Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 16:05:46 (3728)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér fara vægast sagt mjög sérkennilegar umræður fram af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hér er látið að því liggja að ríkisstjórnin vilji stefna í átök við aðila vinnumarkaðarins. Það er látið að því liggja að ríkisstjórnin sitji bara auðum höndum og geri ekkert þrátt fyrir það atvinnuástand sem við búum við. Hún vilji ekki samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Mér finnst að svona málflutningur dæmi sig sjálfur.
    Í veigamiklum atriðum eru efnahagsaðgerðirnar byggðar á tillögum aðila vinnumarkaðarins. Að vísu förum við ekki eins langt eins og var í tillögum ASÍ varðandi t.d. skattaaðgerðir. Á þeim stutta tíma sem ég hafði til umráða greindi ég frá aðgerðum sem ríkisstjórnin er að vinna að einmitt líka til þess að flýta ýmsum aðgerðum í atvinnumálum. Ég nefndi vegamálin þar sem er verið að flýta aðgerðum. Ég nefndi aðgerðir varðandi atvinnumál á Suðurnesjum sérstaklega þar sem er verið að setja 500 millj. í átak til þess að spyrna gegn atvinnuleysinu þar. Þá hefur ríkisstjórnin gert samkomulag við sveitarfélögin um framlag til verkefna sem auka atvinnu. Svo er það talin ósvinna hér að nefna EES sem tækifæri til þess að auka hér atvinnu.
    Mér finnst þetta vægast sagt mjög sérkennilegur málflutningur. Ég vil einnig segja af því að það er verið að tala um samdrátt í kjörum fólks að vissulega er samdráttur í kjörum fólks, enda er það kannski ekki sérkennilegt þegar þjóðartekjur dragast verulega saman og afli stórlega minnkar að það komi fram í kjörum fólks. Og ég vil minna á að við höfum áður gengið í gegnum erfiðleika vegna ytri aðstæðna eins við erum að ganga í gegnum núna. Ég nefni árin 1988--1989. Þá voru Framsfl. og Alþb. við völd. Þá var gripið til aðgerða t.d. í kjölfar ( Gripið fram í: Alþfl. líka?) Já, Alþfl. líka, mikilla verðlækkana sjávarafurða. Það varð breyting á raungengi um 8%. Hvert var kaupmáttarhrapið eftir þær aðgerðir? Það var 7,8% en við erum að tala um kaupmáttarhrap á næsta ári upp á 4,4%. Þeirra aðgerðir voru ekki veigameiri en það á þessum tíma. Mér finnst því að Alþb. og Framsfl. hafi ekki efni á því að gagnrýna þessar aðgerðir.
    Og að gera lítið úr starfsmenntun eins og fram kom t.d. hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur þykir mér mjög sérkennilegt. Ég held að starfsmenntunin sé einmitt tæki til þess að búa í haginn fyrir t.d. ófaglært fólk.
    Mér finnst það líka mjög sérkennilegt þegar hv. þm. Guðrún Helgadóttir telur mig ekki þekkja neitt kjör fólks eða hafa skilning á þeim. Ég vísa því á bug. Hún talar um það að fólk geti ekki lifað af 40 þús. kr. atvinnuleysisbótum. Það er alveg satt. En voru ekki atvinnuleysisbæturnar á tíma þegar Alþb. stjórnaði þær sömu? (Forseti hringir.) Og ég spyr líka af því að hún nefnir barnaheimilisplássin, sem vissulega eru dýr, þau voru líka dýr í tíð Alþb. þegar það stjórnaði.
    Mér finnst því allur þessi málflutningur dæma sig sjálfur og að það sé einhver úrlausn í þessu efni að ríkisstjórnin fari frá. Hverjar eru tillögur stjórnarandstöðunnar í atvinnumálum? Það væri rétt að fá þær upp á borðið. Það er bara verið að gagnrýna og gagnrýna og gagnrýna en aldrei komið fram með tillögur. (Forseti hringir.) Og ég vil nefna það líka varðandi aðgerðir í sambandi við velferðarmál að ég get þó í tíð þessarar ríkisstjórnar komið í veg fyrir það að samdráttur verði á byggingu félagslegra íbúða sem var erfitt þegar Alþb. stjórnaði. Það var líka komið í veg fyrir að kjör t.d. fatlaðra væru skert.