátt sjá sem hafa fylgst með fréttaflutningi á undanförnum mánuðum hefur þessi atvinnugrein staðið afar höllum fæti og fyrst og fremst vegna þess að íslenskir aðilar, sjávarútvegur, hefur kosið í þrengingum sínum að versla við ríkisstyrktar skipasmíðastöðvar í Evrópu sem

hafa boðið íslensku fyrirtækin í raun og veru út af markaðnum í skjóli ríkisstyrkjanna.
    Annars vekur þetta upp hugleiðingar um þá auglýsingaherferð sem stendur yfir í fjölmiðlum. M.a. sér maður hana fyrir fréttatíma sjónvarpsins þar sem eru birtar myndir af atvinnuleysi eins og það er í dag og ýmis samtök skora á menn að velja íslenskt því það skapi atvinnu og dragi úr atvinnuleysi. Ég er alveg hjartanlega sammála þessari auglýsingaherferð hvað þetta varðar og tel að það sé rétt ábending að Íslendingar eigi eftir föngum að velja íslenskt fram yfir erlent og skapa störf hér í landi og draga úr atvinnuleysi, ekki er vanþörf á. En hitt vefst dálítið fyrir mér að skilja málflutning sumra samtaka í atvinnulífinu sem m.a. standa að þessari auglýsingaherferð. Á sama tíma eru þau að skora á okkur að samþykkja þennan samning sem byggir á þeirri hugmyndafræði að menn eigi ekki að velja eftir þjóðerni, hvorki vöru, þjónustu eða annað. Menn eigi að kaupa skóna þar sem þeir eru ódýrastir. Ef þeir eru ódýrari frá Portúgal en Akureyri þá eigi menn að kaupa þá frá Portúgal. Það er grundvallaratriði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það er öll forsendan að útreikningum um þjóðhagslegan ávinning og þjóðarinnar í þessu mikla lotteríi að menn velji það sem er ódýrast og opni land sitt fyrir ódýrri vöru og þjónustu sem fer þá í samkeppni við innlenda vöru og þjónustu sem er dýrari og þrýsti verðinu niður. Það er grundvallaratriðið í röksemdarfærslunni fyrir þessu svæði. Menn eru að ganga gegn þeirri grundvallarforsendu þegar menn síðan hrinda af stokkunum auglýsingaherferð sem skorar á menn að virða þá forsendu að vettugi á sama tíma og við fáum áskoranir um að standa að því með því að samþykkja samninginn. Hér er um að ræða svo órökréttar áskoranir á hendur þingmönnum að menn verða náttúrulega að láta íslenska hagsmuni ganga framar þessu áhugamáli um Evrópska efnahagssvæðið og taka þá afstöðu sem tryggir okkar hagsmuni sem best og ekki hvað síst dregur úr atvinnuleysi sem því miður hefur farið allt of mikið vaxandi og allt of hratt undir efnahagsstjórn núverandi ríkisstjórnar.
    Þetta vildi ég nefna, virðulegi forseti, hvað varðar almenn áhrif samningsins á efnahagslíf hér á landi og stöðu íslensks iðnaðar varðandi þennan samning.
    Ég sé ekki að miklum hagsmunum sé fórnað þó þessi samningur taki ekki gildi hvað varðar íslenskan iðnað eða þann ávinning sem við eigum að njóta. Ég vitnaði áður til skýrslu frá Þjóðhagsstofnun sem upplýsti okkur um að við nytum þessa ávinnings af sameiginlega markaðinum í Evrópu hvort sem við værum aðilar að EES eða ekki.
    Þá vil ég, virðulegi forseti, víkja að því máli sem hefur að nokkru leyti komið í minn hlut að fylgjast með sem er sá þáttur fjórfrelsisins sem fjallar um atvinnu- og búseturétt.
    Ég hef haft uppi nokkrar spurningar um þetta mál og dregið fram þær ályktanir sem ég hef talið mig geta séð út úr samningnum. Því miður hafa svör verið afar fátækleg fram til þessa og við þeim spurningum, sem ég hef borið fram í málinu, hvort heldur það var við 1. umr. þessa máls til hæstv. utanrrh. eða í fylgifrv. við þennan samning sem lagt var fram af hæstv. félmrh., hef ég ekki fengið svör. Ég tel óhjákvæmilegt að vekja athygli á þeim á nýjan leik, þannig að það liggi fyrir að ekki hafa fengist svör við grundvallarspurningum hvað þetta frelsi varðar.
    Það er rétt að rifja það upp að um frelsi launþega er fjallað í þriðja hluta samningsins, í greinum 28 til 30. Ég hef fyrst og fremst velt fyrir mér tveimur atriðum. Það er í fyrsta lagi hvaða áhrif frelsi launþega til farar milli landa muni hafa á íslenska verkalýðshreyfingu og stöðu hennar og í öðru lagi hversu víðtækur þessi réttur launþega er, því það er nauðsynlegt ef menn eru að gera samninga að gildissvið samningsins sé vel afmarkað. Það kemur fram í 28. gr. þessa samnings, virðulegi forseti, að um frelsi launþega gildi almennt ákvæði nema þar sem 4. tölul. töluliður á við, þ.e. störf í opinberri þjónustu. Þau störf eru undanþegin ákvæði samningsins um frjálsa för launþega milli landa innan þessa svæðis. Ég hef spurt, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar, og ekki bara einn ráðherra heldur tvo, hvaða störf eru það sem eru undanþegin þessu fjórfrelsi um frjálsa för launþega. Ég hef ekki fengið nein svör. Í 4. tölul. segir: ,, . . .   eiga ekki við um störf í opinberri þjónustu.``

    Ég tel það ekkert vandamál að skilgreina orðin ,,opinber þjónusta``. Ég hygg að hv. þm. væru nokkuð fljótir að verða sammála um það hvað félli undir þá skilgreiningu. Ég bað því um það að fá lista yfir þau störf sem féllu undir þetta ákvæði en því miður hefur hann ekki borist. Ég hef ítrekað spurningar mínar í þessu máli en ekki fengið nein svör. Hins vegar hafa menn sagt sem svo: Við getum ekki gefið þér upp lista yfir þau störf sem eru undanþegin þessu frelsi, en við getum gefið þér upp skilgreiningu. Og vitna til greinargerðar með frv. sem ég hef þrautlesið. En hún gefur okkur dálítið aðra niðurstöðu en textinn í 4. tölul. 28. gr. gefur til kynna. Ástæðan er sú að menn hafa látið dómstól Evrópubandalagsins ráða þróuninni í þessu. Dómstóll EB hefur verið látinn ráða því hvernig menn skilgreindu þessa undanþágu. Það er mjög athyglisvert vegna þess að það segir manni líka að við erum að setja það í raun í hendur dómstóls Evrópubandalagsins að skilgreina í framtíðinni hvernig þetta ákvæði eigi að túlkast.
    Það er eitt sem verður að gera sér grein fyrir þegar menn ræða um Evrópskt efnahagssvæði að það er ekki um eitthvert tiltekið ástand að ræða. Menn eru ekki með einhverja frysta mynd, kyrra mynd, heldur er um að ræða þróun sem mun verða á næstu árum. Það verða breytingar. Það sem skiptir máli er að hafa tangarhald á því hvernig þessar breytingar munu þróast.
    Ég hef spurt sem svo: Munum við ráða þessari þróun sjálfir? Munum við ráða því hvernig þetta undanþáguákvæði verður skilgreint? Munum við ráða því hvernig réttur einstaklinga til vinnu gagnvart stéttarfélögum þróast á komandi árum? Getum við þannig varist breytingum sem við viljum ekki sjá eða teljum að muni verða skaðleg íslensku samfélagi?
    Það er alveg augljóst mál að grundvallaratriði í þessum samningi er einsleitnin. Hin samræmda túlkun. Enda er það undirstrikað í samningnum og bókunum við hann. Það kemur líka fram að til þess að tryggja þessa einsleitni þannig að dómstóll EB fari ekki að þróa tiltekið ákvæði samningsins með öðrum hætti en t.d. dómstóll EFTA, þá er sett upp hin svokallaða sameiginlega EES-nefnd sem á að leiða þessa þróun saman þannig að menn fari ekki í ólíkar áttir. Þar hefur Evrópubandalagið girt sig af með sérstakri bókun á þann veg að þeir muni ekki láta neinn ráða þróun hjá sér. Dómstóll EFTA muni ekki hafa áhrif á þróun dóma hjá EB heldur muni það vera á hinn veginn. Ef menn leggja þetta saman þýðir þetta í rauninni að það verður auðvitað dómstóll EB sem mun ráða þróuninni hvað þetta varðar. Þó það sé kannski fullmikið að segja að það sé staðfest í samningnum með formlegum hætti er það þó svo vel sett niður að í reynd mun það verða þannig.
    Þetta er eitt af mörgum viðkvæmum sviðum þessa samnings og það er grundvallaratriði, virðulegi forseti, að við því fáist nokkuð skilmerkileg svör hvaða áhrif frelsi launþega hefur á íslenska samfélagsgerð hvað varðar stöðu stéttarfélaga. Og í öðru lagi hvaða störf eru undanþegin ákvæðinu um þetta frelsi? Þetta er nauðsynlegt að hafa alveg á hreinu þannig að menn geti gert sér grein fyrir því hvernig þetta gæti þróast og að menn þurfi ekki að deila um það sem á að liggja fyrir við samningsgerð hvernig ber að skilja þessa hluti.
    Ég hef sett fram mínar skoðanir á þessum tveimur atriðum og án þess að hafa fengið rök gegn þeim. Ég hef einfaldlega ekkert fengið annað en þögnina. Og ég hef sett fram efasemdir um að samningurinn væri með þeim varnöglum, skulum við segja, að við gætum varið þá samfélagsgerð sem við búum við hvað varðar stöðu stéttarfélaga á Íslandi. Þvert á móti hef ég dregið fram röksemdir til stuðnings því að samningurinn veikir stöðu stéttarfélaga og að kannski ekki strax en í tímans rás muni hann jafnvel brjóta niður stéttarfélögin sem eru grundvöllurinn að afli launþega hér á landi.
    Ég þarf ekkert að fara í langar útskýringar á staðreyndum í þessu. Ég veit að hæstv. starfandi utanrrh. þekkir alveg til hlítar hina mismunandi stöðu verkalýðshreyfingarinnar annars vegar í Evrópu og hins vegar á Norðurlöndum, sem kristallast m.a. í því að hér eru réttindin að verulegu leyti bundin samtökunum, eins og verkfallsréttur, en í Evrópu er þetta einstaklingsbundinn réttur sem grundvallast á rétti einstaklingsins, t.d. er verkfallsrétturinn þannig og staða stéttarfélaga er að sjálfsögðu háð þeirri staðreynd að þar er hinn fullkomni réttur til að standa utan stéttarfélaga. Ef það gengi hér yfir og yrði þróun sem við

yrðum að búa við t.d. á næstu 10 árum er ég hræddur um að alþýðuflokksmönnum á Vestfjörðum þætti staða verkalýðshreyfingarinnar vera orðin léleg ef hún væri í ætt við það sem gerist hjá flokksbræðrum alþýðuflokksmanna í Mið-Evrópu, t.d. Frakklandi. Ég er ekki viss um að þeir yrðu mjög kátir alþýðuflokksmenn úti á landi ef þeir mundu upplifa þá þróun sem ég hef verið að minna á að gæti átt sér stað og hef því miður allt of mikla ástæðu til að ætla að geti orðið að veruleika.
    Frá því að ég fór yfir þetta mál síðast við 2. umr. um frv. um atvinnu- og búseturétt hafa komið fram ný skjöl sem styrkja enn frekar þær grunsemdir sem ég hef haft uppi um að það væri á nokkuð veikum rökum byggt að halda því fram að þessi samningur hefði ekki áhrif á það atriði sem e.t.v. skipti mestu máli fyrir íslenska verkalýðshreyfingu sem er forgangsréttarákvæði félagsmanna til vinnu.
    Fyrir fáum dögum, 30. nóv., var útbýtt riti sem nefnist ,,Samanburður á íslenskri löggjöf og samþykktum Evrópubandalagsins. EB-gerðir sem til greina kemur að bætist við EES-samninginn.`` Með öðrum orðum er verið að boða að nýjar reglugerðir hafi komið og það muni þurfa að bæta þeim við þann samning sem við höfum verið að fjalla um. Þetta þýðir t.d. hvað varðar atvinnu- og búseturétt að það þarf að gera veigamiklar breytingar á því frv. sem liggur fyrir og er til 2. umr. og er fylgifrv. með þessum samningi. Og því miður breytingar sem lúta að því að styrkja launafólk erlendis til að afla sér vinnu hér og fella brott það sem kallaðar eru hér óbeinar takmarkanir fyrir aðgangi launafólks. Það kemur gleggst fram í því að gerð er breyting á 16. gr. reglugerðar nr. 1612/1968 og 20. gr. þeirrar reglugerðar er felld úr gildi, eins og þessi reglugerð liggur fyrir þinginu á þskj. 343. Hvað varðar 16. gr. er sú breyting gerð að það verður skylda að tilkynna um sérhvert laust starf sem skráð hefur verið hjá vinnumiðlunum EFTA-ríkis á EES grundvelli. Eins og er í frv. núna er þó ákvæði um að það séu bara þau störf sem ekki hefur reynst unnt að ráða í vinnuafl af innlendum vinnumarkaði sem eigi að tilkynna á EES grundvelli. Hér er því verið að veikja verulega stöðu þeirra sem eru á innlendum vinnumarkaði.
    20. gr. er mjög afdrifarík líka hvað þetta varðar og veikir stöðu innlends verkafólks gagnvart útlendingum. Menn eru því að boða breytingar á frv. sem fyrir liggur í þá átt að veikja stöðu íslensks verkafólks. Þetta tel ég afar alvarlegt mál, virðulegi forseti. Þessar breytingar sem hér eru kynntar í reglugerð nr. 2434 frá þessu ári hjá EB sem á að taka upp gera það að verkum að þingskjalið sem við ræddum fyrir skömmu um atvinnu- og búseturétt mun líta allt öðruvísi út eftir þessar breytingar en það hefur verið fram til þessa.
    Ég tel ekki vansalaust að boða svona miklar breytingar á jafnþýðingarmiklu máli þegar komið er fram undir lok umræðu og meðferð málsins á Alþingi. Auðvitað eiga þessi gögn að liggja fyrir strax í upphafi, alla vega sýnist mér að menn hafi haft nægjanlega langan tíma til þess að fjalla um þetta mál í undirbúningi þess sem staðið hefur víst tæplega þrjú ár.
    Ég tel, virðulegur forseti, ekki að sinni rétt að hafa frekari orð um þennan þátt málsins, um atvinnu- og búseturétt. Ég hef farið mjög hratt yfir sögu og hefði kannski þurft að fara ítarlegar yfir efnisatriði sem ég hef rætt við fyrri umræðu málsins og í umræðu um frv. um atvinnu- og búseturétt þar sem þriðji ráðherrann tekur við umræðunni um þetta mál. Ég á ekki von á að hæstv. iðnrh. hafi sett sig sérstaklega inn í þennan þátt málsins þannig að ég er svo sem ekkert vongóður um að fá svör við spurningum mínum nú fremur en hjá hæstv. utanrrh. eða hæstv. félmrh. sem hvorugur hefur talið sér skylt eða séð neina þörf á því að svara um þessi mikilvægu ákvæði.
    Ég vildi að lokum, virðulegi forseti, skora á þingmenn að kynna sér skýrslu sem félmrn. gaf út í janúar 1992 og nefnist ,,Erlent vinnuafl og frjáls atvinnu- og búseturéttur útlendinga``. Þar er mjög fróðlegar upplýsingar að finna um útlendinga hér á landi sem eru á vinnumarkaði og ýmsar aðrar upplýsingar sem eru mjög fróðlegar og gagnlegar fyrir þingmenn að hafa við höndina þegar þeir meta áhrif samningsins á þessu sviði. Í skýrslunni segir um almenna öryggisákvæðið, ég tel rétt að draga fram niðurstöðu greinarhöfunda, eftirfarandi, með leyfi forseta:

    ,,Enn sem komið er er óljóst hvenær og hvernig hægt er að bregðast við með vísan til almenns öryggisákvæðis ef aðflutningur útlendinga verður ekki í samræmi við það sem búist var við eða æskilegt geti talist af hálfu stjórnvalda og hagsmunaaðila. Hvenær er heildarfjöldinn of mikill hér á landi eða í einstökum byggðarlögum? Hverjir verða mælikvarðar dómstóla og einstakra ríkja á því hvað telst mikið og hvað telst lítið? Þessum spurningum er ekki hægt að svara enda eru svörin meira og minna stjórnmálalegs eðlis.
    Það er hins vegar umhugsunarefni hvort hægt er að ætlast til að EES-dómstóll eða einstök ríki hafi skilning á vandamálum sem upp kunna að koma í litlum byggðarlögum hér á landi. Ef EES-dómstóllinn starfar í líkingu við EB-dómstólinn þá má búast við að hann skilgreini öll slík undanþáguákvæði frá fjórfrelsinu mjög þröngt og að mjög veigamiklar röksemdir þurfa að liggja fyrir öllum takmörkunum á frjálsum atvinnu- og búseturétti.``
    Það má segja að þarna séu dregnir fram í stuttu máli þeir veikleikar sem eru í almenna öryggisákvæðinu. Menn eru að gangast undir ákvæði sem er mun veikara en sett var fram sem krafa Íslendinga í upphafi. Ég tel að heldur hafi verið um of gefið eftir í þessum efnum og má segja að í þessari skýrslu, sem unnin er á vegum félmrn. og Alþýðusambands Íslands, sé í raun bent á þessa sömu veikleika.
    Fleiri orð ætla ég ekki að hafa um þessa skýrslu, virðulegi forseti. Ég tel að hún sé mjög fróðleg og tel að þingmenn ættu að kynna sér efni hennar eftir föngum því hún varpar að mörgu leyti ljósi á hvernig ástandið er hjá okkur um þessar mundir og dregur fram staðreyndir sem hollt er að hafa í huga þegar menn reyna að gera sér grein fyrir væntanlegri þróun ef til þess kemur að þessi samningur verður að veruleika.
    Ég vil, virðulegur forseti, að svo stöddu láta máli mínu senn lokið. Ég hef afmarkað mig við nánast þrjú efnisatriði í þessu viðamikla máli. Ég á enn eftir að fara yfir sjávarútvegsþátt þessa máls og hugsanleg áhrif samningsins á byggðaþróun hér á landi sem ég hef raunar allmiklar áhyggjur af, ekki hvað síst þegar haft er í huga að enginn aðili á Íslandi hefur reynt að gera með skipulegum hætti úttekt á áhrifum samningsins á byggðaþróun hér á landi. Það hefur komið fram af hálfu hæstv. forsrh., sem er yfirmaður byggðamála hér á landi, að engin skipuleg athugun á þessu sé í gangi á vegum ráðuneytisins heldur er því einfaldlega slegið fram að þetta sé bara gott fyrir landsbyggðina. Punktur. Það dugar auðvitað ekki sem rök í málinu þegar fyrir liggur að eina úttektin sem gerð hefur verið og var gerð á vegum Byggðastofnunar dregur upp afar dökka mynd og bendir á miklar hættur á alvarlegri þróun byggðar hér á landi ef þessi samningur verður að veruleika eins og hann var uppsettur þegar skýrslan var gefin út, sem mig minnir að hafi verið í mars 1991. Í þeim meginatriðum sem skýrslan byggist á má segja að þar hafi ekkert það breyst sem gefi tilefni til að álykta að niðurstöður Byggðastofnunar yrðu aðrar í dag.
    Mér finnst það í raun og veru ámælisvert, virðulegur forseti, að ekki skuli af hálfu ríkisstjórnarinnar eða þingsins vera gerð alvarleg tilraun til þess að átta sig á því hvaða áhrif þessi samningur hefur á þróun byggðar hér á landi. Sú skýrsla sem ég hef undir höndum og eflaust aðrir alþingismenn dregur upp svo dökka mynd að það á að vera nægilegt tilefni til þess að rannsaka málið frekar og leitast við að gera sér grein fyrir líklegri þróun miðað við þær forsendur sem menn hafa.
    Í stuttu máli má segja að það sem blasir við landsbyggðinni að óbreyttu, gríðarlega skuldsettri undirstöðuatvinnugrein, sjávarútveginum, og ríkisstyrktum samkeppnisaðila í sjávarútvegi sem er á Evrópusvæðinu, er að landsbyggðin verði undir í samkeppninni um hráefnið. Það er sú niðurstaða sem Byggðastofnun kemst að og bendir á að það muni óhjákvæmilega leiða til gjaldþrota sem aftur leiða til þess að fiskvinnsla muni leggjast niður á mörgum stöðum þar sem hún er stunduð nú. Um leið bregðast forsendur fyrir búsetu á flestum þeim stöðum þar sem slíkt gerist.
    Þetta eru það alvarleg viðvörunarorð af hálfu Byggðastofnunar að ég tel það raunar ámæmlisvert, virðulegur forseti, að hæstv. ríkisstjórnin eða þingnefnd hafi ekki brugðist við með því að a.m.k. óska eftir úttekt á þessu máli í því skyni að reyna að glöggva sig á því hvort skýrsla Byggðastofnunar sé hin líklega niðurstaða við betri athugun eða

hvort það sé í raun þannig, eins og ég held reyndar, að Byggðastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu sem er eins góð og hægt er að gera miðað við núverandi forsendur. Þá spyr maður: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að halda uppi búsetu á landsbyggðinni ef hún ætlar að láta þennan samning ganga í gildi? Það hlýtur að kalla á gagnaðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar nema það séu áform hennar að breyta svo búsetumynstrinu hér á landi að menn hafi ekki séð slíkar breytingar á jafnskömmum tíma í háa herrans tíð. Það væri fróðlegt ef hæstv. starfandi utanrrh. sæi sér fært að víkja að þessum einhverjum orðum. Það væru þá fyrstu svörin sem við þingmenn fengjum að heyra um byggðalegan þátt þessa samnings.