Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 17:23:24 (3742)


     Frsm. meiri hluta fjárln. (Karl Steinar Guðnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Aðeins nokkur orð. Mér finnst umræðan hér vera á þann veg að ekkert sé að í þjóðfélaginu annað en það að það sé önnur ríkisstjórn en stjórnarandstæðingar vilja hafa. Staðreyndin er sú að líklega þekkir fólkið það úti í sjávarplássunum betur en þingmenn hvert ástandið er í efnahagsmálum, hvert ástandið er hjá fiskstofnunum, hvernig staðan er í sjávarútveginum, þá staðreynd að fiskveiðar hafa minnkað um helming. Og a.m.k. skynjar atvinnulausa fólkið og fólkið sem enn hefur vinnu það hvað er að og hvers vegna er samdráttur. Það er ekki af manna völdum heldur vegna þess að við höfum minna úr að spila en áður. Ég vil líka segja það að ef stjórnarmeirihlutinn hefði látið undan öllum kröfum þá stæðum við frammi fyrir 25--30 milljarða kr. halla en ekki þó þeim halla sem nú er.
    Ég gerði mér alltaf grein fyrir því að um aukafjárveitingar yrði að ræða og auðvitað er erfitt að kljást við það en hjá því verður ekki komist og ég á von á því að engum hafi dottið það í hug að allt stæðist. En það hefur staðist betur en áður. Árangur hefur náðst, vissulega mikill árangur. Það hefur verið snúið frá eyðslustefnunni í aðhaldsstefnu sem gerir okkur kleift þegar við höfum unnið okkar verk að halda áfram á beinni braut.
    Við munum halda því áfram að fara með ríkisfjármálin á þann hátt að atvinnulífið verður treyst og því verður forðað að atvinnuleysið aukist frá því sem nú er. Það er forgangsverkefni og með aðgerðum okkar erum við að gera það, því verður haldið áfram og við munum hvorki láta undan í þeim efnum né öðrum.