Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 16:44:17 (3736)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við 2. umr. um fjáraukalögin fyrir yfirstandandi ár er rétt að gera sér grein fyrir því hver markmiðin voru þegar fjárlögin voru samþykkt í fyrra. Þau voru, eins og hér hefur komið fram áður, afgreidd með rúmlega 4 milljarða halla. Nú er viðurkenndur halli upp á 9,5 milljarða og í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu níu mánuðina kemur fram að með fjárskuldbindingum, m.a. vegna Framleiðnisjóðs og lántökum ríkisins vegna búvörusamninga, muni vanta 2,6 milljarða. Með þessu öllu stefnir í 11,6--12,1 milljarðs halla á fjárlögum yfirstandandi árs. Því er alveg ljóst að markmiðin náðust ekki sem sett voru við fjárlagagerðina í fyrra. Hallinn rúmlega tvöfaldaðist á árinu, jafnvel þrefaldaðist.
    Lántökur ríkissjóðs voru í fjárlögunum tæplega 13,5 milljarður en verða núna með þessum fjáraukalögum, verði þau samþykkt, orðnir tæpir 20 milljarðar kr. Lántökurnar verða 19,8 milljarðar kr. Ég tel ekki að hér sé um tímamótafjárlög að ræða. Verðbólgan varð að vísu minni en áætlað hafði verið við gerð fjárlaganna, þ.e. ef miðað er við þá níu mánuði sem skýrsla Ríkisendurskoðunar tekur til af árinu. Hins vegar er of snemmt að spá alveg fyrir um það þar sem gengislækkunin hefur áhrif og ekki er búið að reikna með henni og var ekki reiknað með neinni gengislækkun í forsendum fjárlaga enda hafði ríkisstjórnin svo sem kunnugt er alveg aftekið það að gengislækkun kæmi til greina.
    Eins og kom fram áðan í umræðum utan dagskrár þá hefur atvinnuleysi einnig orðið margfalt meira en fjárlögin gerðu ráð fyrir enda var það líka með öllu óraunhæf áætlun. Allt benti til þess að atvinnuleysi mundi stóraukast sem hefur áhrif á tekjur ríkissjóðs í formi tekjuskatts og óbein áhrif í veltu og það hækkar líka að sjálfsögðu framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Ríkisstjórnin gerði ekkert í atvinnumálum á síðasta ári, ekki neitt. Það aðgerðaleysi er nú að skila sér í lækkuðum tekjum ríkissjóðs á þessu ári. Er þá ekki minnst á það böl sem atvinnuleysið er fyrir fjölda einstaklinga og heimila sem raunar kom þó nokkuð vel fram í þeirri umræðu sem hér fór fram áðan utan dagskrár. Atvinnuleysi er meira núna en nokkru sinni fyrr sem sögur fara af síðan mælingar á því hófust. Alls hækka útgjöldin í kringum 3 milljarða kr. og tekjurnar lækka um 2,4 milljarða. Það gerir því viðbótarhalla á greiðslugrunni upp á 5,4 milljarða. Einnig er athyglisvert það mat Ríkisendurskoðunar á þeim sparnaði, sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir lýsti skoðun sinni á áðan, á fyrstu níu mánuðum ársins er 1,9 milljarðar, segir skýrsla Ríkisendurskoðunar. En hver er þessi sparnaður? Hann er aðallega fólginn í því að vaxtagjöldin eru lægri vegna minni verðbólgu hingað til á árinu og upphæðin er 900 millj. kr. minni en áætlað hafði verið. Eignakaup eru 900 millj. kr. lægri og þá erum við komin með 1,8 milljarð kr. af þessum 1,9 milljarða kr. svokallaða sparnaði.
    Hagræðingin og sparnaðurinn felst því einkum í lægri vaxtagreiðslum og minni eignakaupum, ekki í annarri hagræðingu eins og látið er í veðri vaka. Vera má að þegar upp verður staðið eftir árið hafi orðið nokkur samdráttur í rekstrargjöldum ríkisins og er það vel ef svo væri. Mér sýnist þó að það sé ekkert í samræmi við það sem að var stefnt og nægir að benda á halla fjárlaga til merkis um það. Mest er þó hækkunin umfram fjárlög hjá heilbr.- og trmrn. eða samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar þá er umfram greitt 1.643 millj. kr.
    Sá sparnaður sem fyrirhugaður var í heilbrrn. er algjörlega óraunhæfur eins og reyndar hefur komið fram í umræðum á undan. Eins og áðan sagði er nú farið fram á 1.600 millj. kr. viðbótarframlag til þeirra mála, þ.e. í fjáraukalagafrv., en ekki eru öll kurl komin til grafar þar. Hér erum við með brtt. sem aðeins í heilbrrn. eru upp á 307 millj. kr. til hækkunar. Það gerir sem sagt viðbótarframlag til heilbrigðis- og tryggingamála upp á í kringum 1 milljarð 950 millj. kr. Á sama tíma muna hv. þm. e.t.v. eftir því að sparnaðurinn í heilbrigðis- og tryggingakerfinu á þessu ári átti að vera um 2 milljarðar kr. Það þýðir að enn þá er eftir 50 millj. kr., af þessum áætlaða 2 milljarða kr. sparnaði sem nást átti. Það hefur ekki náðst meiri sparnaður en það ef við getum kallað það sparnað.

    Þessar brtt. sem meiri hluti fjárln. leggur fram eru að meiri hluta til vegna heilbrigðis- og tryggingamála. Þær eru allt í allt upp á 335 millj. 600 þús. og af því er til heilbrigðis- og tryggingamála 307 millj. kr., af 335 millj. sem tillögurnar hljóða upp á.
    Ég tel að sá sparnaður sem fyrst og fremst átti að ná í heilbrrn. hafi sýnt sig að nást alls ekki. Þær 50 millj. sem ég gat um áðan verða örugglega farnar fyrir árslok. Þess ber að geta að enn er ekki kominn lyfjakostnaður, það er ekki enn búið að ganga frá því hvernig farið verður með a.m.k. 400 millj. kr. viðbótarkostnað vegna lyfja.
    Því er alveg ljóst að þegar við erum að ræða um fjáraukalagafrv. fyrir yfirstandandi ár þá hefur halli fjárlaga þrefaldast. Auka þarf lántökur ríkissjóðs um líklega 6 milljarða kr., úr 13,4 sem fyrirhugað var í 19,8, og það stemmir í raun og veru við þann halla sem við erum að tala um að frá 4 milljörðum upp í 12 þá hækka lántökurnar líka frá 13 milljörðum upp í 19. Þetta eru staðreyndir málsins.
    Eins og kom fram í nál. minni hlutans, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. fór yfir áðan, þá eru ekki öll kurl komin til grafar enn þá. T.d. vantar enn þá viðbótarfjárveitingu vegna Hafrannsóknastofnunar. Aðeins er gert ráð fyrir 83 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til Hafrannsóknastofnunar í þessu frv. og brtt. en það er alveg ljóst að það muni vanta um 300 millj. kr. enn þá og ekki er gert ráð fyrir því hér.
    Eins og ég gat um áðan í sambandi við atvinnuleysið og Atvinnuleysistryggingasjóð þá munum við standa frammi fyrir vanda þar þegar árið verður gert upp. Því miður er ein meginástæðan sú að ríkisstjórnin hélt ekki vöku sinni í sambandi við atvinnumál landsmanna eftir að hún settist að völdum. Hún svaf algjörlega á verðinum í því að halda uppi fullri atvinnu. Það er að koma í ljós í dag og mun halda áfram að koma í ljós. Staðreyndin er nefnilega sú að gangi ekki atvinnulífið nokkurn veginn eðlilega fyrir sig þá hefur það áhrif alls staðar inni í hagkerfinu og að sjálfsögðu líka í tekjuöflun ríkissjóðs.
    Ég veit ekki hvað ég á að eyða tíma þingsins í að fara mikið yfir þessi fjáraukalög. Mér sýnist að hér sé komið fram aðalefnið í því sem þarf að draga fram og ég legg áherslu á að þær aðferðir sem beitt var til að ná fram aðalniðurskurðinum eða aðalsparnaðinum við fjárlög yfirstandandi árs, þ.e. í heilbrigðis- og tryggingakerfinu, hefur ekki náðst. Sá sparnaður er enginn, aðeins hefur náðst að vaða þar um eins og fíll í postulínsbúð eins og sumir þingmenn orða það og hræra og andskotast --- afsakið, virðulegi forseti, --- ef ég má orða það svo, þetta slapp bara óvart út úr mér. En árangurinn er því miður enginn þar.