Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 17:11:45 (3741)

     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Þegar það fjáraukalagafrv., sem hér er til umræðu, fjáraukalagafrv. fyrir árið 1992, er komið til 2. umr. þá verður mér hugsað til fjárlagaafgreiðslunnar á síðasta ári. Þá voru það fyrstu fjárlög sem núv. ríkisstjórn átti aðild að og þá voru mikil áform um að skila nú hallalausum fjárlögum eða sem hallaminnstum. Og fjárlögin fyrir yfirstandandi ár voru með halla upp á 4,1 milljarð kr. eins og komið hefur fram í þessum umræðum. Við 2. umr. fjárlaga sl. haust sagði ég á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Því miður er það mín reynsla eftir að hafa starfað í minni hlutanum síðan í haust að ég tel mig ekki hafa nógu góða yfirsýn yfir marga liði, margar beiðnir sem hefur verið synjað. Ég tel mig ekki hafa nógu góða yfirsýn yfir það hvernig þeir aðilar ætla að sjá sínum störfum farboða á næsta ári. Hvort það verður ekki svo að menn koma og segja þegar fer að líða á næsta ár: Við þurfum að fá hér heimildir á fjáraukalögum. Ég er því miður hræddur um að svo verði.``
    Síðar, og það eru lok minnar ræðu, kem ég að því að formaður fjárln., hv. 6. þm. Reykn., minntist á ágætis sögupersónu sem hét Ásbjörn Jóakimsson sem neitaði að ferja mann yfir Skerjafjörð, hann ræddi nokkuð um hann í sinni framsöguræðu. Og ég segi svo, með leyfi forseta: ,,Og ég held að á það skorti mjög og ég held að það verði svo að þessir aðilar komi aftur á fund fjárln. þegar fer að líða á árið og biðji um leiðréttingu vegna óhjákvæmilegra starfa eða þjónustu. Því miður þó að formaður fjárln., hv. 6. þm. Reykn., hafi verið skáldlegur í gær og ætli ekki að ferja ,,kóngsins mann yfir Skerjafjörð``, eins og Ásbjörn Jóakimsson neitaði um forðum, þá býður mér í grun að einhverjar aukafjárveitingar verði ferjaðar yfir Skerjafjörð í óeiginlegri merkingu áður en næsta ári lýkur.``
    Nú erum við í því að ferja þessar aukafjárveitingar yfir Skerjafjörð. Og því miður höfum við hv. þm. ekki staðfestu Ásbjörns Jóakimssonar. En ég vil þó hafa okkur eilítið til afsökunar --- ég efast ekki um góðan vilja fjárlaganefndarmanna og meiri hlutans til að standa í stykkinu og þessi orð hv. formanns fjárln. voru áreiðanlega sögð á sínum tíma í fullri meiningu og þeim ásetningi að standa í ístaðinu. En þrátt fyrir það er halli fjárlaga nú orðinn 9,4 milljarðar kr. samkvæmt fjáraukalagafrv. sem við erum með í höndunum á móti 4,1 milljarði. Þetta segir ekki alla söguna því að ef fjáraukalagafrv. er gert upp á þann hátt sem Ríkisendurskoðun vill og telur rétt, á rekstrargrunni, þá er þessi halli yfir 12 milljarðar kr. eða eins og hv. 6. þm. Vestf. sagði í sinni ræðu, orðinn þrefaldur. Ég tel --- og það kemur reyndar fram í frv. hver er meginástæða fyrir þessu og þeir hv. ræðumenn, sem hafa talað hér á undan, hv. 1. þm. Norðurl. e., hv. 6. þm. Vestf. og 14. þm. Reykv., hafa öll komið inn á það --- að það sem hefur fyrst og fremst brugðist eru tekjurnar í frv. Tekjurnar hafa dregist saman um 2,4 milljarða kr. eins og kemur fram í því frv. sem við erum með í höndunum. Og það er fyrir almennan samdrátt í þjóðfélaginu. Mér flaug ekki í hug á þeim tíma sem ég sagði þessi orð fyrir ári síðan og var verið að tala um aðkallandi efnahagsaðgerðir og aðgerðir í atvinnumálum að það mundi líða heilt ár þangað til ríkisstjórnin kæmi með efnahagsaðgerðir upp

á borðið til að bregðast við þessum vanda og það væru svo ekki liðnar nema nokkrar vikur þangað til hún færi að hverfa frá þeim aftur. Ég hafði ekki hugmyndaflug þá til að ímynda mér hver framvindan yrði í þessum málum. En þessa sér rækilega stað í fjáraukalagafrv. og þess vegna er hallinn svo gífurlegur sem raun ber vitni. Ein meginástæðan er aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Mér dettur ekki í hug að með opinberum aðgerðum sé hægt að ráða bót á öllum vanda. Ég geri mér alveg fullkomlega ljósan þann vanda sem við er að etja vegna minnkunar fiskveiða á yfirstandandi ári. En það er þó alveg furðulegt að við þessar aðstæður skuli ríkisstjórnin sitja og hafast ekki að í heilt ár. Og aðgerðirnar séu svo með þeim endemum sem raun ber vitni þegar þær sjá dagsins ljós núna á þessum vetrardögum.
    Efni frv., sem við erum með í höndunum, hefur verið rakið og einnig þær brtt. sem gerðar eru og viðbótarútgjöld. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að bæta. Hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur rakið þau mál og gert þeim skil í sinni ræðu. En mér býður svo í grun að ekki séu enn öll kurl komin til grafar. Ég hef ekki nokkra trú á að það takist svo dæmi séu nefnd að selja aflaheimildir Hagræðingarsjóðs á þeim fáu dögum sem eftir lifa ársins upp á 312 millj. kr. Það er ágætt að vera bjartsýnn og kannski veitir ekki af svolítilli bjartsýni á þessum dimmu dögum. En ég held að þetta gangi ekki eftir, því miður, og þessi vandi sé óleystur enda var allt þetta Hagræðingarsjóðsmál á sínum tíma ein hringavitleysa og var varað við því alveg sérstaklega fyrir ári síðan að fara þessa leið. Sannleikurinn er sá að svona er komið vegna þess að það voru stórmál, miklar aðgerðir, mikil áform varðandi lyfjakostnað, sölu ríkiseigna, sölu aflaheimildar Hagræðingarsjóðs sem allt reyndist vitleysa. Það gekk ekkert upp af þessu og þess vegna er komið sem komið er. Ég efast ekki um það að starfsmenn opinberra stofnana hafa reynt að standa í stykkinu. Og ég ætla að láta meiri hluta fjárlaganefdarmanna njóta sannmælis í því að þeir hafa áreiðanlega reynt að gera það líka. En það er ríkisstjórnarstefnan sem er ástæðan fyrir því að svona er komið. Það er sú stefna samdráttar og aðgerðaleysis sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir allt þetta ár sem er meginástæðan fyrir því að við sitjum uppi með þennan gífurlega halla.
    Ýmsar leiðréttingar hafa verið gerðar við þetta frv. sem óhjákvæmilegar voru og ber að virða það. En það er brýnast að fá nýja stefnu sem eykur bjartsýni í þjóðfélaginu, örvar atvinnulíf og atvinnu því eins og málin standa nú erum við í vítahring.